Atvinnuleysistryggingar
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96 frá 1990.
    Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og fengið á sinn fund fulltrúa bæði Alþýðusambands Íslands og vinnuveitendasamtakanna. Einnig barst nefndinni umsögn frá Félagi viðskipta- og hagfræðinga, reyndar var það óumbeðin umsögn en í henni er eindreginn stuðningur fólginn við það frv. sem hér er til meðferðar.
    Aðilar vinnumarkaðarins skiptast hins vegar nokkuð í afstöðu sinni til þessa máls en benda má á að af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna er því haldið fram að breyting eins og þetta frv. gerir ráð fyrir á lögum um atvinnuleysistryggingar sé óhjákvæmileg afleiðing af því að upp var tekið tryggingagjald hér fyrir jólin og önnur launatengd gjöld þar með felld niður. Málið snýst um það að eftir að tryggingagjald var upp tekið og í einhverjum mæli áður hefur verið innheimtur skattur í Atvinnuleysistryggingasjóð af öllum launþegum, af öllum launum. Hins vegar hafa ekki allir haft jafnan rétt í þessum sjóði þrátt fyrir að hafa greitt í hann. Þetta frv. gengur út á það að afnema þessa mismunun þannig að allir launþegar eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef þeir verða fyrir þeirri ógæfu að missa vinnu sína en ekki aðeins þeir sem félagsbundnir eru í stéttarfélögum.
    Ég flutti ítarlega ræðu um þetta mál við 1. umr. málsins og skal ekki endurtaka hana, virðulegi forseti. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni og meiri hl., sem leggur til að frv. verði samþykkt, mynda auk mín hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ragnhildur Helgadóttir og Guðmundur G. Þórarinsson. Við leggjum til að þetta frv. verði samþykkt eins og það var lagt fram í deildinni.