Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég skal gera mitt til þess að stytta þessa umræðu sem hefur verið skemmtileg á köflum. Varla verður nú hægt að segja að hún hafi verið mjög fróðleg en það er þó full ástæða til þess að geta hér um nokkur atriði sem fram hafa komið í umræðunni.
    Í fyrsta lagi sagði hæstv. fjmrh. hér rétt í þessu að það hefði verið aðalkrafa Sjálfstfl. að fá þessa skýrslu rædda hér á Alþingi fyrir þinglausnir. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að Sjálfstfl. vildi gjarnan ræða þessa skýrslu en hver bað um þessa skýrslu? Var það Sjálfstfl.? Hverjir skrifuðu bréf til Seðlabankans um áramótin, líklega á sama fundi og þeir ákváðu að hækka vextina af spariskírteinunum og óskuðu eftir því að Seðlabankinn gæfi þessa skýrslu út? Var það Sjálfstfl.? Er það Sjálfstfl. sem situr í Stjórnarráðinu? Er það Sjálfstfl. sem myndar ríkisstjórn Íslands? Sannleikurinn er nefnilega sá að sá sem bað um þessa skýrslu var hæstv. viðskrh. fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar eftir umræður sem urðu í ríkisstjórn Íslands um síðustu áramót. Af ræðu hæstv. ráðherra mátti hins vegar ráða að hann teldi að Sjálfstfl. hefði beðið um þessa skýrslu. Það er auðvitað alrangt.
    Annar meginþáttur í ræðu hæstv. ráðherra var sá að ráðast á seðlabankastjórann Birgi Ísl. Gunnarsson sem tók til starfa í Seðlabankanum daginn eftir að skýrsla þessi er dagsett eða 1. febr. en skýrslan er dags. 30. jan. Og af alkunnri smekkvísi notaði hæstv. ráðherra öll þau tæki sem hann fann upp á til þess að gera lítið úr seðlabankastjóranum Birgi Ísl. Gunnarssyni og taldi að það væri ekkert að marka það sem hann segði því að hann gæti ekki verið faglegur í sínu starfi þar sem hann kæmi úr þingliði Sjálfstfl.
Ég bið ykkur, ágætu hv. alþm. og virðulegi forseti, að taka eftir því hver talar, því að sá sem talar er fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands. Maður sem hefur setið á Alþingi Íslendinga af og til en náði ekki kosningu í síðustu kosningum vegna þess að svo fáir vildu kjósa hann, var gerður að fjmrh. þegar hann fékk tækifæri til þess að hoppa upp í ríkisstjórn án þess að sitja á Alþingi. ( Gripið fram í: Hann náði heldur ekki kjöri 1983.) Hefur sjaldan náð kjöri en þó fengið að sitja hér annað slagið. Þetta er maðurinn sem er að gera lítið úr því að þingmenn geti verið faglegir þegar þeir vinna hjá stofnunum íslenska ríkisins. Þessi maður, prófessor í stjórnmálafræðum, hann kennir háskólanemum það hvað fer fram á Alþingi, hvað sé að gerast í íslenskum stjórnmálum, um hvað stjórnmál snúast í Evrópu og í heiminum öllum. Getur það verið að hann hafi þessar hugmyndir um þá þingmenn sem taka sér stöðu í stofnunum utan þingsins vegna þess að hann sjálfur hugsar með þessum hætti? Getur það verið að málshátturinn ,,margur heldur mig sig`` eigi við um hæstv. ráðherra? Getur það virkilega verið að sá maður, sem situr hérna, hæstv. fjmrh. íslenska ríkisins, sé að ráðast að fyrrv. alþm., sem nú hefur tekið að sér að stjórna Seðlabankanum, vegna þess að hann haldi að

sá maður sé jafnómerkilegur og hæstv. ráðherra sjálfur?
    Það hefur enginn afhjúpað sig með slíkum hætti, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, fyrr á þessu þingi. Og það sem kannski var verst var það að hann sá það ekki sjálfur. En það blasti við öllum sem á hlýddu og á horfðu því þeir hugsuðu með sér: Er þetta maðurinn sem íslenska þjóðin, íslenska ríkið borgar fyrir að kenna íslenskum ungmennum stjórnmálafræði?
    Þessi hæstv. ráðherra hefur reyndar ráðist áður að ýmsum stofnunum, þar á meðal dómstólum, og til þess að taka þó undir eitthvað af því sem hann sagði þá get ég verið honum sammála um það að ef eitthvað er þarft í þessu þjóðfélagi þá er það að gera Seðlabankann sjálfstæðari. En heldur hæstv. ráðherra í fullri alvöru og hreinskilni --- ef hann þekkir það hugtak og skilur það, ef hann skilur merkingu þess hugtaks, ef hann hefur lært það í Menntaskólanum í Reykjavík, hann segist hafa lært íslenskuna þar --- heldur hann að þetta sé leiðin? Að ráðast þannig að starfsmönnum Seðlabankans? Að ráðast þannig að Seðlabankanum?
    Það sem blasir við í þessari umræðu er það að hæstv. ráðherrar, þeir tveir sem hafa talað hér á eftir hæstv. viðskrh., kveinka sér undan því að sú stofnun, sem fylgist með vaxtastiginu og gefur ríkisstjórninni ráð í peningamálum, segir hlutina með þeim hætti að þeir geta ómögulega sætt sig við það sem í skýrslunum stendur.
    Auðvitað er það afskaplega hvimleitt að þurfa að þola það að manni sé sagt að það geti vel verið að það sé manni sjálfum að kenna eitthvað sem hefur farið úrskeiðis. Og það þola ekki þessir menn, svo einfalt er þetta mál.
    Hæstv. ráðherra talaði um spariskírteini og sagðist ávallt hafa verið í fararbroddi í því að lækka vexti. Hann reyndar hækkaði vexti um áramótin og í þessu svari sem hann vitnaði til kemur í ljós að á Verðbréfaþingi Íslands er ávöxtunarkrafan gerð 7,3% og ég veit ekki betur en að þeir sem gerast áskrifendur að spariskírteinum fái 6,6% vexti. Ég veit þetta sjálfur því ég gerðist áskrifandi um daginn og kaupi ríkisskuldabréf og fæ 6,6% vexti og geri það vegna þess að ég vil auðvitað eins og aðrir Íslendingar reyna að stuðla að góðum hag íslenska ríkisins.
    Þess vegna gerði ég það að ég spurði fjmrn. hve mikið hefði selst af þessum skírteinum frá áramótum. Og svarið, sem er dagsett 11. mars, það er ekki langt síðan, í dag er 12. mars, það er dagsett í gær, er á þessa leið:
    ,,Heildarsala spariskírteina í janúar og febrúar nam 1,2 milljörðum kr. að meðtalinni skiptiuppbót og að frádreginni söluþóknun. Innlausn eldri skírteina tvo fyrstu mánuði ársins nam 2,1 milljarði króna að viðbættum áföllnum vöxtum og vaxtavöxtum.`` --- Hver skyldi nú nettótalan hafa verið? Kunna menn að reikna? Hver gumar mest af því að kunna að fara með tölur? Hæstv. fjmrh. Mér sýnist í fljótu bragði að hér sé um 900 millj. kr. munur. Og í hvora áttina? Er þetta aukning? Nei, það er samdráttur upp á 900 millj.

kr. Hvers vegna skyldi þessi samdráttur eiga sér stað? Vissulega eru skýringar á því. M.a. skýringar sem koma fram í því hvernig á sölunni, hvernig á innlausninni stendur í febrúar og líka síðar á árinu. En skýringin er líka sú að vextirnir eru ekki nægilega háir til þess að sparendur vilji spara nægilega mikið í þessari tegund sparnaðar.
    Hæstv. ráðherra sýndi okkur hér myndir, bláar og rauðar, sem ríkissjóður á að borga. Þessar myndir á að nota í kosningaferðalögum, þetta eru myndirnar sem ríkissjóður Íslands borgar til þess að halda úti áróðursmaskínu Alþb., en það er sá flokkur sem nú hefur nýlega breytt merki sínu vegna þess að viðgangur flokksins er svo lítill að það varð að breyta merkinu. Setja grænt við hliðina á þessu rauða til þess að einhver léti kannski glepjast af því og vildi ganga til liðs við flokkinn og kannski kjósa hann í komandi kosningum. ( Gripið fram í: Voruð þið ekki að skipta um formann?) Við vorum að skipta um formann og varaformann og ég veit ekki betur en Alþb. hafi gert það einstöku sinnum á undanförnum árum, þar á meðal var hann heldur síðhærðari varaformaðurinn sem var á undan núverandi varaformanni Alþb. ( Gripið fram í: Var hann kannski skeggjaður?) Ja, ekki hef ég kannað það gjörla, það hafa kannski aðrir gert og ekki efast ég um það að hæstv. landbrh. gáir mjög vel að því hvort konur séu skeggjaðar í Alþb. (Gripið fram í.) Frammíkallið gaf tilefni til þessa og vona ég að afbrýðisemi hæstv. fjmrh. verði ekki svo mikil þótt ég nefni þetta við landbrh. Ég skal viðurkenna það að hæstv. fjmrh. er líka myndarlegur maður og hárprúður í þokkabót.
    Hæstv. ráðherra gumaði af því hve ríkissjóður væri í raun og veru lítill á markaðnum. En hæstv. fjmrh. verður að átta sig á því að það er fleira ríki en ríkissjóður eða A-hluti ríkissjóðs og það auðvitað veit hæstv. fjmrh. Hann bara vill ekki segja það hér af því að það þjónar ekki málstaðnum. Það þjónar ekki hinum ranga málstað að skýra frá því hér í þessum umræðum.
    Sannleikurinn er nefnilega sá að af nýjum sparnaði á sl. ári tóku opinberir aðilar, ríkissjóður og aðrir, 40%. Og hvað skyldu þeir nú taka á yfirstandandi ári? Yfir 60%, 62%, sem líklega verða 65 -- 70% ef marka má það sem fram hefur komið, að lánsfjárþörf ríkissjóðs og opinberra aðila er sífellt að aukast og eykst reyndar á hverjum klukkutíma nú um þessar mundir vegna þess að hæstv. ríkisstjórnin sjálf er nú loksins að koma sér saman um það hve mikið hún á að taka að láni samkvæmt lánsfjárlögunum með heimildum þar.
    Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að það eru sífellt minni fjármunir til fyrir aðra sem þurfa að taka lán. Nú er hæstv. ríkisstjórn svo heppin, ef hægt er að kalla það heppni, að það hafa orðið þau umskipti að sjávarútveginum gengur vel. Það er hærra verð á mörkuðum, fyrirtækin í sjávarútvegi fjárfesta lítið, enda má kannski segja að það sé yfirfjárfesting í greininni, þau borga fjármagn til baka inn í bankakerfið og þess vegna getur ríkissjóður og stofnanir ríkisins tekið þessi lán. Ef og þegar árferðið batnar hins vegar enn þá meira í öðrum greinum þannig að atvinnulífið, sem allt byggist jú á, þarf að fara að taka lán til þess að byggja upp og skapa nýja atvinnu og bæta lífskjörin, þá auðvitað þeytast vaxtakjörin upp í loftið vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur mistekist stjórn ríkisfjármálanna. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara fleiri orðum um það, það mun ég gera við afgreiðslu lánsfjárlaga. En það er full ástæða til þess að benda á þessi atriði.
    Hver vill ekki lækka vexti? Auðvitað vilja allir lága vexti sem taka lán og auðvitað vilja allir háa vexti sem lána. Þetta er alþekkt fyrirbæri úr hagfræðinni. Og af því að hæstv. forsrh. situr hér líka og hæstv. fjmrh., þá langar mig aðeins til þess að lesa hér þriggja ára gamlan texta sem ég held að sé mjög hollt fyrir þá að hlusta á. Með leyfi forseta, er hann á þessa leið:
    ,,Það er því meðal brýnustu verkefna í efnahagsmálum að stuðla að því að vextir lækki í framtíðinni. Hins vegar verður að leggja áherslu á það að nauðsynlegt er að raunvextir haldist áfram nægilega jákvæðir til þess að nývakin sparnaðarviðleitni fólks verði ekki slævð og ekki dragi úr aðhaldi að fjárfestingu. En vextirnir verða ekki hrópaðir niður með hástemmdum yfirlýsingum á þingi eða í fjölmiðlum. Bein afskipti stjórnvalda af ákvörðun vaxta kunna heldur ekki góðri lukku að stýra. Íslendingar hafa af því langa reynslu að skömmtun fjármagns í verðbólgu er forskrift að sóun fjármuna og misskiptingu auðs.``
    Síðar í þessari sömu grein er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Frelsi banka til að ákveða vexti sína var leitt í lög í tíð ríkisstjórnar undir forsæti Steingríms Hermannssonar þótt hann virðist ekki lengur vilja kannast við krógann. Með þeirri lagasetningu var beinlínis stefnt að því að takmarka eins og kostur væri afskipti stjórnvalda af vaxtaákvörðunum.``
    Og enn í þessari grein er sagt:
    ,,Einu vextirnir`` --- og ef hæstv. forsrh. hefur eitthvað fleira til málanna að leggja en þetta þá er honum guðvelkomið að kalla frekar fram í. Mér finnst þetta hæfa vel brosi þess sem brosti til hans áðan þegar hann var í ræðustólnum. ( Forsrh.: Þakka þér fyrir, frændi sæll.) Held ég þá áfram lestrinum, ekki síst fyrir hæstv. frænda minn, forsrh.:
    ,,Einu vextirnir sem ríkisstjórnin ákveður beint eru vextir af ríkisskuldabréfum. En jafnvel varðandi þá vexti verða stjórnvöld að taka mið af almennu ástandi á fjármagnsmarkaði. Ríkið gefur út skuldabréf í því skyni að afla fjár til að brúa hallarekstur ríkissjóðs eða til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir. En bréfin seljast ekki nema þau séu boðin á kjörum sem sparifjáreigendur eru reiðubúnir til að ganga að, þ.e. kjörum sem standast samanburð við önnur ávöxtunarkjör.``
    Síðan er í þessari grein fjallað á mjög skilmerkilegan hátt um þessi mál og hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Athyglisvert er að ekkert vestrænt ríki reynir lengur að stýra vöxtum með valdboði. Öll Norðurlöndin fylgja nú eindreginni frjálsræðisstefnu í þessu efni.`` --- Lýkur svo lestrinum úr þessari ritsmíð. Og hver skyldi nú vera höfundurinn? Höfundurinn er hæstv. viðskrh. í ríkisstjórn Íslands. Hann heitir Jón Sigurðsson og starfar þar á ábyrgð hæstv. forsrh. m.a. og fer með vaxtamálin.
    Ég spyr nú hæstv. viðskrh., sem samdi þessa grein, þessa ágætu grein: Er nú ekki kominn tími til að hann taki þátt í þessum umræðum með þeim hætti að lagsbræður hans, hæstv. ráðherrar fjármála og forsætis, að þeir fari nú að botna eitthvað pínulítið í því út á hvað þessi mál ganga? Eða ætlar hæstv. ráðherra sem fer með málefni Seðlabankans og vaxtamálin að sitja undir því að þessir tveir hæstv. ráðherrar flytji þau sjónarmið með þeim hætti sem allir skilja, að það er verið að hundskamma hæstv. viðskrh., rétt eins og þegar sagt var að Rússarnir skömmuðu Albanínu þegar þeir voru að skamma Kína.
    Það er nefnilega þannig að hæstv. viðskrh. segir sannleikann í þessari grein. Vextirnir fara nefnilega eftir ákveðnum lögmálum og það var hæstv. forsrh. sem lögleiddi það í samstjórn okkar og Framsfl., það kerfi sem við nú notumst við og hefur verið undirstaða þess, grundvöllur þess að hæstv. fjmrh. hefur getað tekið lán á innlendum fjármagnsmarkaði. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. ekki getað tekið öll þau lán sem hann ætlaði sér að taka á innlendum markaði. Í ágúst í fyrra sagðist hann geta náð öllum peningunum á innlenda markaðnum, ( Gripið fram í: Það tókst.) hann tók u.þ.b. 4 milljarða að láni erlendis. ( Fjmrh.: Ekki til að mæta rekstri ríkissjóðs á árinu.) Heldur til hvers? Vill hæstv. ráðherra segja mér til hvers hann tók lán erlendis upp á 4 milljarða og segja nú einu sinni sannleikann þegar hann kemur í ræðustól? ( Fjmrh.: Alveg sjálfsagt mál.)
    Virðulegi forseti. Mér er alveg nákvæmlega sama þótt hæstv. ráðherra kalli fram í mína ræðu, það er mín ánægjan. Hann getur nú ekki brosað eins og sumir gera hér utan úr sal. ( Fjmrh.: Ekki hátt alla vega.) Ég veit það ekki, ég heyri nú stundum, eins og einn ágætur þingmaður sagði hér í gamla daga, ég heyri þegar hæstv. ráðherra hristir höfuðið. ( Fjmrh.: Já, já. Það er fræg setning.) Það er fræg setning.
    Ég held, virðulegi forseti, af því að ég lofaði því að stytta þessa umræðu og tala ekki fram yfir miðnætti, að ég láti nú brátt staðar numið. Það sem situr auðvitað eftir í þessari umræðu, sem hv. 1. þm. Suðurl. hóf, er sá tvískinnungur sem er í þessari ríkisstjórn. Hér situr eins og dasaður, dauðadæmdur maður hæstv. viðskrh. og hlustar á þessa kappa tvo tala hér hvorn um annan þveran, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., og tala bara rétt eins og þeir hafi aldrei lesið orð um hagfræði eða vexti. Ja, mikið er nú geðleysi þeirra manna sem sitja undir þessu öllu saman og láta hundskamma sig án þess að hreyfa legg eða lið. Menn sem hafa samið svo ágæta texta sem hæstv. ráðherra hefur gert. (Gripið fram í.) Ég hlustaði á örstutta ræðu hæstv. ráðherra. Hún var góð. En ég heyrði líka að hinir hæstv. ráðherrarnir tóku ekki mark á orðum viðskrh. frekar en ég veit ekki hvað. Það er vandamál þessarar hæstv. ríkisstjórnar að einn talar í suður og hinn í norður. Það er þessi tvískinnungur.
    Ég ætla að láta það verða mín lokaorð að víkja máli mínu til forsrh. ( Gripið fram í: Kæri frændi.) Nei, ég þarf ekki að segja það, ég ætla bara að segja þetta. --- Ég hef stundum verið að hugsa um þetta og í fullri einlægni sagt: Hvernig í ósköpunum stendur á því að jafnstórmannlegur maður og vinsælasti stjórnmálamaður Íslands, hæstv. forsrh., lætur hafa sig í það að vera að ráðast að Seðlabankanum, rétt eins og hann sé bara einhver kerling í saumaklúbb úti í bæ. Maðurinn sem á að heita að ráði íslenska þjóðfélaginu, hefur meiri hluta löggjafarvaldsins á bak við sig. Hvers konar aumingjaskapur er þetta að ráðast á Seðlabankann sem getur ekki hönd fyrir höfuð sér borið hér í sölum Alþingis? Ef hæstv. ráðherra vill þá getur hann auðvitað sett lög og bannað hærri vexti en 1% eða 2%. Af hverju reynir ekki hæstv. ráðherra þetta?
Ef vaxtastigið skiptir engu máli og ef þetta er allt tómt blöff hjá bankaráðunum, allt tóm vitleysa og ef ég ræð Landsbankanum, ræð öllu sem þar gerist, af hverju tekur ekki hæstv. ráðherra sig til og breytir þessu? Vitið þið af hverju þetta er? Það er bara ein skýring á því. Hæstv. ráðherra vill hafa þetta svona af því að hann heldur að þjóðin sé svo heimsk að hún trúi því að þetta sé allt saman komið úr Seðlabankanum og bönkunum. En þeir menn sem vanmeta þjóð sína með þessum hætti hljóta einhvern tíma að lenda í því að fólkið sér í gegnum þá. Það er þessi tvískinnungur ráðherrans sem blasir nú við öllum og farinn er að þreyta ráðherrann svo að hann kemur hér upp aftur og aftur og flytur þessa gömlu ræðu og lætur sér ekki einu sinni segjast þegar viðskrh. í hans eigin ríkisstjórn kemur og reynir að stafa ofan í hann sannleikann í þessu máli.