Afgreiðsla dagskrármála
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég tók það svo að það hefði verið fyrir því skilningur að grunnskólalög yrðu ekki rædd nú á þessum fundi og vil gjarnan spyrjast fyrir um þetta. Ég hef aflað mér gagna til þess að átta mig á því í fyrsta lagi hvernig frv. lítur út núna. Jafnframt hafa nokkrar breytingar verið gerðar á grunnskólafrv. frá því að það var lagt fram á síðasta þingi sem ég tel nauðsynlegt að rifja upp auk þess sem margvíslegar, eins og ég sagði áðan, umsagnir hafa borist um frv. Ég held að það svari ekki tilgangi eða fyrirhöfn að fara að taka upp eitthvert langt mál um þetta nú. Ég veit að hæstv. forseti minnist þess að hæstv. menntmrh. lét sig ekki muna um það að tala heila nótt þegar koma átti fram stjfrv. meðan hann var hér síðast í stjórnarandstöðu. Þannig að ég veit að hann hefur á því fullan skilning ef þingmenn telja sér nauðsynlegt að nota þá hæfileika sem þeim eru gefnir til þess að frekar lengja sitt mál ef þeir telja að sér sé misboðið eða þeim sýnist á annan hátt að nauðsynlegt sé að þeir fái nokkurt tóm til þess að kynna sér þau mál sem á dagskrá eru. Þetta veit ég að hæstv. forseti skilur allt saman en ég skal á hinn bóginn ekki um það fullyrða hvort hann álítur að ég hafi burði til að leika það eftir hæstv. menntmrh. að flytja hér tölur fram á morgun og raunar fram yfir hádegi hinn næsta dag þegar mér er mikið niðri fyrir.