Tilhögun þingfunda
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Svo hefur um samist að þinghald hér í kvöld og e.t.v. fram í nóttina fari fram með þeim hætti að fyrst verður fyrir tekið 16. dagskrármál, sem er skýrsla um vaxtamál, en síðan, þegar þeirri umræðu lýkur, verði fram haldið umræðu um 13. dagskrármál, stjtill. um samning um álver.
    Nú þarf ekki að segja hv. þingheimi að mjög sneyðist nú á tíma þingsins ef von er til að þinghaldi ljúki eins og ákveðið hafði verið. Það er því beiðni forseta að umræða um skýrslu um vaxtamál dragist ekki mikið fram yfir miðnætti, standi helst nokkru skemur þannig að einhver tími gefist til að ræða samning um álverksmiðju.
    Það er ljóst að fundir í Sþ. verða mjög stuttir það sem eftir lifir þings og vill nú forseti beina þeirri ósk til hv. þm. að þeir reyni nú mjög að gerast gagnorðir, eins og löngum hefur verið talinn kostur í ræðumennsku, án þess að forseti vilji skerða málfrelsi manna á nokkurn hátt.