Frsm. 2. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ef ég hef skilið rétt, þá er hugmyndin að afgreiða þetta dagskrármál um sjóðshappdrætti núna. Ég heyrði það á orðum hæstv. fjmrh. að hann telur mikilvægt að þetta sjóðshappdrætti verði samþykkt þrátt fyrir að búið sé að leysa málið um þyrlukaupin með því að inn í lánsfjárlög kemur heimild til lántöku á þessu ári um allt að 100 millj. kr. sem er talið að dugi til þess að festa kaup á þyrlunni.
    Við hv. 3. þm. Reykv. sem eigum sæti í hv. allshn. höfðum lýst því í nál. að við sætum hjá við afgreiðslu þessa frv. við 2. umr., sem við og gerðum, en nú teljum við að málið sé leyst með því að tryggt er að þessi lántaka kemur í gegnum lánsfjárlögin. Þess vegna finnst okkur fráleitt að ríkið fari að reka slíkt sjóðshappdrætti í samkeppni við þau frjálsu félagasamtök sem telja sig hafa þörf fyrir að nýta happdrættismarkaðinn sem ég og fleiri telja að sé orðinn ofmettaður. Og reyndar hafa þeir sem reka happdrætti, eins og hér hefur margsinnis komið fram í umræðum, lýst því yfir að þeir hafi miklar áhyggjur af því og m.a. orðið fyrir miklu tapi á happdrættinu. Þess vegna munum við nú greiða atkvæði gegn þessu frv.
    Mér þykir það miður að komið skuli hafa til slíkrar afgreiðslu vegna þess að þyrlukaupin í sjálfu sér eru gott mál. Það er búið að leysa það með góðu samkomulagi í gegnum lánsfjárlögin og þess vegna sé ég engan tilgang með því að efna til þessarar umræðu nú. En ég vildi sem sagt lýsa því að við höfum skipt um skoðun að því leyti að það er komin upp ný staða. Við munum greiða atkvæði gegn því að verið sé að þjóðnýta slíkan tekjustofn með því að setja á stofn sjóðshappdrætti sem ríkið ætlar að reka.