Grunnskóli
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég get verið stuttorður við 1. umr. Ég sé af eðlilegum ástæðum tilefni til að rifja það upp að nú er í lögum um grunnskóla, sérprentun þeirra, minnst á einstök laganúmer og þar stendur í fyrsta lagi: ,,Lög nr. 63/1974``. Það var einmitt á síðustu dögum þingsins sem við sjálfstæðismenn gerðum harða hríð að þáv. hæstv. menntmrh. vegna atriða í grunnskólalögum sem beinlínis voru sett inn í lögin. Þá eins og nú var uppi mjög djúpur ágreiningur á milli okkar sjálfstæðismanna og vinstri flokkanna um það hvernig farið skuli með fræðsluumdæmi Reykjavíkur. Við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram að því sé rétt að Reykjavíkurborg ráði sjálf í stórum dráttum hvernig hún vill halda á sínum uppeldismálum og auðvitað enn þá augljósara nú eftir að fjárhagsleg ábyrgð sveitarfélaganna á skólunum er orðin mun meiri en áður. Þó enn sé nokkur ruglingur á því og ekki komnar hreinar línur í sambandi við verkefni og tekjuskiptingu í þeim skilningi er vitaskuld eðlilegt að gera þar gleggri skil en nú er til þess að auka ábyrgð sveitarfélaganna á skólahaldinu, auðvelda skólahaldið, styrkja sjálfstæði einstakra skóla og reyna með jákvæðum aðgerðum að hlúa svo að skólunum að við því megi búast að þeir verði lifandi stofnanir í þeim skilningi að nýjungar eigi greiða leið í gegnum skólastarfið. Mér sýnist á þessu frv. að hæstv. ráðherra sé enn á sínum gamla stað ríkisforsjárinnar í þessu frv. og vil strax við 1. umr. leggja áherslu á þetta. Annars vegar tel ég að skólahald eigi að vera í höndum sveitarfélaganna að fullu og öllu og hins vegar tel ég að það eigi að tryggja sjálfstæði skóla enn frekar en nú er gert.
    Strax í 3. gr. frv. kemur fram sá djúpi skoðanaágreiningur sem er milli mín og hæstv. ráðherra að þessu leyti. Í þeirri grein stendur svo:
    ,,Grunnskóli er tíu ára skóli. Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn. Hverjum grunnskóla má skipa í einingar með ákvörðun hlutaðeigandi sveitarstjórna að fenginni umsögn fræðslustjóra og samþykki menntmrn.``
    Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að ég er fullkomlega andvígur því að ekki megi reka skóla á grunnskólastigi fyrir ákveðnar bekkjardeildir. Orðið ,,heildstæður`` í þessari merkingu getur ekki haft aðra þýðingu en þá að óheimilt sé að reka grunnskóla nema þar séu allir bekkir hans. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem semja grunnskólalög hafi þann skilning á íslenskri tungu að þeir átti sig á að þessi sé merkingin.
Það er einnig svo að á ýmsum fámennum afskekktum stöðum í strjálbýli er óhjákvæmilegt að reka skóla fyrir yngstu börnin sem næst heimilum til þess að þau geti farið heim til sín að kvöldi.
    Ég vil jafnframt taka skýrt fram að fræðslustjóri á ekki að vera starfsmaður menntmrn. Í 14. gr. stendur skýrum stöfum: ,,Menntmrn. ræður í stöður fræðslustjóra að undangenginni auglýsingu. Við ráðningu fræðslustjóra er skylt . . . `` o.s.frv. Hér er gert ráð fyrir

því að staða fræðslustjóra sé hin sama samkvæmt þessum lögum og er nú, að fræðslustjórinn sé opinber starfsmaður menntmrn. Það er auðvitað óeðlilegt þegar svo er að hann eigi að vera einhver milliliður á milli menntmrn. og fræðslustjóra. Þetta er í raun og veru sami aðilinn. Fræðslustjóraembættið var á sínum tíma hugsað svo að hægt væri að færa út á landsbyggðina fræðslustjóra til þess að vera fulltrúar menntmrn. gagnvart sveitarfélögunum og einstökum skólum, fulltrúi menntmrn. á hverjum stað, og hefur embætti fræðslustjóra verið rekið á þeim grundvelli. Það hefur gengið dómur í máli viðvíkjandi þessu embætti sem staðfestir að hér sé um opinberan starfsmann ríkisins að ræða, en ekki hægt að líta á þennan mann sem fulltrúa sveitarfélaganna. Það er þess vegna algerlega óeðlilegt að vera að búa til einhvern millilið á milli skólaskrifstofu sveitarfélaganna og menntmrn. Annað tveggja er eðlilegt að fræðslustjóri taki ákvarðanir fyrir hönd menntmrn. eða þá að leggja það embætti niður og reyna að finna eitthvert annað form á því. Eða þá í þriðja lagi, sem mér finnst skynsamlegast, að fræðslustjóri starfi á vegum sveitarfélaganna og þá er auðvitað ekki um það að ræða að menntmrh. skipi í þá stöðu.
    Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun að ég telji að grunnskólalögin frá 1974 hafi að ýmsu leyti fært skólann aftur á bak. Ég hef oft rifjað það upp hér í þessum ræðustól að það var mikill misskilningur að leggja niður 4. bekk gagnfræðaskóla eins og hann var rekinn á þeim tíma. Nú skal ég ekki segja. Grunnskólinn er samkvæmt þessu frv. tíu ára skóli og er þá gert ráð fyrir því að sex ára aldurinn gangi inn í grunnskólann. Þetta er auðvitað mikið vafamál hvort það eigi að binda bekkjardeildir með þeim hætti sem hér er gert og mikil spurning hvort grunnskólinn geti ekki undir vissum tilvikum verið ellefu ára skóli gagnvart þeim börnum sem sérstaklega stendur á um.
    Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að segja í rauninni mikið meira. Með þessu frv. er verið að leggja vissar skyldur á sveitarfélögin í landinu án þess að menntmrh. hafi haft fullnægjandi samráð við sveitarfélögin. Það er auðvitað mjög eftirtektarvert að þessi ríkisstjórn tók við miklu verki sem unnið hafði verið meðan sjálfstæðismenn fóru með stjórn landsins í þá veru að hér gæti gengið í gegn ný löggjöf um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með þeirri löggjöf var reynt að halda einhverju samræmi á milli þeirra verkefna sem sveitarfélögin tóku að sér og þeirra tekjumöguleika sem þau höfðu.
    Síðan þetta gerðist hefur þessi ríkisstjórn verið að binda sveitarfélögunum æ fleiri bagga. Sá hæstv. menntmrh. sem mér situr á aðra hönd hefur verið önnum kafinn að byggja þennan bagga hér og það sem ég vil segja að sé mesti ábyrgðarhlutinn í þessari lagasmíð er að eðlilegt hefði verið að þetta mál yrði lagt hér fram til kynningar nú. Síðan mundi þetta frv. geta verið í umræðu og athugun í sumar og síðan eftir atvikum tekið upp á hausti komanda þannig að svigrúm gæfist til þess að, ég vil segja, sameina kraftana og til þess einnig að slá því ekki föstu nú

þegar á þessum vordögum að hæstv. menntmrh. verði áfram menntmrh. í þeirri ríkisstjórn sem við tekur eftir kosningar.
    Ég vil því í fullri vinsemd beina því til hæstv. menntmrh. að hann fallist á það til þess að greiða nú fyrir störfum þingsins á þessum síðustu dögum að þetta þingmál verði lagt til hliðar þannig að svigrúm gefist til þess að ræða þær hugmyndir og þær breytingar sem hér eru lagðar fram við samtök sveitarfélaganna og til þess að gera sér betur grein fyrir þeirri fjárhagslegu byrði sem hér er verið að leggja á sveitarfélögin. Það er auðvitað billegt fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr að koma fram með ýmis ákvæði nú í þessu frv. sem þorri þingmanna hló að fyrir einu eða tveimur árum þegar fluttar voru sams konar tillögur af þingmönnum hér og sögðu að væru yfirboðstillögur. Þá er auðvitað hálfbroslegt að sjá menntmrh. núna flytja hinar sömu tillögur, slengja þeim inn í stórt og langt lagafrv. og leggja höfuðáherslu á það hér í þinginu að hann geti náð þessu máli fram í trássi við sveitarfélögin í landinu, án þess að gera skiljanlega grein fyrir þeim útgjaldaauka sem þetta frv. hefur í för með sér og án þess að leiða hugann að því hvernig sveitarfélögin eigi að geta mætt þeim auknu útgjöldum sem þetta frv. hefur í för með sér.
    Ég skal ekki gera sérstaklega frekar en ég hef nú gert að umtalsefni það sem varðar Reykjavík. Auðvitað eru ákvæðin um Reykjavík skiljanleg eingöngu út frá því að hæstv. menntmrh. getur ekki hugsað sér að skólanefnd Reykjavíkurborgar geti starfað með eðlilegum hætti. Það er fyrir löngu komið í ljós að fræðslustjórinn í Reykjavík hefur í rauninni ekkert verksvið, engan tilgang. Sú skrifstofa er algerlega óþarfur milliliður á milli Reykjavíkurborgar og menntmrn. og þess vegna augljóslega rétt að leggja það embætti niður. Með sama hætti væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig nágrannasveitarfélög Reykjavíkur líta á þetta mál. Þau sveitarfélög sem eru svo nærri menntmrn. að þau telja það beinlínis hagkvæmt fyrir sig að hafa sérstakan ,,fræðslustjóra``, ráðinn af sveitarfélögunum, til þess að halda utan um rekstur skólanna í sínum umdæmum. Hugmyndum af þessu tagi er auðvitað erfitt að hreyfa við menntmrh. sem kemur hingað, herra forseti, með heilt grunnskólafrv. Það er hér til umræðu í dag, á miðvikudegi á sjötta tímanum. Á morgun er gert ráð fyrir eldhúsumræðum og liggur ljóst fyrir að þinghald, nefndastörf og annað liggur niðri eftir hádegi á morgun. Síðan er gert ráð fyrir því samkvæmt starfsáætlun að þinginu ljúki á föstudaginn. Þess vegna er hæstv. ráðherra það fullkomlega ljóst að menntmn. Ed. hefur engin tök á því að setja sig inn í einstaka þætti, athuga sérstaklega og bera saman athugasemdir frá einstökum umsagnaraðilum og síðast en ekki síst er það fullkomlega óhugsandi að við í nefndinni höfum tök á því að ræða við sveitarfélögin um þær fjárhagslegu skuldbindingar sem þetta frv. leggur á þau.
    Ég held að ég láti þetta nægja. Auðvitað er sumt í þessu frv. gamalkunnugt. Auðvitað er þetta frv. ekki að öllu leyti vont en það hefur þennan stóra skavanka.

Það er lagt fyrir of seint. Það ætlast til mikils af öðrum en lítils af ráðherra og flutningsmaðurinn situr í stóli ráðherra þar sem hann mun sennilega fá reisubréf eftir næstu kosningar og annar maður taka við því embætti. Þess vegna er eðlilegt að sá maður hafi tök á því að móta frv. í samræmi við sína stefnu og til þess að gera skólahald markvissara og efna ekki til kostnaðar og fyrirhafnar á röngum forsendum.