Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það var fróðleg upplifun að sitja hér í þingsalnum í gær og hlusta á hina svokölluðu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar kljást út af þessu máli um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Reyndar var þetta bara fyrra málið á síðasta sólarhring þar sem tveir máttarstólpar í stjórnarsamstarfinu, engir aðrir en hv. þm. Stefán Valgeirsson og Hjörleifur Guttormsson, stóðu upp og höfðu uppi harðvítugan ágreining við bæði forsrh. og aðra fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar út af þessu máli. Hv. þm. Stefán Valgeirsson stóð upp um annað þingmál í gærkvöldi og sagði: Ja, það fór aldrei svo að menn færu ekki að tala um vextina rétt fyrir kosningar, að menn þættust vilja lækka vextina rétt fyrir kosningar. En mér sýnist nú að ýmsir fleiri hafi uppi tilburði í þessu máli til þess að gera sinn fugl fagran fyrir kjósendum ef marka má umræður sem urðu í gær um þetta þingmál. Mér þykir það harla óviðeigandi að þessum umræðum skuli ljúka, ef það er meiningin, án þess að hæstv. utanrrh. svari þeim spurningum sem enginn annar en hv. 2. þm. Austurl. bar fram til hans um það með hvaða hætti þetta frv. um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri skaraðist við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði eða hvert væri það samhengi sem þar væri á milli. Og mér sem óbreyttum stjórnarandstöðuþingmanni þykir það illt ef hæstv. ráðherrar svara ekki ákveðnum grundvallarspurningum frá máttarstólpum í sínu eigin stuðningsmannaliði.
    Það frv. sem hér er til meðferðar til 2. umr. snýst um það að gera íslenskt atvinnu- og efnahagslíf ekki bara örlítið líkara því sem gerist í nálægum löndum heldur jafnframt örlítið nútímalegra en það hefur verið. Auðvitað er það rangt sem haldið hefur verið fram af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og Hjörleifi Guttormssyni, að þau ákvæði sem hér eru lögð til geti verið skaðvænleg eða á einhvern hátt hættuleg fyrir íslenskt atvinnulíf. Íslenskt atvinnulíf getur ekki haldið áfram að þróast í einangrun og getur aldrei orðið samkeppnisfært eða skapað almenningi þau lífskjör sem þörf er á ef á að einangra það frá straumum í nálægum löndum, ef það á að einangra efnahagslífið frá því sem er að gerast í öðrum löndum.
    Auðvitað er það svo að aukin þátttaka erlendra aðila í innlendum atvinnurekstri getur haft margháttaða hagkvæmni í för með sér og flutt til landsins margvíslega tækniþekkingu, fjármagn og fleira sem við Íslendingar þurfum sárlega á að halda. Því tel ég að þær ræður sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og Hjörleifur Guttormsson fluttu í gær séu ræður sem ekki bara hefðu getað heyrst hér fyrir 10 árum síðan heldur kannski ekki síður fyrir 25 árum síðan þegar menn voru í upphafi að deila um samninginn vegna álversins í Straumsvík. Þá var hv. þm. Stefán Valgeirsson að vísu ekki kominn á þing en það var ekki langt í það, mig minnir að hann hafi fyrst komið hér 1967. En hann hefði sem hægast getað flutt þá ræðu sem hann flutti í gær á því ári, 1966 eða 1967. Vissulega er það rétt sem hæstv. forsrh. sagði hér í gær að

margt hefur breyst á tíu árum þótt hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi ekki mikið breyst, það voru orð forsrh.
    Mér finnst ekki viðeigandi að skilja við þetta mál án þess að utanrrh. sé knúinn svara um þær spurningar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson bar fram. Nú er hann að vísu ekki viðstaddur, hann er kannski að undirbúa sig undir ný átök út af öðru máli. En mér finnst það óviðeigandi að þeim spurningum verði ekki svarað.
    Hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson hefur gert grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Við leggjumst auðvitað ekki gegn þessu frv., við munum styðja það. Við leggjum fram nokkrar brtt. vegna þess að okkur þykir, ef eitthvað er, þetta frv. ganga of skammt. Málefnaágreiningurinn í þessu máli er ekki milli ríkisstjórnarflokkanna og Sjálfstfl. Hann er innan ríkisstjórnarflokkanna og við Kvennalistann alveg eins og hann er í máli því sem kennt er við nýtt álver, þar er málefnaágreiningurinn nákvæmlega sá sami milli manna, að því er ég best fæ séð, og í þessu máli.
    Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að tala hér. Auðvitað væri æskilegast að það yrði ekki fyrr en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson getur hlýtt á svörin við þeim spurningum sem hann reiddi hér fram.