Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. í því máli sem fylgir þessu frv., þ.e. frv. til laga um erlendar fjárfestingar hér á landi, skilar ekki minnihlutaáliti í þessu máli sem hér er til umræðu. Þar sem 2. minni hl. flytur ekki brtt. þótti ástæðulaust að skila nál.
    Nú hefur það gerst að mér hefur verið bent á, og reyndar tók ég það fram í framsögu minni í hinu málinu, að ósamræmis gæti í 8. gr. frv. og athugasemdum við 8. gr. frv. Mér sýnist að hér hafi orðið á einhver mistök við gerð frv. og frv. hafi verið þrengt meira en ástæða er til og jafnvel meira en nefndarmenn sem sömdu frv. ætluðust til. Þetta sést vel á því að í aths. við 8. gr. er gefið í skyn að greinin sjálf sé rýmri og gefi rýmri heimildir en hún gerir í raun og veru. Mér finnst vera full ástæða til þess, virðulegi forseti, af þessum sökum að nefndin sem þarf að hittast innan tíðar fái tækifæri milli 2. og 3. umr. að skoða þetta mál. Ef í ljós kemur að mistök hafi orðið er full ástæða til þess að leiðrétta frv. enda mundi sú leiðrétting vera þá í hátt við það sem fyrri frv. voru og ekki sýnist samkvæmt grg. hafi verið ætlast til þess að efnisatriði breyttust.
    Þetta er spurning um það hvort erlendur aðili þurfi leyfi ráðherra til þess að eignast fasteign til notkunar í rekstri sem hann hefur þegar haft heimild til að eiga í eða reka. Það er auðvitað þvert á þá hugmynd sem menn höfðu uppi í þessu sambandi en aðalreglan hefur verið að þeir sem hafi heimild til atvinnureksturs hér á landi hafi einnig heimild til að eiga fasteign sem notuð er í rekstri, en aðeins þurfi leyfi ráðherra, sérstakt leyfi ráðherra, ef um er að ræða fasteign sem er ekki notuð í viðkomandi rekstri.
    Ég vil leyfa mér að fara fram á að nefndin fái tækifæri til að skoða þetta eina atriði á milli 2. og 3. umr. Jafnframt hefur mér verið bent á að í því frv. sem til umræðu var næst á undan þessu gæti einnig ósamræmis á milli núgildandi hlutafélagalaga og þess lagafrv. sem þar var á ferðinni, þ.e. lagafrv. um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Það varðar lögheimili meiri hluta stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Samkvæmt hlutafélagalögunum nægir að menn hafi búsetu hér á landi en í lagafrv. sem við vorum að ræða hér fyrr í dag, en 2. umr. fór fram þá, er sett skilyrði um lögheimili. Þessi tvö atriði eru þannig, reyndar ásamt einu í viðbót sem ég hef nefnt líka í mínu máli, þ.e. að ekki er samræmi milli tveggja frv. sem hér eru til umræðu sitt í hvorri deildinni. Annað er lagafrv. um ferðaþjónustu sem nú er til meðferðar í Ed. og hefur þegar fengið afgreiðslu í Nd. Ákvæði í því frv. stangast á við ákvæði í því frv. sem við nú erum að ræða og í umsögn Sambands íslenskra ferðaskrifstofa er þess beiðst að samræmi verði í lagagreinunum, þannig að ég hygg að hv. fjh.- og viðskn. þurfi aðeins að líta á þetta mál og átta sig á því hvort hún vilji leggja til breytingar við þetta frv. eða hvort hún vill senda orðsendingu til þeirrar nefndar sem fjallar um hitt frv. um það að ákvæði í því frv. breytist til

samræmis við þetta lagafrv. hér. En í báðum tilvikum er verið að tala um nákvæmlega sama hlutinn, þ.e. hverjir eigi að hafa leyfi til þess að reka ferðaþjónustu hér á landi.
    Virðulegi forseti. Í trausti þess að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er formaður fjh.- og viðskn., virði það við mig hve seint þessar athugasemdir koma fram tel ég ekki ástæðu til þess að hafa þessa ræðu lengri, en minni á að sumar umsagnirnar bárust nefndinni ekki fyrr en eftir að málið var tekið úr nefndinni vegna þess að svo mikið lá á þessu máli að áliti stjórnarmeirihlutans.