Stjórn þingstarfa
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég hlýt að óska eftir því að þessum fundi verði slitið. Við vorum í miðri umræðu um annað mál. Ég var þar á mælendaskrá og gerði að sjálfsögðu ekki athugasemd við það að umræðunni yrði frestað vegna þess að ég taldi víst að til stæði að efna til fundar í Sþ. Það hefur verið útbýtt til okkar þingmanna dagskrá og í henni stendur að vísu að það skuli efna til fundar í Sþ. þegar að loknum fundi eða fundum í Ed. og Nd. Ég tók það svo að hugmyndin væri að ræða þar ýmis mikilsverð mál sem ekki var hægt að taka á dagskrá í gærkvöldi þar sem ráðherrar voru ekki viðlátnir og er kannski ekki í fyrsta skipti.
    Nú stendur svo á um frv. til grunnskólalaga að ég hafði ekki hugmynd um að málið yrði tekið á dagskrá fundarins í dag, enga hugmynd um það. Ég hef ekki kynnt mér hvort eða hvaða brtt. hafa komið fram við þetta frv. í Nd. Ég hef þess vegna ekki haft tök á því að kynna mér hvernig málið er afgreitt frá Nd. Á hinn bóginn hélt ég að við værum hér að tala um annað mál sem varðar miklu og það er frv. til laga um happdrætti vegna björgunarþyrlu.
    Ég skal ekki um það segja hvort hæstv. forseti verður við beiðni minni um það að láta dagskrá ganga fram með eðlilegum hætti, taki aftur þá dagskrá sem hér liggur fyrir en haldi áfram þeirri umræðu sem hér var í fullum gangi í dag. Nú á enn einu sinni að byrja á þessum leik sem virðist vera einhver aðaltaktur og háttur þingsins að verða, að slíta í sundur umræður þannig að þegar hinn næsti maður tekur til máls í sambandi við sjóðshappdrætti er óhjákvæmilegt fyrir hann að hafa í höndum þær ræður sem áður höfðu verið haldnar um málið, rifja upp helstu atriði þess sem þar var sagt til þess að þær athugasemdir sem þingmaðurinn gerir á síðari stigum skiljist í réttu samhengi og þingmenn átti sig á hvers vegna athugasemdir komi fram.
    Ég veit að hæstv. forseti hefur á þessu fullan skilning. Ég veit líka að hæstv. forseti skilur það að við sem erum í menntmn. þurfum e.t.v. á því að halda að varpa fram vissum fyrirspurnum til hæstv. menntmrh. varðandi afgreiðslu málsins í Nd., varðandi þær umsagnir sem komið hafa fram um grunnskólafrv. Ég gerði ráðstafanir til þess í dag að fá þær umsagnir í hendur til þess að ég geti glöggvað mig á þeim fyrir 1. umr. málsins. Ég hygg að það séu ekki meira en 15 eða 20 mínútur síðan ég fékk þær umsagnir í hendur. Þeim tíma hef ég ekki varið til að kynna mér þær heldur varði ég tímanum til þess að lesa skýrslu um ríkisfjármál árið 1990 sem hæstv. fjmrh. lét dreifa hér í deildinni í dag. Ég vildi gjarnan af því tilefni fá nú, þegar ég tala um þingsköp, tækifæri til þess að taka umræðu um það plagg fram í þingsköpum því að athugasemdir af því tagi sem ég hafði við það plagg að gera eru auðvitað þingskapaumræða þar sem ekki er því til að dreifa
að sérstaklega sé gert ráð fyrir því að skýrsla af þessu tagi sé rædd undir venjulegum dagskrárlið. Á hinn

bóginn hefur hæstv. fjmrh. hafið umræðu í Sþ. um skýrslur sem hér hafa verið lagðar fram af Ríkisendurskoðun og ég geri mér þess vegna grein fyrir því að það kemur hæstv. fjmrh. ekki á óvart þó að ég vilji nú taka upp umræður um ríkisfjármál hér í deildinni með sama hætti og hann á sínum tíma tók upp umræður um Ríkisendurskoðun og urðu önnur þingmál að bíða á meðan.
    Hæstv. ráðherra var einmitt hér í þessum ræðustól að tala almennt um Alþingi og ríkisfjármálin þegar þessari skýrslu var útbýtt. Ég tel nauðsynlegt að gefa hæstv. fjmrh. kost á því að fara nánar út í þær umræður og vil þess vegna óska eftir því að náð verði í hæstv. fjmrh. til þess að ég geti nú talað við hann um þau atriði sem hann ræddi áðan. Ég hafði satt að segja ekki ætlað mér að taka ríkisfjármálin upp í dag en hæstv. fjmrh. kaus að gera það undir þeim lið sem heitir frv. um happdrætti vegna björgunarþyrlu. Mér finnst óviðeigandi að halda þeirri umræðu áfram undir dagskrárliðnum grunnskóli, enda hlyti það að valda því að þau skoðanaskipti yrðu mjög torsótt þar sem ég hef ýmislegt að segja, svo ekki sé meira sagt, um stjórn hæstv. menntmrh. á skólamálum almennt. Ég hef ýmislegt að segja um það frv. til grunnskólalaga sem hér liggur fyrir. Ég hef ýmislegt að segja um það sem hæstv. menntmrh. ætlast til af sveitarfélögunum í landinu og ég hef ýmislegt að segja um það hvernig hæstv. menntmrh. auglýsir sjálfan sig og sín verk í Morgunblaðinu og kostar til þess álitlegum fjárhæðum úr ríkissjóði, auðvitað vegna þess að hann finnur að fáir eru til þess að taka upp hans sjónarmið án þess að hann geti birt rökstuðning sinn sem auglýsingu og borgi fyrir hann dýrum dómum með fé úr ríkissjóði og þykir honum þá auðvitað best ef slík auglýsing getur verið í litum og á þriðju síðu í Morgunblaðinu kannski, ég man það nú ekki nákvæmlega.
    Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. komi hér þannig að ég geti rætt við hann um þessa skýrslu, grænu skýrslu sem hér liggur fyrir og varðar störf þingsins, varðar afkomu ríkissjóðs og almenna mannasiði í sambandi við þau plögg sem útbýtt er hér á hinu háa Alþingi.