Frv. um umboðsmann barna
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. 137. mál þessa þings er frv. til laga um embætti umboðsmanns barna. Það er flutt af fulltrúum fimm stjórnmálaflokka sem hér eiga sæti á hinu háa Alþingi og meðal flm. er hæstv. forseti þessarar deildar. Þetta mál hefur verið áður flutt og meðflm. var m.a. hæstv. núv. félmrh. Ætla verður að þessir fulltrúar fimm stjórnmálaflokka hljóti að hafa haft samþykki þingflokka sinna og mætti þess vegna ætla að málið hefði yfirgnæfandi meirihlutafylgi hér á hinu háa Alþingi. Þar er við að bæta að málið hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun úti í þjóðfélaginu og fyrir hv. allshn., sem málið hefur til meðferðar, liggur fjöldi umsagna sem allar sem ein eru jákvæðar. Það er ljóst að einhver þröskuldur er fyrir þessu máli og ég vil þess vegna biðja hæstv. forseta þessarar deildar að sjá svo til að málið verði tekið út úr nefnd þannig að það liggi ljóst fyrir hverjir nefndarmanna það eru sem ekki treysta sér til að fylgja málinu. Ég tel að það sé nauðsynlegt vegna þess að það er alveg ljóst að fyrir þessu máli er mikill áhugi í þjóðfélaginu í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um málefni barna og ég sætti mig ekki við að þetta mál, sem nú er flutt í þriðja sinn, verði eftir í nefndinni án þess að það sé ljóst hverjir hafa hindrað framgang þess. Ég vil mælast til að hæstv. forseti kanni það mál fyrir mig.