Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, bæði við 1. og 2. umr. um frv. Ég tel að það viðfangsefni sem hér er fjallað um sé mjög nauðsynlegt og góðra gjalda vert að samræma ákvæði varðandi rétt erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Ég tel hins vegar að í ýmsum greinum sé þar gengið til muna of langt, alveg sérstaklega að því er varðar þjónustustarfsemi og almennan iðnað í landinu þar sem algerlega er opnað fyrir eignarhald og yfirráðarétt útlendinga í þessum vaxandi greinum í okkar þjóðarbúskap. Ýmis önnur atriði í frv. eru til bóta, alveg sérstaklega að því er varðar rétt til eignarhalds í fiskveiðum og í vissum þáttum fiskiðnaðar. Ég mun greiða atkvæði með tilliti til þessa og styðja þær brtt. sem fram hafa verið bornar og horfa til breytinga og bóta á þessu frv. Ég greiði ekki atkvæði um þessa grein frv.