Næturfundir o.fl.
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Klukkan er nú orðin rúmlega hálfeitt og við vorum hér fram á kvöld í gærkvöldi. Mér þykir það einkennilegt ef á að halda áfram í nótt þar sem mjög margir eru á mælendaskrá um það mál sem er til umræðu og munu þurfa að skýra það mál nokkuð vel, fara ofan í allt málið. ( HBl: Tillögugreinin er bara þrjár línur.) Tillagan er náttúrlega ekki nema bara kosningablaðra, hún er nú ekki annað. Ég mótmæli þessu. Á fyrstu árum mínum hér á þingi, þá var það Lúðvík Jósepsson sem tók ekki í mál að það yrðu kvöld - og næturfundir nema í mesta lagi tvisvar í viku og aldrei tvo daga í röð.