Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það vildi svo til, meðan ég var að sinna öðrum störfum hér í deildinni, á meðan haldinn var fundur í menntmn. hér í hliðarherbergi, að hæstv. fjmrh. gaf yfirlýsingu sem varðaði það frv. sem hér er til umræðu. Jafnframt vísaði sá þingmaður sem hér tók til máls, hv. 6. þm. Reykn., til sérstaks samkomulags sem gert hefði verið í fjh. - og viðskn. Nd. varðandi það mál sem hér er til umræðu. Nú tel ég mjög nauðsynlegt að fá heimildir fyrir því sem hæstv. ráðherra hafði um þetta mál að segja hér í deildinni á meðan ég sat fund menntmn. þegar hann allt í einu hljóp upp í stólinn og gaf, að því er mér skilst, yfirlýsingu um að þetta mál ætti að halda áfram sem er gagnstætt því sem látið hefur verið í veðri vaka af ríkisstjórninni fram að þessu. Ég segi nú ekki að ríkisstjórnin skipti jafnoft um skoðun og hæstv. forseti Sþ., á hálftíma fresti, en hún er stundum furðufljót í vendingum samt, ríkisstjórnin. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort dreift hafi verið brtt. frá hv. fjh. - og viðskn. Nd. um lánsfjárlög. Það er alveg útilokað að fjalla áfram um þetta mál áður en hægt er að fá upplýsingar um það samkomulag sem gert kann að hafa verið í fjh. - og viðskn. Eftir einhverjum orðrómi sem hefur strokist hér um veggi skilst manni að ætlast sé til þess að veitt sé heimild fyrir erlendri lántöku en á hinn bóginn er í fjárlögum veitt heimild fyrir innlendri lántöku sem gerir það kleift að festa kaup á þyrlunni.
    Jafnframt skilst mér að hér liggi fyrir brtt. frá flokksbróður fjmrh. Ég veit ekki hvort búið er að draga þá tillögu til baka um sérstakan eignarskattsviðauka við þetta frv. Ég verð að fara fram á það að þingmenn fái að setja sig inn í allan þennan hringlanda sem er í málinu áður en umræður halda áfram. Það er í fyrsta lagi: Hvers eðlis er það samkomulag sem gert hefur verið í fjh. - og viðskn.? Hvar eru þau þingskjöl sem að því lúta? Það er ógerningur að ræða um málið fyrr en þau liggja fyrir. Í öðru lagi vil ég spyrja, til að flýta fyrir hæstv. forseta, hvort sá þingmaður sem nú gengur út hafi dregið sína brtt. um eignarskatt til baka sem hann flutti um þetta frv. --- Hann hefur ekki gert það. Þá sé ég ekki betur en fyrirsögn frv. sé röng því að þá hlýtur frv. að heita frumvarp um þyrlukaup og eignarskattsviðauka, væntanlega, eignarskattsviðauka Alþb. --- genitivus definitivus heitir það á góðu máli. Og svo vil ég fá að vita sem sagt efni ræðu fjmrh. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti vill fresta umræðunni eða hvort hann kýs heldur að ná í hæstv. fjmrh. svo hægt sé að leggja fyrir hann einfaldar spurningar nú við umræðuna.
    Síðast þegar málið var hér til umræðu gaf hæstv. fjmrh. yfirlýsingar. Síðan dreifði hann hér grænni bók sem gaf ranga hugmynd af fjárhag ríkisins á árinu 1990. Núna hleypur hann upp í ræðustól meðan ýmsir deildarmenn sitja hér í hliðarherbergi á fundi í menntmn. deildarinnar, rokinn með það sama. Ég veit ekki hvað hann er að gera illt af sér annars staðar nú einmitt á þessari stundu, hvort hægt væri að fá hann

--- hann er erfiður til svara þó að hann sé viðstaddur, en ég er hræddur um að hann verði enn þá þyngri undir fæti ef hann er víðs fjarri. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti getur lánað mér tillögu hv. þm. um eignarskattsviðaukann, ef forseti vill að ég tali áfram.
    Nú var ég fjarverandi 2. umr. málsins, þetta er 3. umr. Og ber svo að skilja að þessi tillaga hafi verið samþykkt við 2. umr.? (Gripið fram í.) Ekki nei, lögð fram við þriðju.
    Mig langar til að spyrja hv. þm. Skúla Alexandersson hvaða almennu markmið hann hafi haft í huga með því að ákvarða að eignarskatturinn, þessi sérstaki eignarskattsviðauki, skuli vera 0,07% af eignarskattsstofni. Hv. þm. leggur til að þessi skattlagning skuli standa í fjögur ár, 1991 -- 1994 að báðum árum meðtöldum. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvað hann býst við að þessir skattpeningar dugi langt í kaupverð þyrlunnar, hvað hann hafi í huga með því.
    Nú er það svo að þegar hæstv. menntmrh. sem nú er var húsnæðisráðherra, þetta hef ég oft rifjað upp, var búið að brjóta niður fjárhag byggingarsjóðanna, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Það varð fyrsta verk okkar sjálfstæðismanna þegar við komum í ríkisstjórn að rétta við fjárhag þessara sjóða. Það höfðum við áður gert eftir að Magnús Magnússon hætti að vera húsnæðisráðherra og það kemur nú í hlut okkar að gera það á nýjan leik eftir að Jóhanna Sigurðardóttir hættir að vera húsnæðisráðherra. Í þessi þrjú skipti sem við höfum verið utan ríkisstjórnar hin síðustu ár hafa vinstri stjórnir ævinlega skilið þannig við að fjárhagur byggingarsjóðanna hefur verið brotinn niður.
    Þegar Svavar Gestsson var síðast húsnæðisráðherra stóð svo á að erlent lánsfé var tekið af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens til þess að standa undir húsbyggingum Íslendinga. Hinn innlendi sparnaður dugði ekki til þess. Svo bágborið var ástandið. Þetta voru afleiðingar af því hvernig skilið var við sjóðina 1983. Svona bágborið var nú ástandið á þeim tíma sem þá var raun og þó voru lánin til húsbygginga ekki hærri en svo á þeim tíma, hæstv. menntmrh., að eftir að húsnæðislánin höfðu verið að fullu greidd húsbyggjendum var talið að lánsfjárhæðin væri í kringum 11 -- 12% af nýbyggingum. Þvílík var verðbólgan á þeim árum og verðmæti lánanna ekki meira en þetta. Síðan hefur það verið í umræðunni alla daga, ef hæstv. menntmrh. vill að við höldum þessu áfram, hvernig hægt sé að koma til móts við það fólk sem byggði eða eignaðist eigið húsnæði á þessum árum eftir að Alþb. og Framsfl. og Alþfl. beittu sér fyrir því að full verðtrygging yrði tekin upp á húsnæðislánum, samþykktu það hér í þinginu. Þegar kom til þess á árunum 1984 og fram úr, í minnkandi kaupmætti, að fólk hætti að standa skil á sínum lánum varð til mjög harður þrýstihópur þess unga fólks sem hafði fest kaup á húsnæði á þeim tíma þegar hæstv. menntmrh. var húsnæðisráðherra. Ég get haldið þessari ræðu minni lengur áfram ef hæstv. menntmrh. vill. Það var ekki út af því sem ég var að minnast á þetta heldur hinu að á þeim tíma beittum við Þorsteinn

Pálsson okkur fyrir því að tekinn yrði upp sérstakur eignarskattsauki. Honum var varið til þess að koma nýju fé inn í Byggingarsjóð ríkisins og sá skattur var tímabundinn. Þegar okkur hafði tekist með þessum hætti að rétta við fjárhag byggingarsjóðanna og búið var að byggja upp innlendan sparnað á nýjan leik þannig að ekki þurfti að leita út fyrir landsteinana til að afla fjár til íbúðabygginga, þá beitti þáv. hæstv. menntmrh. sér fyrir því að þessi sérstaki eignarskattsauki yrði ekki lagður niður, heldur yrði ákveðið að hann skyldi um takmarkaðan tíma renna til þess að Alþingi og þjóðin í gegnum Alþingi gæti staðið við þjóðargjöfina svonefndu sem forseti Alþingis eða forsrh., sennilega forsrh., lýsti yfir á Þingvöllum 1974 að yrði gefin þjóðinni, með öðrum orðum Þjóðarbókhlaðan.
    Það gerðist síðan þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var við völd, herra forseti, að tekið var erlent lán til þess að reyna að standa við fyrirheitin um þjóðargjöfina. Ég greiddi atkvæði gegn því hér á Alþingi að við tækjum erlent lán til þjóðargjafarinnar. Síðan gerðist það að Sverrir Hermannsson beitti sér fyrir því að þessi sérstaki eignarskattsauki gengi til þess að ljúka við þjóðargjöfina. Alþingi hefur gengið illa að standa við það. Enn er þjóðargjöfinni ólokið, hún hefur ekki verið færð þjóðinni. Húsið stendur vestur á Melum, suður við Háskóla, og hefur ekki enn verið tekið í notkun. Síðan beitti hæstv. menntmrh. sem nú er sér fyrir því að þessi eignarskattsauki skyldi haldast og færði út þau verkefni sem hann átti að standa undir.
    Það frv. sem hér er flutt fjallar auðvitað um að auka skattheimtu í landinu. Það er í samræmi við þá tilhneigingu vinstri manna að setja sér engar skorður með skattheimtuna. Því er velt fyrir sér, þetta er nú gott og þetta er nú gott og þetta er nú gott, mikið er ánægjulegt ef við getum fengið nýja björgunarþyrlu af dýrustu gerð. Mér er sagt, herra forseti, að einhver þingmaður í Nd. hafi haft orð á því um daginn að það væri rétt að kaupa aðra þyrlu í leiðinni. Í þessari deild eru menn að velta fyrir sér einni þyrlu og það er svo mikið haft við að aflað er lánsfjárheimildar. Auðvitað er ekki króna eftir þegar fjárlög eru afgreidd til þess að setja sjálfsaflafé þjóðarinnar í björgunartæki fyrir sjómenn, þó væri. Auðvitað hefur siglingaþjóðin og fiskimannaþjóðin ekki efni á því að setja krónu í það. ( Forseti: Ég þarf að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni þar sem nú mun hefjast fundur í Sþ. þannig að umræðu um þetta mál er frestað.)