Náttúrufræðistofnun Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því tækifæri sem mér gefst til að mæla fyrir þessu frv. sem markar tímamót í náttúrurannsóknum á Íslandi. Þegar þetta frv. hefur vonandi einhvern tímann, þó það verði kannski ekki á þessu þingi, sem nú er óðum að ljúka, en vonandi á næsta þingi þar á eftir, fengið endanlega afgreiðslu má búast við því að náttúrurannsóknum á Íslandi verði búinn betri grundvöllur og rennt verði styrkari stoðum undir rannsóknir á náttúru Íslands sem er mjög í samræmi við þá strauma sem nú eru uppi í umhverfisverndarmálum og náttúruverndarmálum.
    Fljótlega eftir að verkefni umhvrn. höfðu verið ákveðin með lögum sl. vor skilaði menntmrn. til umhvrn. ýmsum þeim verkefnum sem þangað áttu að flytjast frá menntmrn. M.a. var frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sem menntmrn. hafði haft til meðferðar. Það frv. var samið af nefnd sem Svavar Gestsson menntmrn. hafði skipað þann 13. júní 1989 til að fjalla um byggingu náttúrufræðihúss og um endurskoðun laga nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands. Formaður þeirrar nefndar var Hjörleifur Guttormsson alþingismaður, en aðrir í nefndinni voru Eyþór Einarsson grasafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Jóhann Pálsson grasafræðingur, tilnefndur af Reykjavíkurborg, Sveinbjörn Björnsson prófessor, tilnefndur af Háskóla Íslands, Kristín Einarsdóttir alþingismaður, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og Þórunn J. Hafstein, deildarstjóri í menntmrn. Með nefndinni störfuðu Hrafnkell Thorlacius arkitekt og Kristín A. Árnadóttir fulltrúi.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar voru verkefni hennar skilgreind á eftirfarandi hátt:
    1. að semja drög að frv. til nýrra laga um náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands með hliðsjón af tilhögun frá fyrri árum,
    2. að kanna möguleika á samkomulagi um byggingu náttúrufræðihúss á höfuðborgarsvæðinu með aðild Náttúrufræðistofnunar, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og hugsanlega fleiri aðila,
    3. aðrir þættir sem tengjast þessum málum og nefndin vildi koma á framfæri. Í tengslum við starf sitt var nefndinni gert að athuga stöðu náttúrugripasafna í öðrum landshlutum með tilliti til rannsókna og samstarfs við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í því sambandi var nefndinni m.a. falið að fara sérstaklega yfir fyrirliggjandi hugmyndir um byggingu náttúrufræðihúss á Akureyri.
    Nefndin valdi sér heitið NNN-nefnd þar eð allmargar stjórnskipaðar nefndir hafa glímt við svipað verkefni á undanförnum árum á undan þeirri nefnd sem hér um ræðir. Var þetta því gert til þess að aðgreina hana frá fyrri nefndum sem höfðu starfað að þessu sama máli.
    Aðstæður í náttúrufræðirannsóknum á Íslandi hafa breyst mjög frá því lög um Náttúrufræðistofnun Íslands voru sett árið 1965. Rannsóknastofnanir atvinnuveganna hafa eflst til muna, þar á meðal Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Þá hafa náttúrugripasöfn verið stofnuð á nokkrum stöðum á landinu og við sum þeirra eru stundaðar allvíðtækar rannsóknir. Við Háskóla Íslands hefur nú verið tekin upp kennsla í líffræði og jarðfræði og þar vinna margir prófessorar og sérfræðingar í rannsóknum. Síðan hefur verið stofnaður háskóli á Akureyri, norræn eldfjallastöð er komin á fót hérlendis, og við hana fara fram margþættar jarðfræðirannsóknir, lög um rannsóknaráð ríkisins hafa verið endurskoðuð og komið hefur verið á fót sérstöku vísindaráði sem hefur m.a. það verkefni að gera tillögur um stefnumörkun fyrir vísindastarfsemi í landinu og fylgjast með skipulagi og starfi vísindastofnana. Því tók NNN-nefndin tillit til þessara breyttu aðstæðna við samningu frv. og þeirra ábendinga sem komu fram hjá hinum fjölmörgu aðilum sem nefndin fékk til umsagnar og til ráðgjafar.
    Helstu atriðin í áliti NNN-nefndarinnar, sem hún skilaði 22. mars árið 1990, voru eftirfarandi: Í fyrsta lagi var sérstök tillaga um byggingu náttúruhúss í Reykjavík. Í greinargerð með frv. er fjallað sérstaklega um það verkefni, þó það tengist ekki beint þessum lögum nema að litlu leyti. Síðan var svo frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Helstu atriði þess frv. eru sem hér segir:
    Náttúrufræðistofnun er skilgreind sem landsstofnun og getur hún verið með aðsetur á allt að sex stöðum á landinu. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða var þó í frv. aðeins gert ráð fyrir einu slíku setri utan Reykjavíkur á næstu fimm árum. Var ætlað að stofnuninni skyldi sett sérstök stjórn sem skipuð yrði af ráðherra.
    Þá er í frv. upphaflega gert ráð fyrir að veita náttúrustofum í kjördæmunum tiltekinn fjárhagsstuðning frá ríkinu, enda mundu þær þá falla undir ákvæði laganna, þ.e. hvað varðar verkefni og stjórn. Í ákvæðum til bráðabirgða var kveðið á um að heimild skyldi veitt fyrir tveimur slíkum náttúrustofum innan fimm ára frá gildistöku laganna.
    Þá er gert ráð fyrir að uppbygging og rekstur náttúrusýningasafna skuli aðskilin frá rannsóknunum og verða verkefni sérstakra félaga sem hugsanlega gætu starfað sem sjálfseignarstofnanir.
    Rannsóknir er tengjast umhverfismálum geta verið meðal verkefna Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofa en samkvæmt núgildandi lögum fer umhvrh. með þau málefni sem frv. tekur til.
    Síðan er kveðið á um tengsl Náttúrufræðistofnunar við aðrar rannsóknastofnanir og samstarf hennar og náttúrustofa.
    Þá eru sett ný og fyllri ákvæði um menntunarkröfur deildarstjóra og sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar.
    Það má því segja að með því frv. sem nefndin samdi hafi verið settur starfsrammi um náttúrufræðirannsóknir á Íslandi í samræmi við þá strauma sem eru í þjóðfélaginu og í heiminum almennt í tengslum við rannsóknir á náttúru og umhverfismálum.

    Umhvrn. taldi rétt að kanna betur nokkur atriði í frv. áður en það yrði lagt fyrir Alþingi, einkum þau atriði sem lutu að stjórn og skipulagi Náttúrufræðistofnunar. Við þá endurskoðun á vegum ráðuneytisins störfuðu Jón Gunnar Ottósson, deildarsérfræðingur í umhvrn., og Davíð Þór Björgvinsson, dósent við lögfræðideild Háskóla Íslands. Áttu þeir m.a. viðræður við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands og unnu breytingartillögur sínar í nánu samráði við fulltrúa Náttúrufræðistofnunar. Voru gerðar nokkrar breytingar á frv. í framhaldi af þessari vinnu og eru þær sem hér segir:
    Heimild til að Náttúrufræðistofnun hafi aðsetur utan Reykjavíkur er rýmkuð. Þannig gætu setur stofnunarinnar alls orðið sex að setrinu í Reykjavík meðtöldu. Miðað er við að í framtíðinni verði eitt slíkt setur á Norðurlandi, eitt á Austurlandi, eitt á Suðurlandi, eitt á Vesturlandi, eitt á Vestfjörðum og síðan eitt setur í Reykjavík.
    Þá var gerð breyting á ákvæðum upphaflegs frv. um skipun stjórnar og verkefni hennar afmarkað á skýrari hátt en áður.
    Kveðið er á um að ráðherra skipi forstöðumenn setra og að forstöðumaður seturs í Reykjavík verði jafnframt forstjóri stofnunarinnar í heild. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk forstjóra, forstöðumanna og stjórnar. Þessar breytingar miða að því að gera stjórnunarþáttinn einfaldari og skilvirkari án þess þó að draga úr sjálfstæði einstakra setra.
    Ákvæði um skipun dómnefnda til að fjalla um hæfni manna til að gegna stöðum hjá stofnuninni voru felld niður úr upphaflegu frv. ásamt nokkrum ákvæðum um innra skipulag stofnunarinnar. Er frekar gert ráð fyrir því að nánari ákvæði um þessi atriði og önnur er lúta að stjórn og starfsemi stofnunarinnar verði sett í reglugerð eins og talað er um í 16. gr. frv.
    Varðandi sjálft frv. og hinar einstöku lagagreinar þá er í I. kafla fjallað um Náttúrufræðistofnun Íslands og þau setur sem til greina getur komið að koma upp. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi stjórn Náttúrufræðistofnunar, eins og greint er frá henni í 4. gr. frv., til fjögurra ára í senn. Fastráðnir starfsmenn náttúruseturs í Reykjavík tilnefni einn mann í stjórn, fastráðnir starfsmenn annarra setra og náttúrustofa með ríkisaðild í kjördæmum tilnefni einn sameiginlega og Hið íslenska náttúrufræðifélag tilnefni einn. Ráðherra skipi síðan tvo án tilnefningar og verði annar þeirra formaður og hinn varaformaður. Ráðherra skipar enn fremur forstöðumann hvers seturs til sex ára í senn að fengnum tillögum stjórnar Náttúrufræðistofnunar en forstöðumaður náttúruseturs í Reykjavík er jafnframt forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Í II. kafla er fjallað um náttúrustofur. Þar er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að leyfa starfrækslu einnar náttúrustofu með ríkisaðild í hverju kjördæmi. Slíkar náttúrustofur skulu starfa í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Getur starfsemi náttúrustofu verið á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi eftir skipulagi sem rekstraraðilar koma sér saman um.

Heimilt er kjördæmum að sameinast um eina náttúrustofu ef það þykir henta.
    Ég tel ekki nauðsynlegt að fara nákvæmlega yfir hverja einstaka lagagrein fyrir sig. Þær eru mjög skýrar og segja í raun og veru allt sem segja þarf. Ég vildi rétt aðeins hér að lokum geta um ákvæði til bráðabirgða en þar er talað um setur Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri og gert ráð fyrir því að það sé óháð ákvæðum 3. gr. þessara laga þar sem segir: ,,Auk seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands í Reykjavík getur umhvrh. heimilað að stofnuð verði önnur setur utan Reykjavíkur að fengnum tillögum frá stjórn Náttúrufræðistofnunar og eftir því fé sem veitt er til slíks á fjárlögum.`` Segja má að setrið á Akureyri sé nánast þegar komið upp og er einungis hér um að ræða að koma því inn í þennan lagaramma sem hér er verið að fjalla um. Það var því talin ástæða til þess að undanskilja það frá ákvæðum 3. gr. frv. Þá er jafnframt í ákvæði til bráðabirgða fjallað um að það skuli unnið að því í samvinnu við heimamenn á Austurlandi að koma þar á fót náttúrustofu eigi síðar en í ársbyrjun 1993 og á Suðurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1994.
    Þetta var um sjálft frv. Eins og ég gat um í upphafi máls míns var það hluti af verkefni NNN-nefndarinnar að gera tillögur um byggingu náttúruhúss í Reykjavík sem yrði bæði rammi utan um starfsemi seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands í Reykjavík og jafnframt rammi utan um náttúrugripasafn. Það verkefni hefur orðið að samstarfsverkefni milli umhvrn. og menntmrn. svo og Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Þegar hefur verið skipaður samstarfshópur til að undirbúa byggingu þessa húss, sem er áætlað að rísi á háskólalóð. Þar hefur því verið valinn staður í fögru umhverfi í námunda við friðlýst svæði rétt hjá Norræna húsinu sem er mjög við hæfi. Umhverfið þar mundi hæfa náttúruhúsi og náttúrugripasafni mjög vel.
    Kristinn Helgason, skrifstofustjóri í umhvrn., er formaður þessa starfshóps en aðrir í starfshópnum eru Sveinbjörn Björnsson prófessor, Háskóla Íslands, Örn Helgason prófessor, Háskóla Íslands, Álfheiður Ingadóttir líffræðingur, Sveinn Jakobsson Náttúrufræðistofnun, Hjörleifur Kvaran frá Reykjavíkurborg og Þórður Þorbjarnarson borgarverkfræðingur, Reykjavíkurborg. Nefndin hefur þegar hafið
störf sín og hefur þegar skilað stuttri greinargerð um náttúrufræði - og vísindasöfn á Norðurlöndum, en Hrafnkell Thorlacius arkitekt hefur unnið með starfshópnum. Það má því segja að kominn sé góður skriður á undirbúning þessa mikilvæga máls. Ég tel þetta eitt af merkari málum sem við höfum hér til meðferðar, a.m.k. á vegum umhvrn., að leggja því lið að sem allra fyrst megi byggja myndarlegt hús um starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og utan um náttúrugripasafn, en það hefur að segja má verið á hrakhólum undanfarna áratugi og er núna í lélegu húsnæði að Laugavegi 105 við Hlemmtorg. Þó að þar sé búið að gera allt sem hægt er að gera miðað við þær aðstæður sem þar ríkja, og er reyndar til fyrirmyndar hvernig safnið lítur út í dag, þá er það á engan hátt

fullnægjandi húsnæði og menningarþjóð eins og við teljum okkur vera hlýtur að vilja koma upp fullkomnu húsi utan um náttúrufræðirannsóknir og náttúrugripasafn, enda erum við öll sammála um það vonandi að náttúra Íslands sé það athyglisverð og merkileg að við teljum að Náttúrufræðistofnun Íslands hljóti að eiga verða búinn góður starfsvettvangur og góð starfsskilyrði.
    Að lokum má svo geta þess að það var leitað til fjmrn. og beðið um kostnaðarumsögn um frv., hvað þetta mundi þýða í beinum fjárútlátum fyrir íslenska ríkið. Í umsögn fjmrn. kemur fram að ef öll þau auknu verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands á landsbyggðinni ná fram að ganga sem frv. gerir ráð fyrir hefði það í för með sér um 16 -- 17 millj. kr. árlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þegar öllum ákvæðum frv. hefur verið framfylgt. Ráðgert er að stofna nýtt setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri í ársbyrjun 1992, það er varla hægt að tala um 1991 eins og kemur fram í bréfinu. Áætlaður kostnaðarauki ríkissjóðs vegna yfirtöku á starfsemi Náttúrufræðistofnunar Norðurlands yrði um 7,5 millj. á ári samkvæmt fyrirliggjandi gögnum Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Vegna aukinna umsvifa á Akureyri væri þörf á fjölgun stöðugilda og stækkun húsnæðis og er kostnaðarauki vegna þess metinn á 4 -- 5 millj. kr. á ári. Þá er samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í frv. gert ráð fyrir, eins og áður greindi, kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við rekstur Náttúrufræðistofu Austurlands í fyrsta skipti á árinu 1992 og á Suðurlandi í fyrsta skipti á árinu 1993. Má gera ráð fyrir að þörf sé fyrir fjárveitingu að upphæð 2,3 millj. kr. á ári vegna hvorrar náttúrufræðistofu auk einhvers stofnkostnaðar samkvæmt fjárveitingu á fjárlögum hverju sinni.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir þessu frv. og aðdraganda þess. Ég legg svo til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til allshn. og 2. umr.