Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Sjálfstfl. er aftur byrjaður á því að segja hér í þingsölum: Nú get ég. Hverjir voru raunvextir spariskírteinanna þegar formaður Sjálfstfl., fyrrv., var fjmrh.? Tæp 9%. Hverjir voru raunvextirnir á almennum markaði þegar Sjálfstfl. fékk að ráða öllu hérna í efnahagsmálunum? 14 -- 18%. Hverjir eru þeir núna? Þeir eru vissulega of háir. En hvað hafa þeir lækkað mikið? Hefur Sjálfstfl. rætt það hér í þessari umræðu? Nei. Kann Sjálfstfl. einhver ráð til að lækka vexti? Svarið er nei. Reynslan sýnir að Sjálfstfl. kann hins vegar ráð til að hækka vexti. Það kann hann vel og það sýnir reynslan.
    Ég sagði í sjónvarpinu í kvöld og ég segi eins og forsrh. sagði einnig hér: Ég stend við hvert orð af því sem ég sagði. Seðlabankinn hagar sér þannig að það er engu líkara en það sé verið að breyta honum í kosningaskrifstofu fyrir Sjálfstfl. Er það nokkur furða. ( ÞP: Á það við um Tómas Árnason?) Já, ég lýsti því yfir og það var það eina sem ég skildi ekki, hvernig stæði á því að hann væri búinn að láta draga sig inn í þetta hús, þessa kosningaskrifstofu Sjálfstfl. sem búið er að byggja í Seðlabankanum.
    Ég hef lýst því yfir hér í ræðustól á Alþingi að við mótmæltum því, ráðherrar Alþb., að viðskrh. gerði hv. fyrrv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson að seðlabankastjóra í anda gamla lénsskipulagsins sem gildir hér á Íslandi. Halda menn að hægt sé að búa til nútímahagstjórn á Íslandi með þetta gamla pólitíska lénsskipulag þar sem Sjálfstfl. heimtar bankastjóra í Landsbankanum, Sverri Hermannsson og Sjálfstfl. heimtar bankastjóra í Seðlabankanum, Birgi Ísl. Gunnarsson? Hvers vegna er Sjálfstfl. að heimta bankastjóra í viðskiptabönkunum og Seðlabankanum? Er það til að þjóna faglegum vinnubrögðum? Nei. Það er til þess að geta rekið pólitíska stefnu Sjálfstfl. í gegnum bankakerfið. Það er ástæðan. Þess vegna halda menn þessu gamla lénsskipulagi. Og ég spyr: Eru menn búnir að gleyma því að núv. seðlabankastjóri, Birgir Ísl. Gunnarsson, er frambjóðandi Sjálfstfl. í Reykjavík? (Gripið fram í.) Hann situr á framboðslistanum með hv. þm. Friðriki Sophussyni og borgarstjóranum í Reykjavík. Hann er í framboði fyrir Sjálfstfl., seðlabankastjórinn hv., Birgir Ísl. Gunnarsson. Og hvað segir bankastjórinn í viðtali við DV eftir landsfund Sjálfstfl.? Er það ekki merkilegt að bankastjórinn gengur út af þessum sérkennilega landsfundi og hvað segir hann? Með leyfi forseta: ,,Menn eru sjálfsagt móðir eftir þetta. En nú snúa allir bökum saman og fara í kosningabaráttuna.`` Þeir í Seðlabankanum eru komnir í kosningabaráttuna. Svo eru menn að hneykslast á því þó að ég hafi sagt í sjónvarpinu að þetta væri orðin kosningaskrifstofa fyrir D - listann. Seðlabankastjórinn segir það sjálfur í DV. Hann gengur vígreifur út af landsfundinum og segir: Nú erum við komnir í kosningabaráttuna. ( FrS: Hvar lærði ráðherra íslensku?) Ég lærði hana í MR, hv. þm., sem hefur verið talað allt of illa um í þessum umræðum hér í kvöld. ( FrS: Það hefur ábyggilega ekki verið fyrr á lífsleiðinni.) Það getur vel verið, hv. þm. Ég tek eftir því að hann er hættur að brosa og byrjaður að grípa fram í. ( GHH: Það er verst að Guðmundur Hjartarson er hættur í Seðlabankanum.) Já, Guðmundur Hjartarson stóð sig vel í Seðlabankanum, enda var það ekki fyrr en eftir að hann fór úr Seðlabankanum sem raunvextirnir fóru virkilega að hækka. Það var nefnilega einmitt eftir að Guðmundur Hjartarson fór úr Seðlabankanum að raunvextirnir fóru að hækka. (Gripið fram í.) Já, hann lætur verkin tala, enda var hann fulltrúi fyrir flokk sem getur og flokk sem þorir. Hvað hafa bankastjórar Sjálfstfl. gert? Hvað hafa þeir gert? (Gripið fram í.) Guðmundur Hjartarson var í Alþb. Það er rétt. En Alþb. hefur flutt þá tillögu í ríkisstjórninni að þetta gamla lénskerfi sé lagt niður. ( Gripið fram í: Hvar er Lúðvík?) Lúðvík er í bankaráðinu, hann er ekki bankastjóri. Það er mikill munur á því hverjir sitja í bankaráðum og eru bankastjórar og ef hv. þm. hefur ekki lært það enn, þá er ekki von að hann læri það úr þessu.
    Sjálfstfl. hefur lagt á það kapp að hafa bankastjóra í Landsbankanum. Pétur Benediktsson, Jónas Haralz, sem lýsti því yfir þegar hann varð bankastjóri í Landsbankanum í viðtali við Morgunblaðið að hann væri bankastjóri Sjálfstfl., orðrétt. Og síðan er fyrirrennari hv. þm. Kristins Péturssonar, foringi Sjálfstfl., Sverrir Hermannsson, sem var samkvæmt eigin sögn galvaskur á landsfundinum. Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, galvaskur á landsfundinum, og sagði samkvæmt frásögn Morgunblaðsins í dag eftir ræðu borgarstjórans í Reykjavík: ,,Þetta var masterpiece.`` ( FrS: Alvörubankastjóri.) Já, alvörubankastjóri, mættur á landsfundinum til þess að gefa mönnum einkunn. Svo eru þessir menn að tala um fagleg vinnubrögð. Fagleg vinnubrögð hverra? Pólitíkusanna úr Sjálfstfl. sem allt í einu halda það að þeir séu orðnir faglegir bankamenn af því að formaður flokksins valdi þá í bankastjórastólinn? Varð Birgir Ísl. Gunnarsson faglegur bankamaður bara á einum mánuði? Hann er búinn að vera rúman mánuð í bankanum og er allt í einu orðinn voðalega faglegur. ( SalÞ: Og hann hefur greinilega afrekað miklu eftir orðum hæstv. fjmrh.) Já, hann hefur greinilega afrekað miklu, það er alveg rétt. ( SalÞ: Hefur allt gerst á einum mánuði sem hann er að tala um?) Nei, það hefur ekki alveg gerst á einum mánuði, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, en það hefur aukist. Og það er orðið alveg blygðunarlaust. Og það er búið að taka utan af því umbúðirnar. Og það hefur aldrei fyrr gerst að seðlabankastjóri komi út af landsfundi stjórnmálaflokks tveimur mánuðum fyrir kosningar og segi: Nú erum við komnir í kosningabaráttuna. ( SalÞ: Við hverjir?) Seðlabankastjórarnir og Sjálfstfl.
    Nýjasta embættisskipunin í Seðlabankanum er að Ólafur Ísleifsson hefur verið gerður að yfirmanni alþjóðadeildarinnar. ( FrS: Þú segir ekki?) Jú. Varstu ekki búinn að frétta það, hv. þm. Friðrik Sophusson? ( KrP: Er þetta fyrirlestur í stjórnmálafræði?) Ja, það veitir greinilega ekki af að útskýra fyrir hv. þm. að austan, sem veit ekki muninn á bankaráðsmanni og

bankastjóra, hver munurinn er. Hver er Ólafur Ísleifsson? Efnahagsráðgjafi fyrrv. forsrh., Þorsteins Pálssonar, sérstakur fulltrúi Sjálfstfl., dálkahöfundur í Morgunblaðinu sem réðst á þessa ríkisstjórn í tvö ár fyrir það að hún væri að gera allt vitlaust í efnahagsmálum. Hann er valinn til sérstakra trúnaðarstarfa inni í þessari kosningavél Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Ég hef ekki ráðið neina starfsmenn í fjmrn. nema þá sem fara út með mér um leið og ég fer. ( SalÞ: Já, en þeir eru þarna.) Já já, þeir eru þar sem pólitískir fulltrúar og ekki er verið að draga neitt fjöður yfir það. En munurinn er hins vegar sá, það er dregin fjöður yfir þá sjálfstæðismenn sem fara inn í bankann, hvort sem það er sem seðlabankastjórar eða yfirmenn alþjóðadeildarinnar og halda áfram að þjóna Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Og það er auðvitað það sem er að í þessu þjóðfélagi að það er búið að breyta Seðlabankanum í pólitíska stofnun. Þessir textar sem hafa verið að koma frá Seðlabankanum hér undanfarið, svokallaðar skýrslur og bréf, eru bara pólitískir textar og það er þess vegna sem ég leyfði mér að segja að maður er hættur að lesa þá vegna þess að fjármálaráðherra íslenska ríkisins fær ekkert nýtt að vita úr þessum textum. Þetta er hugmyndafræðileg prédikun í efnahagsmálum sem kemur frá Seðlabankanum og hefur ekkert með hagstjórn að gera. ( FrS: Af hverju er beðið um þetta?) Ja, ég er alveg sammála þingmanninum um þetta. Ég hef sagt það í ríkisstjórninni, (Gripið fram í.) ég er búinn að segja það í ríkisstjórninni núna í nokkra mánuði: Menn eiga að hætta þessum spurningaleik við Seðlabankann. ( FrS: Af hverju tekur ríkisstjórnin ekki mark á fjármálaráðherranum?) (Gripið fram í.) ( Forseti: Má ég biðja hæstv. fjmrh. að gera hlé á ræðu sinni meðan forseti segir þetta: Þessi dagur er mikill gleðinnar dagur þar sem Alþýðusamband Íslands er 75 ára í dag. En menn verða að hafa hér hemil á kæti sinni yfir þessum merka atburði og leyfa þeim sem stendur í ræðustól að tala.) ( Utanrrh.: Vill ekki forseti minnast 75 ára afmælis Alþfl.?) Já, ég tek undir það. Alþfl. er líka 75 ára í dag. Það er tilefni fyrir tvöfalda gleði og það er tilefni til þess að rifja upp merkustu stjórnmálayfirlýsingu núv. formanns Alþfl. ( Gripið fram í: Á rauðu ljósi?) Nei. Að reka ónefndan mann. ( ÞP: Hvaða mann?) Seðlabankastjórann. ( ÞP: Hvaða seðlabankastjóra?) Jóhannes Nordal. ( Gripið fram í: Var það merkasta yfirlýsingin?) Já. Hún er sú fleygasta. Það var að vísu önnur sem kom á rauðu ljósi, á skemmtilegum fundum á Akureyri og varð líka fleyg. Hún var sú samkvæmt lýsingu formanns Alþfl. að þeir gerðu ekkert annað en naga blýanta þarna í Seðlabankanum. Ég verð nú að segja það, ég er yfirleitt hrifnari af því sem formaður Alþfl. segir um Seðlabankann en því sem viðskrh. segir um Seðlabankann. ( MÁM: Eru allir að fara úr fjmrn.?) Eru allir að fara? Nei, ekki aldeilis. ( MÁM: Jæja, ráðherra sagði að það færu allir þegar hann færi.) Þegar, hv. þm. Ég leyfði mér nú ekki, hv. þm., að segja ef.
    Virðulegi forseti. Þetta er búið að vera, eins og aðalforsetinn sagði, nokkuð skemmtilegt. En það er

kannski tími til kominn að fara að nefna hérna einhverjar tölur, fara að tala svona um nokkrar staðreyndir í málinu. Hvað hefur þessi blessaði Seðlabanki verið að segja í þessum skýrslum og þessum bréfum? Hann hefur verið að prédika það að ægilegasta vandamálið sé þessi voðalega fjárþörf ríkissjóðs. Og þessar skýrslur eru matreiddar á þann hátt að það er eins og hún hafi farið bara vaxandi, stórkostlega vaxandi og það sé aðalvandamálið. Hverjar eru staðreyndirnar? Reiðir Seðlabankinn þær fram í sínum skýrslum og sínum bréfum? Nei. Setur Seðlabankinn tölurnar í eitthvert sögulegt samhengi? Nei. Seðlabankinn forðast að nefna staðreyndirnar. Ég skal hins vegar nefna þær hér og get meira að segja komið með þær sérstaklega í bláum ramma handa þingmönnum Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Já, ég vissi það að hv. þm. mundi kveikja ef hann sæi bláa rammann.
    Hvernig hefur lánsfjárþörf ríkissjóðs þróast hér frá árinu 1988 sem hlutfall af landsframleiðslu? ( Gripið fram í: Er þetta satt?) Þetta er alveg dagsatt, já, hv. þm. Þetta eru meira að segja tölur staðfestar af Seðlabankanum, en tölur sem hann flíkar ekki, tölur sem hann hampar ekki af því að það passar ekki í kosningavélina. ( Gripið fram í: Er eitthvað að marka það?) Já, já, það er alveg að marka það, hv. þm. Nú skal hann bara hlusta, virðulegur þingmaður.
    Lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur minnkað úr 3,3% af landsframleiðslu 1988 í 2,1% 1990. Það er staðreynd málsins. Lánsfjárþörf ríkissjóðs fer minnkandi. Og hver hefur innlend lántaka ríkissjóðs verið sem hluti af peningalegum sparnaði? ( Gripið fram í: Landsframleiðslan jókst.) Já, já, við getum alveg tekið þetta áfram ef þú vilt, hv. þm., tölu af tölu og dálk fyrir dálk. Ég ætla að taka næst innlenda lántöku ríkissjóðs sem hlutfall af peningalegum sparnaði í landinu. Það mætti ætla af skýrslum Seðlabankans að hún hafi líka farið vaxandi, ríkissjóður sé alltaf að taka til sín meira og meira af sparnaðaraukningunni í landinu. En það er bara þveröfugt. Ríkissjóður er alltaf að taka til sín minna og minna af peningalegum sparnaði í landinu. Já, bíddu, hv. þm., þú skalt heyra tölurnar fyrst. ( FrS: Það er hægt að ljúga með þessum tölum vegna þess að þetta er ekki bara ríkissjóður sem talað er um heldur líka umsvif hins opinbera.) Nei, hv. þm. Þessar tölur, sem ég ætla að fara með núna, eru bara ríkissjóður. ( FrS: Þetta eru bara valdar tölur fjmrh.) Nei, nei, nei. Þetta eru ekkert valdar tölur fjmrh. Hvers konar viðkvæmni er þetta fyrir tölum og sannleikanum? Er þetta þannig með Sjálfstfl. að hann þolir ekki að heyra tölur? Er það svona sem bankaráðsfundirnir eru í Landsbankanum að hv. þm. þorir ekki að heyra tölurnar? ( FrS: Er húsbréfakerfið inni í þessu?) Nei, nei, húsbréfakerfið er þar ekki, en ég skal koma að því líka fyrst hv. þm. er að spyrja um það. Alveg sjálfsagt að reiða þetta allt fram svo að það komist eitthvað af viti í þessa umræðu, svo að Seðlabankinn geti eitthvað lært með því að lesa þingtíðindin.
    Innlend lántaka ríkisins sem hlutfall af peningalegum sparnaði var 32,2% á árinu 1989, 20% á árinu 1990 og áformað 19,2% á árinu 1991, þ.e. hún hefur minnkað úr 32,2% í 20%. Það er nú staðreyndin. Hver var hallinn á ríkissjóði í fyrra? Hann var rúmir 4 milljarðar. Hver var sparnaðaraukningin í hagkerfinu í heild, aukningin, viðbótin í nýjum sparnaði í hagkerfinu í heild? Hún var tæpir 40 milljarðar þannig að hallinn á ríkissjóði var aðeins um 10% af aukningunni, ekki heildarsparnaðinum heldur aukningunni á sparnaðinum í hagkerfinu. ( Gripið fram í: Hefur aukningin eitthvað með raunvexti að gera?) Ég er bara að setja þessar tölur í samhengi --- já, hún getur haft eitthvað meira með raunvexti að gera. En ég er bara að setja þessar stærðir í samhengi vegna þess að menn tala hér út frá þessum textum Seðlabankans eins og hallinn á ríkissjóði og lánsfjárþörf ríkissjóðs sé vandamálið í þessu. ( Gripið fram í: Það er það.) Nei, það er bara mikill misskilningur. ( Gripið fram í: Hvert er þá vandamálið?) Ég skal koma að því á eftir hvert vandamálið er. En það kemur ekki strax, hv. þm., það kemur seinna.
    Hver hefur vaxtaþróunin verið? Það er hérna önnur mynd í bláum ramma. Hverjir voru vextirnir á spariskírteinum ríkissjóðs þegar Sjálfstfl. stjórnaði hér öllu? Þeir fóru upp undir 9%. Hvað eru þeir komnir langt niður núna? Þeir eru komnir niður í 6%. Það er rúmlega fjórðungslækkun raunvaxta á spariskírteinum ríkisins en samt sem áður seljast þau það vel á frjálsum markaði að við höfum ekki þurft að grípa til samningaþvingana við bankakerfið eins og þurfti í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. ( Gripið fram í: Þeir eru enn þá 9% hér.) Nei, þeir eru ekki 9%, vegna þess, hv. þm., af því að það er greinilegt að þú trúir enn þá þessari bábilju þá svaraði ég hv. þm. Friðriki Sophussyni hér þar sem hann bar fram spurningu og svarið liggur hér á borðum þingmanna, því hefur verið dreift í þingsalnum, þar sem hv. þm. Friðrik Sophusson ætlaði greinilega að leiða það fram að þessi sérstöku tilboðskjör sem hafa verið gerð varðandi spariskírteini ríkissjóðs hafi búið til verulega hækkun þeirra vaxta. ( Gripið fram í: Hvað með eignarskattana?) Getur ekki Sjálfstfl. hlustað á sannleikann? Þarf hann alltaf að hlaupa frá einu horninu í annað af því að hann þolir ekki sannleikann, Sjálfstfl.? Hann þolir ekki sannleikann. ( Gripið fram í: Hvað með eignarskattana?) Við skulum ræða eignarskattana hérna á eftir, alveg sjálfsagt mál. Það er bara verið að ræða vexti hérna núna en við skulum alveg ræða eignarskattana ef Sjálfstfl. vill ræða eignarskattana. En við erum bara að ræða vexti hérna núna og ég ætla að fá að rekja það svar sem ég gaf hv. þm. Friðriki Sophussyni og liggur hér á borðum vegna þess að þar kemur fram að vegið meðaltal allra tilboða spariskírteina ríkissjóðs á árinu 1990 var 6,78% og bilið er meira, þ.e. vextirnir eru hlutfallslega lægri á spariskírteinum ríkisins í ársbyrjun 1991 samanborið við Verðbréfaþing Íslands en þeir voru í ársbyrjun 1990.
Eða með öðrum orðum: Ríkissjóður er í fararbroddi vaxtalækkananna og það kemur líka hér fram í enn annarri mynd sem sýnir þróun ríkisvíxlanna á þessu tímabili. (Gripið fram í.) Það er það eina sem þeir skilja, þessir menn. Þeir geta ekki lesið úr dálkum,

það verður að sýna þeim myndir, viðskrh. Ég held að það væri gagnlegt að fara með nokkrar af þessum myndum á fundi viðskrh. með seðlabankastjórunum. Hvað sýnir þessi mynd hér? Hún er reyndar birt í skýrslu Seðlabankans þó enginn hafi talað um hana hér. Hún sýnir hvernig ríkissjóður hefur verið í fararbroddi vaxtalækkananna allt þetta tímabil, en bankarnir hafa verið í fararbroddi vaxtahækkananna. ( FrS: Af hverju hækkaði ríkissjóður þá vextina um áramótin?) Einfaldlega vegna þess, virðulegur þingmaður, að bankarnir voru búnir að hækka vextina svo mikið að ef ríkissjóður ætti ekki að glata allri sinni stöðu á þessum markaði þar sem bankarnir ráða samkeppnislögmálunum, þá varð hann að breyta til. Ef bankarnir hefðu hins vegar haldið sér á eðlilegu róli, þá hefði engin breyting þurft að verða. En af hverju hækkuðu bankarnir? Vegna þess að verðbólguspá bankanna og verðbólguspá Seðlabankans var vitlaus.
    Seðlabankinn spáði, ef ég man rétt, í nóvember að vísitöluhækkunin í febrúar yrði 0,9%. Seðlabankinn spáði í janúar eða desember að vísitöluhækkunin í febrúar yrði 0,6%. Hún varð 0,3%. Og það var á grundvelli þessara vitlausu spádóma Seðlabankans sem viðskiptabankarnir leyfðu sér að hækka vextina. En þegar spárnar reynast vera vitlausar, lækka þá viðskiptabankarnir vextina? Nei. Þeir halda uppi of háu vaxtastigi sem var hækkað í krafti vitlausra spádóma sem Seðlabankinn hafði sett fram. Og hvað gera þeir nú þegar komið er í ljós í þessum mánuði að vísitalan hækkar um 0,2%? Lækka þeir vextina? Nei. Hvað þarf verðbólgan að fara langt niður þangað til þessir menn fara að byrja að lækka vextina? ( FrS: Var ekki einhver í fararbroddi?) Jú, það er alveg rétt, hv. þm., og þess vegna hafa ekki verið hækkaðir vextirnir á spariskírteinum ríkissjóðs og þess vegna hafa ekki frá áramótum verið hækkaðir vextirnir á ríkisvíxlunum. ( Gripið fram í: Það má skrifa bankamálaráðherra bréf.) Það er alveg rétt, við erum ekki alveg sammála í þessum vaxtamálum, ég og hæstv. viðskrh., og ekki vildi ég sitja undir hóli Sjálfstfl. eins og hæstv. viðskrh. hefur mátt gera hér í þessum umræðum. Kannski er hann ánægður með það hól, ég veit það ekki, en ekki mundi ég í hans sporum vera ánægður með hól Sjálfstfl. hér í þessum umræðum. ( ÞP: Það var söknuður í röddinni.) Nei, það var enginn söknuður í röddinni. Ef hins vegar Sjálfstfl. vildi með réttu fara að hæla mér fyrir góða stjórn á ríkisfjármálum, þá mætti skoða það. (Gripið fram í.) Það skulum við vona vegna þess að ég hef tekið eftir því að það hefur ekki heyrst hósti né stuna frá Sjálfstfl. eftir að gerð var grein fyrir því í Morgunblaðinu í sérstakri grein hver er samanburðurinn á stjórn ríkisfjármála á síðustu tveimur árum og þegar Sjálfstfl. var við völdin, en við skulum gera það hér augnablik. ( FrS: Við skulum gera það við lánsfjárlagaumræðuna.) Nei, við skulum gera það hérna núna vegna þess að þið eruð búnir að halda því fram, þingmenn Sjálfstfl., í þessari umræðu að það sé hallinn á ríkissjóði sem sé orsök þess að vextirnir eru svona hátt uppi. ( ÞP: Það er Seðlabankinn sem segir það.) Þið hafið tekið undir þessa vitleysu. (Gripið fram í.) Hvað, eru menn bara farnir að kalla með lófunum hérna fram í, eða hvað?
    Þessi tafla hér, þetta súlurit hér sýnir halla ríkissjóðs frá 1980. ( Gripið fram í: Allt í plati.) Hvers konar er þetta, hv. þm. Þessar tölur eru réttar. Þær eru viðurkenndar af öllum efnahagsstofnunum landsins og viðurkenndum efnahagsstofnunum á Vesturlöndum, en það er eins og venjulega með Sjálfstfl. Hann trúir ekki staðreyndum.
    Hver var hallinn sem hlutfall af landsframleiðslu --- ( KrP: Það vantar Verðjöfnunarsjóðinn. Komdu með hann.) Verðjöfnunarsjóðinn. Hann breytir engu í þessu samhengi. --- Hver var hallinn sem hlutfall af landsframleiðslu árið 1985 þegar góðærið var að byrja? Hann var 1,9%. Hver var hann á árinu 1989 þegar hér var mikil niðursveifla í hagkerfinu? Hann var nánast sá sami, 2%. Og hver var hallinn á góðærisárunum miklu, 1986 og 1987, hjá Sjálfstfl.? Hann var 1,3%. Og hver var hann í fyrra þrátt fyrir mikla niðursveiflu í hagkerfinu? Hann var líka 1,3%. Munurinn er hins vegar sá að í 1,3% halla Sjálfstfl. voru raunvextirnir 9%, hjá okkur eru þeir 6% þótt hallinn sé sá sami. --- Á ég að endurtaka þetta fyrir Sjálfstfl.: Það er nákvæmlega sama hlutfall á hallanum á ríkissjóði 1986, 1987 og 1990. Munurinn er hins vegar sá að þá voru raunvextirnir hjá Sjálfstfl. á spariskírteinunum 9%, þeir eru 6% hjá okkur. Raunvextirnir eru 1 / 3 lægri hjá okkur þótt hallinn sé sá sami. ( HJ: En skattarnir?) Já, við skulum alveg taka sérumræðu hérna í skattana, það bara breytir ekki þessari staðreynd, hv. þm. Og ef það er eitthvað sem afhjúpar samhengisleysið í þessum málflutningi Sjálfstfl., þá er það bara þessi samanburður á þeirra eigin tíma og því sem hefur verið að gerast hér hjá okkur.
    En það er auðvitað alveg hneyksli, og ég tek undir það með hæstv. forsrh., að Seðlabankinn skuli leyfa sér að ganga í þennan áróðursdans Sjálfstfl. án þess að koma með nokkurn minnsta vott af sögulegum samanburði eða greiningu í málinu, ekki vott af slíku.
    Sjálfstfl. hefur sagt hér að vextirnir ættu að lækka en hann hefur ekki nefnt orð um það hvernig hann ætlaði að gera það, ekki orð. Í ályktunum landsfundarins var hins vegar talað um það að lækka skattana án þess að lækka ríkisútgjöldin. Og það er merkilegt að hv. þm. Hreggviður Jónsson vill endilega fá að tala hér um skattana. Það væri vissulega skemmtilegt viðfangsefni að gera það hér áður en þingi lýkur, að fá að fara ofan í málflutning Sjálfstfl. í sköttum. Flokkur sem hefur staðið hér í þingsalnum á sl. tveimur árum og hrópað á núv. fjmrh. og núv. ríkisstjórn og lofað því að afnema alla þá skatta sem þessi ríkisstjórn hefur sett á. Þegar Davíð Oddsson, borgarstjórinn í Reykjavík, bauð sig fram í prófkjöri Sjálfstfl. og var spurður að því af málgagni ungra sjálfstæðismanna hvort hann ætlaði að afnema alla skatta sem þessi ríkisstjórn hefði sett á, þá var svarið stutt og einfalt: Já. Síðan segir hann í landsfundarræðu sinni að hann hafi aldrei á það minnst. Það er bara á prenti í kosningamálgagni ungra sjálfstæðismanna fyrir prófkjörið i Reykjavík að Davíð Oddsson lofar að afnema

alla skattana sem þessi ríkisstjórn hafi lagt á. Nú er hann að hlaupa frá þeim yfirlýsingum í landsfundar - og framboðsræðu sinni. Hv. þm. Pálmi Jónsson var eins og litla barnið í ævintýri H.C. Andersens sem bent á að keisarinn, Sjálfstfl., væri í engum fötum í þessum skattamálum.
    Þess vegna er auðvitað staðreynd þessarar umræðu að Sjálfstfl. er ekki með neinar tillögur. Sjálfstfl. hefur engan feril til að státa af. Sá tími þegar Sjálfstfl. réð hér öllu í ríkisfjármálunum og efnahagsstjórn er einhver mesti hávaxtatími sem íslenska þjóðin og íslenska efnahagskerfið hefur lifað.
    Sjálfstfl. vitnar hér í ummæli Seðlabankans um ríkissjóð annars vegar og húsnæðiskerfið hins vegar. Tillögur Sjálfstfl. varðandi ríkissjóð hafa ekki enn þá komið fram svo að marktækar séu. En ég hef sýnt það með þessum tölum, þessum tölulegu staðreyndum sem Seðlabankinn stingur undir stól, að það er ríkissjóður sem hefur á síðustu þremur árum verið í fararbroddi vaxtalækkananna á Íslandi og er það enn. Og þó að hallinn sé hinn sami nú, þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu hjá okkur og hjá Sjálfstfl. í blóma góðærisins, þá eru raunvextirnir 1 / 3 lægri hjá okkur en þeir voru hjá Sjálfstfl.
    Þá er það húsnæðiskerfið. Jú, jú, það er alveg rétt. Það skapar vissa eftirspurn og þenslu á peningamarkaði að mikið er um framkvæmdir í húsnæðismálum og viðskipti með húsbréf eru þó nokkur. En ég spyr: Hefur Sjálfstfl. lagt til minni umsvif í húsnæðismálum? Hefur Sjálfstfl. lagt til að það verði byggt minna af íbúðum, minna af félagslegum íbúðum? Hefur Sjálfstfl. lagt það til að dregið verði úr möguleikum fólks til að kaupa sér íbúðir? Nei, það hefur hann ekki gert. Hvers konar kjaftæði er þá að koma hér upp og vera að býsnast yfir því að Seðlabankinn segi að það sé svo mikil fjárþörf í húsnæðismálum? Flokkur sem hefur aldrei orðað það, hvorki hér á Alþingi, utan þings né á landsfundi að hann vilji draga úr fjármálaumsvifunum í húsnæðismálum. Þvert á móti má skilja ýmislegt í landsfundarsamþykktum Sjálfstfl. á þann veg að hann vilji auka umsvifin í húsnæðismálum.
    Það kemur fram í skýrslu Seðlabankans að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa verið aukin umsvif íhúsnæðismálum. En það hefur fyrst og fremst verið gert til þess að bjarga því vandræðaástandi fyrst og fremst í félagslegu húsnæði sem ríkisstjórnin með þátttöku Sjálfstfl. skildi eftir sig. Og þeir menn sem eru að heimta það að farið verði eftir tillögum Sjálfstfl. í húsnæðismálum eiga þá að hafa kjark til þess að segja við kjósendur fyrir kosningar að þeir vilji minnka umsvifin í húsnæðismálunum, draga úr möguleikum fólks til að kaupa sér íbúðir, draga úr útgáfu á húsbréfum þannig að fólk hafi minni möguleika til að skipta um húsnæði, draga úr lánveitingum þannig að almennt launafólk hafi minni möguleika til að kaupa íbúðir í hinu félagslega kerfi.
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja alveg sama hvar gripið er niður í þennan málflutning Sjálfstfl. eða Seðlabankans. Það er ekkert rökrétt efnahagslegt samhengi í því sem sagt er.
    Seðlabankinn segir að ríkisfjármálin séu vandamál. Segjum að svo sé. Hefur Seðlabankinn lagt til skattahækkun? Nei. Hefur Seðlabankinn lagt til niðurskurð á ríkisútgjöldum? Nei. Hefur Seðlabankinn lagt fram einhverjar tillögur sem marktækar eru í þessum efnum? Nei. Almennar fullyrðingar sem eru settar fram án þess að benda á þá staðreynd að umsvif ríkissjóðs á lánamarkaði hér á landi hafa stórkostlega minnkað í tíð þessarar ríkisstjórnar, án þess að vekja athygli á því að halli ríkissjóðs nemur aðeins í kringum 1 / 10 hluta af hreinni viðbót við sparnaðinn í landinu.
    Virðulegi forseti. Mér skilst að það hafi verið aðalkrafa Sjálfstfl. að fá að ræða þessa skýrslu áður en þingi lyki. Hver var tilgangurinn? Tilgangurinn var að reyna að koma hérna á framfæri órökstuddum fullyrðingum Seðlabankans um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Að lokum vil ég segja þetta: Í nútímahagkerfi, þar sem búið er að koma á efnahagslegum stöðugleika, er seðlabanki mikilvægt stjórntæki. Við erum búin að koma mörgu í lag í okkar efnahagslífi. En við búum enn þá við seðlabanka sem er bilað stjórntæki. Þess vegna lögðu ráðherrar Alþb. það til í ríkisstjórninni fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar átti að fara að skipa nýjan bankastjóra, velja enn einu sinni eftir gömlu aðferðinni, gamli flokkspólitíkusinn sendur frá Alþingi og upp í Seðlabanka, eins konar lávarðadeild Sjálfstfl. og Framsfl., --- við lögðum til að þetta kerfi yrði lagt niður og við breyttum stjórnkerfi Seðlabankans í nútímalegt og faglegt stjórnkerfi. Við lögðum til að það yrði sett upp nefnd og hún skilaði áliti á tveimur til þremur mánuðum. Á meðan yrði einum af aðstoðarbankastjórum Seðlabankans falið að gegna bankastjórastöðu. Svo yrði lögunum breytt þannig að tekið yrði upp nýtt stjórnkerfi í Seðlabankanum með t.d. einum aðalbankastjóra sem væri valinn á faglegum grundvelli en ekki eftir flokkspólitískum sjónarmiðum. Síðan yrði skipt um með reglubundnum hætti og þannig yrði tryggt í senn faglegt öryggi og sjálfstæði Seðlabankans.
    Halda menn virkilega að þegar við, ég og aðrir ráðherrar, mætum á fundi með bankastjórum Seðlabankans og þar situr m.a. frambjóðandi Sjálfstfl., Birgir Ísl. Gunnarsson, að þar fari fram einhverjar faglegar umræður? Halda menn virkilega að frambjóðandi Sjálfstfl., seðlabankastjórinn Birgir Ísl. Gunnarsson, fari að segja eitthvað annað á þessum fundum en forusta Sjálfstfl. og þingflokkur Sjálfstfl. vill að hann segi? Auðvitað ekki. Af hverju var það Sjálfstfl. kappsmál að senda pólitíkus í bankastjórastól Seðlabankans? Vegna þess að Sjálfstfl. vildi tryggja að áróðurssjónarmið flokksins og pólitísk stefnumál flokksins kæmu þar fram.
    Sjálfstfl. á auðvitað fullan rétt á sínum pólitísku sjónarmiðum. En það er misnotkun á Seðlabanka Íslands að gera hann að vettvangi fyrir þau sjónarmið. Ég vona þess vegna að atburðir síðustu mánaða verði til þess að ný ríkisstjórn á Íslandi láti það verða sitt fyrsta verk að setja ný lög um Seðlabankann, setja af

þá þrjá bankastjóra sem þar eru, þó mætir menn séu, ekki vegna þess hverjir þeir eru sem einstaklingar heldur vegna þess að það þarf nýtt stjórnkerfi í Seðlabankann, stjórnkerfi sem er ekki byggt á gamla lénsflokkaskipulaginu heldur stjórnkerfi sem er byggt á nútímaseðlabanka.
    Það var krafa Alþb. að við tækjum hér upp nútímastjórnkerfi í Seðlabankanum. Við viljum leggja hið gamla lénskerfi flokkanna niður. Því miður féllst viðskrh. ekki á okkar sjónarmið og kaus að vinna sér inn prik hjá Sjálfstfl. með því að setja alþingismann Sjálfstfl. og frambjóðanda í Reykjavík í stól seðlabankastjóra.