Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég held að ég verði að byrja á orðunum sem hv. síðasti ræðumaður endaði á, þ.e. að um einhvern misskilning væri að ræða. Ég held að það sé svo. Þetta atriði var til umræðu á milli okkar nefndarmanna og við vorum að reyna að ná saman um réttan skilning á einmitt þessu atriði eða hvernig með það ætti að fara. Ég skildi það svo að við mundum hittast áður en málið gengi lengra. Það var að vísu talað um hugsanlegan minni hluta og meiri hluta en það var aldeilis ekki minn skilningur. Við ætluðum að reyna að ná saman um réttan skilning á þessu orðalagi eða eitthvert allt annað orðalag. Ég hélt að það yrði á fundi kl. 12 í dag. Hann var afboðaður seint í gærkvöldi og hefur ekki verið haldinn enn. Ég fer þess vegna eindregið fram á það, bæði við hv. þm. Skúla Alexandersson, ég veit að hann er sammála mér um það og er ekki andvígur því, og svo við hæstv. forseta, að málinu verði frestað þannig að við nefndarmenn getum hist og komist þá vonandi að einhverri sameiginlegri niðurstöðu.
    Ég leit ekki svo á að málið væri útrætt. Það er alveg rétt að Magnús Pétursson var með ákveðnar skýringar. Það kom raunar fram hjá fleiri viðmælendum okkar að það væri hægt að skilja þetta orðalag á hinn margvíslegasta hátt og alls ekki skýrt hvernig það mundi fara. Ég veit að að minnsa kosti sumir af þingkjörnum fulltrúum í Byggðasjóði skilja ekki þetta orðalag og hafa verið að fjalla um það einmitt í dag og reyna að ná um það sáttum hvernig með skuli fara. Ég held að þessi breyting, jafnvel þó að hún gengi fram, sem hv. þm. Skúli Alexandersson er að flytja hér núna og ég hef ekki séð áður, hef ekki orðið var við. Kannski hefur hún legið á borðinu einhvern tíma en þá farið fram hjá mér. Menn hafa verið að ræða um hvað þetta mundi þýða að þetta væri eina stofnunin væntanlega þar sem er þingkjörin stjórn þar sem þetta mál ætti ekki að vera útkljáð í stofnuninni sjálfri heldur allt annarri stofnun sem ætti að vera eitthvert yfirvald eða hæstiréttur. Ég ætla ekki að fara út í þetta efnislega núna, heldur eingöngu hitt að stjórnarþingmenn í nefndinni hafi nú forgöngu um það að við höldum fund strax eða seinna í kvöld eða í fyrramálið ef menn vilja og náum einhverri niðurstöðu. Ég held að við hljótum að geta fundið einhverja sanngjarna niðurstöðu í málinu. Við erum vön því hér í deildinni að reyna sættir til hins ýtrasta en stundum tekst það þó ekki.