Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta mál allt er hið undarlegasta og sýnir betur en margt annað hvers konar vinnubrögð eru hér á Alþingi og hvers konar mál er verið að taka hér upp. Enginn veit neitt. Það er verið að starfa á mörgum stöðum að sama málinu og afgreiða það á mismunandi hátt. Þetta eru þvílík vinnubrögð að þau ná bara ekki nokkurri átt. Það veit enginn hvað menn vilja. Menn vilja eitt jú, menn vilja björgunarþyrlu, en menn eru að semja og samþykkja þáltill. um slíkt, menn eru að afgreiða í deildum mál um að setja af stað happdrætti um slíkt, menn eru að koma inn á lánsfjárlög heimildum til að taka lán til þess að kaupa slíka þyrlu. Þetta eru margir aðilar og hver að vinna í sínu horni og það er ekkert samræmi á milli. Síðan kemur fjmrh. með eina útgáfuna í viðbót. Ég verð að lýsa því yfir að þetta er sú dæmalausasta afgreiðsla sem ég hef nokkurn tíma vitað á nokkru máli.
    Ég lýsi því hér yfir að ég kem ekki til með að starfa við þetta mál öllu frekar. Mín vegna má það leggjast niður. Það eina sem mér gekk til í þessu máli var að tryggja að þyrla yrði pöntuð á þessu ári, en síðan er fjmrh. kominn, einhverra hluta vegna sem ég hef ekki hugmynd um, með þá grillu í höfuðið að það sé hægt að breyta fjárlögunum þannig að koma fjárlagaheimildum í lánsfjárlög og tryggja málið þannig. Ef þetta er raunin þá sætti ég mig við það að sjálfsögðu. En eftir stendur að það er engin fjármögnun þó að oft hér á þessu blessaða þingi og sem lánsfjárlög bera með sér, sé alltaf verið að fresta vandanum, það er verið að ýta á undan sér vandamálunum. Menn þora ekki að taka á tekjuvandamálum ríkissjóðs. Menn eru bara að ýta vandanum til komandi kynslóða og það er enn þá verið að því. Menn verða að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru. Við eyðum bara of miklu. Við viljum vera svo góð, við viljum styrkja öll góð málefni, en við viljum ekki setja á skatta sem nauðsynlegir eru. Og það gildir jafnt um þá flokka sem standa nú að ríkisstjórn og þá sem eru í stjórnarandstöðu þó svo að þeir sem eru í stjórnarandstöðu nú, og þá sérstaklega Sjálfstfl., lýsi því yfir að hann ætli að lækka hér skatta á næstu árum, hvernig í andskotanum sem hann ætlar að fara að því, og ég bið afsökunar á þessu orðalagi.
    En það sem ég vildi til viðbótar segja í þessari umræðu er að ég taldi það henta mjög vel til að standa að fjármögnun á þessari þyrlu til að koma í veg fyrir aukna skattheimtu að gefa þeim sem vildu styðja þetta málefni kost á því að styðja það með því að kaupa happdrættismiða. Og á sama tíma erum við að koma á hér á landi öflugri björgunarþyrlu sem svo sannarlega er þörf á. En ef menn vilja fara þessa leið þá fara þeir hana að sjálfsögðu. En eins og ég sagði áðan kem ekki til með að ýta frekar á þetta mál. Ég er víst búinn að gera nóg í þessu máli og hef fengið mikla gagnrýni fyrir og ég hlýt að vera maður til að standa undir því.