Stjórnsýslulög
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 879 um frv. til stjórnsýslulaga. Þar segir með leyfi forseta:
    ,,Minni hl. er samþykkur markmiði frv. sem felur í sér nauðsynleg nýmæli frá ríkjandi réttarástandi og bætir úr skorti á skráðum réttarreglum um stjórnsýsluna.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frv. var það lagt fram til kynningar á 112. löggjafarþingi og lagt fram aftur með nokkrum breytingum á 113. löggjafarþingi. Nefndin hefur að mati minni hl. alls ekki fjallað nógu ítarlega um frv. og umsagnir um það og ljóst er að enn hafa þeir, sem gerst þekkja til stjórnsýsluréttar, ýmsar athugasemdir fram að færa.
    Þar að auki telur minni hl. að með frv. séu ráðherra gefnar of víðtækar heimildir til að setja reglugerðir og bendir í því sambandi á ákvæði 5. gr. frv. og lokamálslið 13. gr.
    Minni hl. vill þó ekki hindra að frv. fái umfjöllun í þinginu en treystir sér að svo stöddu ekki til að taka þátt í afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta ritar Danfríður Skarphéðinsdóttir.