Frv. um umboðsmann barna
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það mál sem hér um ræðir er búið að liggja óafgreitt alllengi hjá allshn. Nd. Það hefur verið tekið fyrir á nokkrum fundum, við höfum aflað um það umsagna, kostnaðarumsagna og nýrra umsagna vegna þess að frv. var flutt með nokkrum breytingum. Það er nú þannig að nefndin hefur verið með mörg mál og stór svo að nefndarmenn hafa ekki treyst sér til að afgreiða málið á þeim tíma sem við höfum haft til starfa. Ég hef nú ekki í kollinum hvað hafa komið mörg stjfrv. til nefndarinnar en þau eru afar mörg og stór mál þannig að nokkur þingmannafrv., og þar á meðal þetta, liggja óafgreidd hjá nefndinni og nefndarmenn hafa ekki treyst sér til að afgreiða þau eins vel og skyldi á þeim skamma tíma sem nefndin hefur til starfa.
    Ég er einn af meðflm. þessa máls hv. 13. þm. Reykv. Ég hef ekki treyst mér til að taka þetta mál út í ósamkomulagi eða undir því að nefndarmenn hafi ekki haft tíma til að kynna sér það. Það er ástæðan fyrir því að málið liggur hjá nefndinni. Ég vil upplýsa hæstv. forseta Nd. um það að ég er að sjálfsögðu tilbúinn að eiga viðræður við hann um málið ef hann óskar eftir fundi með formanni nefndarinnar.