Grunnskóli
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Umræður um þetta mál hafa dregist nokkuð á langinn og má segja að ekki sé síst við sjálfan ráðherrann að sakast sem hefur með upphlaupum í blöðum gefið ærin tilefni til að ræða vítt og breitt um þennan málaflokk við þessa umræðu. Ég tel að það standi einkum tvennt upp úr umræðunni nú þegar sígur á seinni hluta hennar. Annars vegar að leitt hefur verið í ljós að þrátt fyrir fögur fyrirheit um aukið sjálfræði og sjálfstæði sveitarfélaganna í þessum málaflokki gengur þetta frv. í mörgum veigamiklum þáttum í gagnstæða átt. Því miður. Í öðru lagi er líka leitt í ljós að fjárhagsgrundvöllur frv. er á brauðfótum og það hefur ekki verið sýnt fram á hvernig þeir aðilar sem skipta með sér greiðslu kostnaðar af framkvæmd þessara laga eigi að ráða við hin nýju verkefni sem í frv. felast og ekki fullnægjandi áætlanir eða skýringar á þeim veigamikla þætti málsins að mínum dómi.
    Ég hafði hugsað mér að inna hæstv. ráðherra nokkuð eftir afstöðu hans til þeirra brtt. sem ég hef flutt á þskj. 812. Það eru einu brtt. sem fram hafa komið hér í þessari deild enn sem komið er og eru hvorki efnismiklar í raun né torskildar. En ástæðan fyrir því að ekki eru fluttar ítarlegri brtt. hér af hálfu Sjálfstfl. er auðvitað sú að við teljum að vísa hefði átt þessu máli á nýjan leik til ríkisstjórnarinnar til nánari úrvinnslu.
    En mér heyrðist við 2. umr. málsins sem hæstv. ráðherra tæki undir nokkur af þeim atriðum sem ég gerði þar að umtalsefni og hef síðan lagt hér fram í formi brtt. þannig að mér þætti vænt um að fá svör hans við því hvernig hann hyggst beita sér í þeirri atkvæðagreiðslu sem væntanlega mun fara hér fram í dag eða á morgun um þessar brtt. Þarna eru nokkur atriði sem skipta töluverðu máli, ekki síst fyrir sveitarfélögin eins og t.d. það að sveitarstjórnum í fjölmennari sveitarfélögum skuli sjálfum heimilt að skipta þeim í skólahverfi, eins og það að skólanefnd skuli ákveða nafn á skóla og tilkynna ráðuneytinu, eins og það að sveitarfélög geti án leyfis menntmrn. hafið framkvæmdir við skólamannvirki og eins og það að skólagjöld í einkaskólum skuli ekki háð samþykki menntmrn.
    Svo er þarna eitt skipulagsatriði um skipan grunnskólaráðs sem er kannski ekki stærsta brtt. en aftur á móti er hér eitt skólapólitískt stórmál að mínum dómi og það er afstaða löggjafarvalds til svokallaðra afburðanemenda og hvort Alþingi treystir sér til þess í lögum að kveða á um rétt slíkra barna til þess að fá þá aðstoð og hvatningu sem þroski þeirra og kraftar gefa tilefni til.
    Þetta er nú það sem ég hafði hugsað mér að segja hér í þessari annarri ræðu minni við þessa umræðu. Ég hef engan hug á því að standa hér í allan dag, virðulegi forseti, þó að hv. 2. þm. Vestf. hafi nú verið að gefa eitthvað í þá áttina í skyn með frammíkalli sínu hér. ( ÓÞÞ: Góð tíðindi.) Já, ég vænti þess að þingmanninum þyki það. En ég óska eftir því að

ráðherra greini okkur frá því hvort hann hafi mótað afstöðu til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir, þær eru ekki margar, og ættu að vera hæg heimatök að fá upplýsingar um það mál.