Náttúrufræðistofnun Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vildi einungis koma hér til að fagna því að sjá þetta frv. á borðum þingmanna þó nokkuð seint sé þar sem nokkur tími er nú liðinn frá því að nefndin sem samdi frv. skilaði af sér. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera í þeirri nefnd eins og fram kemur í greinargerð með frv. og kom einnig fram í máli hæstv. umhvrh. Eru fáar nefndir sem ég hef starfað í sem hefur verið eins ánægjulegt og skemmtilegt að starfa í og þessari.
    Það gleður mig einnig að heyra hjá hæstv. ráðherra hversu mikinn skilning hann sýnir þessu máli og hversu ánægður hann er með störf nefndarinnar sem þetta frv., sem hér er sett fram, er árangur af. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að taka heildstætt á málum Náttúrufræðistofnunar og tryggja framtíð hennar. Eins og fram kemur í 5. gr. þessa frv. hefur hún mikilvægum verkefnum að sinna. Vona ég að þær raddir sem stundum heyrast um að hún skuli leggjast niður muni þagna hið fyrsta.
    En ég verð þó að koma með örfáar athugasemdir og get ég tekið undir þær athugasemdir sem komu fram í máli hv. 2. þm. Austurl. varðandi stjórn stofnunarinnar. Ég er ekki ánægð með þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá því að nefndin skilaði af sér. Ég tel ekki að sá andi sem við vorum að reyna að fá fram í nefndarstarfinu hafi komið fram. Við lögðum mikla áherslu á það að hvert setur væri jafnrétthátt, öll þau fimm sem við gerðum ráð fyrir að væru þarna þannig að setrið í Reykjavík væri ekki sett hinum ofar. Með 4. gr. frv., eins og hún lítur út núna, er gert ráð fyrir að setrið í Reykjavík sé sett ofar hinum. Fastráðnir starfsmenn í Reykjavík tilnefna einn mann í stjórn en fastráðnir starfsmenn annarra setra og náttúrufræðistofa tilnefna einn sameiginlega. Þetta þykja mér vera mjög slæmar breytingar frá því sem áður var vegna þess að ég tel það mjög mikilvægt að öll setrin séu jafnrétthá til að skipa í stjórnina. Það sama gildir um forstöðumann. Ég tel það ekki ganga að forstöðumaður eins setursins, sem er náttúrufræðistofnun í Reykjavík, verði jafnframt forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fram kemur í athugasemdum að þetta hafi verið m.a. gert eftir viðræður við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands hér í Reykjavík. Langar mig til að ítreka þá spurningu sem hér var borin fram af hálfu hv. 2. þm. Austurl., hvort haft hefði verið samráð við aðra aðila og vil ég sérstaklega inna eftir hvort haft hefði verið samráð við Náttúrufræðistofnun Norðurlands á Akureyri. Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að setrið á Akureyri verði stofnað mjög fljótlega þannig að það er mjög mikilvægt að þeir sem þar eru séu sáttir við þá niðurstöðu sem hér er fengin. Ég óttast að ekki muni verða sátt um þessa niðurstöðu, sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem eru utan Reykjavíkur.
    Ég átta mig alls ekki á breytingu að því er varðar skipun dómnefndar á bls. 6 þar sem talað er um að ákvæði um skipun dómnefndar til að fjalla um hæfni manna til að gegna störfum hjá stofnuninni hafi verið felld niður. Ég átta mig ekki á hvers vegna þessi leið hefur verið valin og langar mig til að inna hæstv. umhvrh. eftir því af hvaða ástæðum þetta var gert. Þetta ákvæði er tekið nánast upp úr háskólalögum þar sem gert er ráð fyrir að skipaðar séu dómnefndir þegar sérfræðingar og fastir starfsmenn eru ráðnir. Ég tel að það eigi sama að gilda um þessa stofnun og um Háskóla Íslands. Þætti mér fróðlegt að vita hvers vegna hefur verið fallið frá ákvæði um skipun dómnefndar.
     Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þessi atriði hér en vil ítreka ánægju mína með það að hæstv. umhvrh. skuli hafa lagt þetta frv. fram og hans orð, hið jákvæða viðhorf sem fram kom í máli hans þegar hann mælti fyrir frv.