Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Hún hefur um margt verið athygli verð en þó fyrst og fremst fyrir það að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa verið hér á handahlaupum undan einföldustu staðreyndum. Þær staðreyndir blasa við í þessu máli að fyrir liggur að við búum nú við háa raunvexti vegna þess að ríkissjóður og aðrir opinberir aðilar hafa þurft að seilast um of inn á innlendan lánsfjármarkað.
    Það liggur fyrir í öðru lagi að þær ábendingar sem fram hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn í sérstöku bréfi og Seðlabankinn var beðinn um að athuga gagna ekki vegna þess að þær munu leiða til aukinnar þenslu og grafa undan því jafnvægi sem nú er á peningamarkaði, veikja stöðu atvinnuveganna í landinu. Þetta eru í raun og veru þær einföldu staðreyndir sem við blasa. Það er ein leið til þess að ná niður vöxtum og hún er sú að taka á þessum vanda sem hér er bent á, að minnka lánsfjárþörf opinberra aðila.
    Þó að hæstv. fjmrh. geti sýnt fram á tölur sem hagstæðar eru honum með því að horfa á A - hluta ríkissjóðs einan, þá blasir það eigi að síður við að erlend lán fóru 5 milljörðum kr. fram úr áætlun á síðasta ári af hálfu opinberra aðila og stefnir í það sama á þessu ári.
    Vextir geta á stundum orðið nokkuð háir. Stundum er óhjákvæmilegt að beita vöxtum til þess að slá á þenslu og ná jafnvægi. Undan því verður ekki vikist í öllum tilvikum. Aðalatriðið er það að menn missi ekki sjónar á þeim meginþáttum sem leiða til lægri vaxta og hér hefur með rækilegum hætti verið á það bent. Hæstv. viðskrh. hefur í öllum meginatriðum tekið undir þau sjónarmið, en forsrh. lýsir þau sjónarmið hneykslanleg og sendir viðskrh. sínum þá kveðju í þessari umræðu. Það varpar enn einu sinni ljósi á þann tvískinnung sem fram kemur í umræðum um þetta af hálfu hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hefur etið upp eftir honum í þessari umræðu og á öðrum vettvangi þar sem þessi mál hafa komið til umræðu.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Þessar einföldu staðreyndir blasa við. Þeir hæstv. ráðherrar sem mest hafa talað gegn markaðsákvörðunum vaxta, þeir sem mest hafa talað um að þeir hafi meira vit á því hvert vaxtastigið eigi að vera en markaðurinn, hafa enga burði í sér til þess að nota stjórnarmeirihlutann í þeim tilgangi að breyta lögum og færa valdið aftur inn til ríkisstjórnar svo sem þeim ætti að vera í lófa lagið. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir vita að það mundi hafa alvarlegar afleiðingar, auka hér þenslu og veikja stöðu atvinnuveganna. Þess vegna á að reyna að hlaupa í kringum vandann eins og köttur gerir í kringum heitan graut rétt fram yfir kosningar í þeirri trú að almenningur í landinu hafi ekki skilning á viðfangsefninu, en svo er ekki.