Mannanöfn
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Þetta frv. til laga um mannanöfn hefur verið hér á ferðinni í nokkuð langan tíma og er nú komið hér til þessarar hv. deildar í annað sinn. Við meðferð málsins hér í deildinni í síðustu viku voru samþykktar nokkrar brtt. sem ég hafði leyft mér að flytja en hv. Ed. hefur breytt tveimur þeirra í það fyrra horf sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir. Þar er um að ræða annars vegar spurninguna um það hvort mönnum skuli heimilt að taka upp svokallað millinafn, jafnvel þótt slíkt millinafn fái ekki staðist sem sjálfstætt eiginnafn að dómi mannanafnanefndar.
    Hitt atriðið sem breytt hefur verið til baka og máli skiptir er það að Ed. hefur á nýjan leik sett inn í frv. þá skyldu íslensks aðila, sem hefur búið erlendis með íslenskum maka sínum og tekið upp ættarnafn hans á erlendri grund, að fella það ættarnafn eða eftir atvikum kenninafn niður við heimflutning til landsins á nýjan leik.
    Ég lýsti þeim skoðunum mínum við umræður um þetta mál að mér fyndist óeðlilegt að gera þá kröfu til t.a.m. íslenskrar konu, sem hefði búið með íslenskum manni sínum erlendis og notað kenninafn hans eða ættarnafn, að hún hætti því þegar viðkomandi hjón flyttu aftur til landsins.
    Nú mun það að vísu svo að einmitt þessi framkvæmd er það algenga og íslenskar konur sem tekið hafa upp kenninafn mann síns í útlöndum taka í ríkum mæli aftur upp sitt gamla kenninafn við flutning til landsins.
    Mér hefur verið bent á það í samtölum við aðila sem að samningu þessa frv. hafa staðið að auðvelt kynni að vera að fara í kringum það sem fyrir mér vakti með því að flytjast til útlanda um stundarsakir og af því tilefni geti hugsanlega komið upp tilfelli þar sem um mismunun gæti verið að ræða.
    Reyndar felur þetta frv. í sér ákveðna mismunun eins og fram kemur í grg. þess þar sem tilteknum einstaklingum er leyft að bera ættarnöfn, þ.e. þeim einstaklingum sem þau bera í dag, en öðrum ekki.
    Ég tel að þær aðstæður geti verið fyrir hendi að kona sem tekið hefur upp kenninafn manns síns á erlendri grund og búið þar kannski áratugum saman, telji þetta nafn, þ.e. hennar eigið eiginnafn og kenninafn maka síns, orðið það ríkan þátt í sínum persónuleika að hún vilji ekki hverfa til baka til þeirrar reglu sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel vel hægt að ímynda sér slík tilvik. Reyndar tel ég að í lögum sem þessum eigi að reyna að ná utan um sem flest slík vafa- og jaðartilvik. En á móti hefur verið bent á að kona sem búið hefur með manni sínum á erlendri grund í þrjá mánuði gæti gert kröfu til hins sama.
    Mér finnst sem ákvæði af þessu tagi strjúkist óþyrmilega utan í Mannréttindasáttmála Evrópu ef fólki er gert að skyldu að fella niður hluta af nafni sem það lítur hugsanlega á sem ríkan þátt í eigin persónuleika. En hins vegar í ljósi þess að afar ólíklegt er að um þetta verði ágreiningur í reynd og vegna þess að þeir aðilar sem þetta frv. hafa samið af mikilli vandvirkni telja að það ákvæði, sem ég fékk hér brottfellt en Ed. hefur sett inn í frv. á nýjan leik, skipti miklu máli varðandi heildarsamræmi í væntanlegum lögum, þá hef ég nú ákveðið að halda ekki þessari tillögu til streitu þótt ég hafi látið útbýta henni á nýjan leik á þskj. 917 sem liggur hér fyrir.
    Að því er síðan varðar spurninguna um millinöfn þá hefur hv. menntmn. Ed. fengið samþykkta í deildinni breytingu sem fellir brott þá heimild sem hér var samþykkt að minni tillögu í síðustu viku með þeim rökstuðningi að millinöfn væru í eðli sínu ættarnöfn, eða réttara sagt ígildi ættarnafns. Ég er ekki sammála þessu. Það má vel vera að svo geti verið í einhverjum tilvikum en ég tel að það sé alls ósannað mál að eitthvert millinafn sem menn taka upp og gefa barni sínu --- ég hef nefnt hér nokkur dæmi um slík nöfn --- verði endilega og óhjákvæmilega og alltaf ígildi ættarnafns.
    Ég hef átt viðræður um þetta mál frá því að breytingarnar voru gerðar í Ed. við þá aðila sem þetta frv. hafa samið og hafa unnið við þessi mál á grundvelli gildandi laga frá 1925, sem eru eins og allir vita óframkvæmanleg, og hafa ekki verið framkvæmd þannig að framkvæmd þessara mála hefur verið mjög í lausu lofti.
    Mér er það ljóst, eins og áður hefur komið fram í máli mínu, að setning nýrra laga um þessi efni er skynsamleg. Ég hef ekki hugsað mér að standa í vegi fyrir því að ný lög um þetta efni nái hér fram að ganga. Í ljósi þess rökstuðnings
sem fram hefur verið reiddur í mín eyru af hálfu þessara aðila þá sé ég heldur ekki ástæðu til að halda kröfunni til millinafna til streitu, ekki síst vegna þess að í I. kafla frv. og í athugasemd með 1. gr. þess er að því vikið að um þessi svokölluðu millinöfn skuli farið eftir almennum reglum I. kafla laganna um eiginnöfn. Þannig má segja að til þess að greiða fyrir því að þetta frv. nái fram að ganga geti ég hugsað mér að fórna minni hagsmunum sem ég tel vera í þágu hinna meiri og láta kyrrt liggja með þetta ágreiningsefni um millinöfnin. Ég get ekki fallist á þann rökstuðning í einu og öllu að millinöfn séu ígildi ættarnafna, eins og ég hef sagt. Hins vegar hefur mér verið bent á að margháttað ósamræmi kunni að koma upp verði sú heimild inni í lögunum sem deildin var búin að samþykkja og jafnframt að hin fyrirhugaða mannanafnanefnd kynni að verða óstarfhæf ef beinlínis er kveðið á um það í lögunum að heimilt sé að skíra millinafni sem mannanafnanefndin telur ekki geta staðist sem eiginnafn. Þá getur hver og einn sem lendir í ágreiningi við mannanafnanefndina skírskotað til þessarar heimildar og komið sínu máli fram, hversu fáránlegt sem það annars kann að vera, jafnvel þó það bryti í bága við önnur ákvæði laganna eins og það ákvæði sem bannar að skíra stúlku drengjanafni og dreng kvenmannsnafni.
    Að öllu þessu athuguðu og í þágu þess að mál þetta nái fram að ganga, sem hefur af hálfu fagaðila fengið mjög rækilegan og vandaðan undirbúning, hef ég hugsað mér og vil láta það koma fram, virðulegur forseti, að brtt. mínar á þskj. 917 eru dregnar til baka. Eftir umræður um þetta mál stendur það eftir að þær skýringar sem fram hafa verið reiddar í einkasamtölum hafa ekki komist nægilega til skila í þeirri kynningu og við þann undirbúning sem málið átti eðlilega að fá.
    Ég vek athygli á því að við 2. umr. í Nd. kom fram skýring af hálfu formanns menntmn. á ákvæðinu um dagsektir sem aldrei hafði áður komið fram í umræðum um þetta mál. Og bæði hæstv. menntmrh. og dómsmrh. höfðu í raun lýst sig andvíga ákvæðinu um dagsektir, eins og ég hafði gert og fleiri þingmenn. En með þeim skýringum sem hv. formaður menntmn. gaf á endanum taldi ég unnt að fallast á þetta ákvæði. Það er sennilega vegna þess að hvorki við hæstv. menntmrh. né dómsmrh. erum nógu vel að okkur í lögfræði að við höfðum ekki gert okkur grein fyrir því hvert væri eðli dagsekta í sambandi við mál sem þetta. Og þó ríkisstjórnin gorti af því að það sé enginn lögfræðingur í ríkisstjórninni þá hefði það kannski verið gott í þessu sambandi að hafa einn slíkan innan borðs, a.m.k. til að útrýma misskilningi eins og þessum sem er búinn að taka töluverðan tíma frá umræðum um málið. En auðvitað hefði formaður menntmn. sem hægast getað komið í veg fyrir frekari umræðu um þetta mál ef hann hefði drattast til að gefa þessar skýringar strax við 1. umr., eða einhver annar ábyrgðarmaður málsins.
    Sama er auðvitað líka að segja um ástæðurnar fyrir því að meina mönnum að skíra þremur nöfnum. Sú ástæða að Hagstofan telur sig ekki geta tekið á móti nema 31 staf, það sé ekki pláss fyrir nema 31 staf í nöfnum manna, sú skýring kom ekki fram fyrr en hv. formaður menntmn. gerði grein fyrir atkvæði sínu um þetta mál, en hún hefur væntanlega legið fyrir allan tímann og hefði auðvitað átt að vera í athugasemd um 1. gr. þar sem lagt var til að eigi væri heimilt að skíra nema tveimur nöfnum. Þess vegna sýnist mér að umræður um þetta hafi dregist óeðlilega á langinn vegna þess að skýringar, sem þó hafa verið einhvers staðar handhægar og tiltækar, voru ekki reiddar fram þegar fitjað var upp á atriðum sem hefði verið hægt að skýra með viðunandi hætti án frekari tafa.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil endurtaka það að brtt. mínar á þskj. 917 eru dregnar til baka í þágu þess að mál þetta nái fram að ganga og að við fáum hér heildstæða löggjöf um þetta mál, sem ég veit að er ekki eingöngu áhugamál hæstv. menntmrh., heldur allra þeirra sem að þessum málum vinna, hvort sem það er á vettvangi íslenskra fræða og Háskóla Íslands eða á vettvangi framkvæmdaaðilanna, Hagstofunnar og að sjálfsögðu prestanna sem hafa með höndum framkvæmd á þessum lögum að því er varðar almenning.
    Að svo mæltu endurtek ég von mína um að málið fái farsæla afgreiðslu.