Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns um að óska eftir því að við fáum svör við þeim spurningum sem hér voru bornar fram í gær. Það er ansi hart að sitja undir því að hæstv. utanrrh. skuli ekki svara spurningum hv. þm. E.t.v. segir það ákveðna sögu að hæstv. utanrrh. veigrar sér við að svara þar sem nokkuð ljóst er að hann er ekki sammála því sem fram kom í máli hæstv. forsrh., eða þannig túlka ég hans þögn. Ég vil því taka undir það sem hér hefur komið fram um þá ósk að við fáum svör við þeim áleitnu spurningum sem hér hafa verið fram bornar.
    En varðandi það frv. sem hér er til umræðu vildi ég einnig taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. um að það þarf að athuga það mál sem hér er til umræðu aðeins betur að því er varðar þær tvær greinar sérstaklega þar sem er ósamræmi á milli þess frv. sem hér er rætt og frv. um ferðaþjónustu sem hefur farið í gegnum þessa deild og er 246. mál og er nú til meðferðar í hv. Ed. Ósamræmið kemur bæði fram í 19. gr. í þessu frv. og 21. gr. Þessu vildi ég vekja athygli á, það er ekki einungis um að ræða að því er varðar ferðaskrifstofur, það er einnig að því er varðar lög um veitinga- og gististaði.
    Í 24. gr. í frv. um ferðaþjónustu, eins og það lítur út eftir að það var afgreitt frá Nd., eru ákvæði um það hver leyfi eiga að vera til þess að reka ferðaskrifstofur. En vegna annarra ákvæða í frv. er þessi grein aðeins flóknari þannig að ekki er hægt að taka hana beint upp. Það þarf að aðlaga hana eftir því hvort lögin verða óbreytt eða hvort frv. sem nú er til meðferðar í Ed., frv. til laga um ferðaþjónustu, verður að lögum. Það skiptir töluverðu máli. ( Forseti: Nú vill forseti spyrja hv. þm., þar sem komið er að samþykktum þingflokkatíma, hvort hann vilji fresta ræðu sinni og hefja hana á nýjan leik þegar fundur hefst aftur eða hvort þingmaðurinn treystir sér til að ljúka henni á einni mínútu.) Ég á ekki mikið eftir en varla tekst mér að ljúka því á einni mínútu svo ég vil fresta ræðu minni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég var að benda á það þegar ég þurfti að gera hlé á ræðu minni að það gætti ósamræmis á milli frv. ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að nota langan tíma. Ég var að ræða um 19. gr. í 321. málinu og var nánast búin að gera grein fyrir því hvar ósamræmið væri. Í 19. gr. frv. sem við erum nú að ræða segir að til þess að öðlast leyfi samkvæmt lögum þessum þarf umsækjandi að eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár. En í frv. er talað um að viðkomandi þurfi að vera búsettur á Íslandi og þurfi að hafa verið það í þrjú ár. Það er því ósamræmi á milli þessara tveggja greina. Þetta er miklu einfaldara að öðru leyti eins og það er í frv. sem er 246. mál. Ég óska þess vegna eftir því að hv. fjh. - og viðskn. líti á þetta atriði á milli umræðna ef það er hægt. Annars get ég auðvitað reynt að koma með brtt. Mér þykir bara eðlilegra að nefndin líti á málið.
    Síðan var það 21. gr. frv. Það er heldur flóknara

mál að breyta henni vegna þess að ef frv. til laga um ferðaþjónustu, sem er til umræðu í Ed., verður að lögum þarf ekki að gera miklar breytingar en þar er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á lögum um ferðaskrifstofur, m.a. eru þær kallaðar ferðamiðlun í staðinn fyrir ferðaskrifstofur og síðan er ferðaskrifstofum skipt niður eftir því hvers konar fyrirtæki um er að ræða, þ.e. það er skilgreind ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi, ferðaumboðssali og svo upplýsinga- og bókunarkerfi fyrirtækja sem reka slíka þjónustu. Þess vegna er ekki hægt að taka beint upp 24. gr. þess frv. þar sem talað er um að leyfi til starfsemi á sviði ferðamiðlunar séu eins og þar segir. Það er þá leyfi fyrir ferðaskrifstofur eða leyfi fyrir ferðaskipuleggjendur en það er ekki gert ráð fyrir að leyfin fyrir hin séu með sama hætti. Þess vegna er miklu flóknara að breyta þessu til samræmis ef annað frv. verður að lögum en ekki hitt. Þess vegna vildi ég að hv. fjh. - og viðskn. liti á þetta atriði á milli 2. og 3. umr. til þess að gætt verði samræmis á milli þessara tveggja frv. sem nú eru til meðferðar á þinginu. Reikna ég með að ríkisstjórnin vilji að bæði frv. verði að lögum og vil ég einnig benda á að við í þessari deild erum búin að afgreiða héðan án mótatkvæða, ef ég man rétt, frv. um ferðaþjónustu.
    Þessu vildi ég vekja athygli á, virðulegur forseti, og vona að farið verði að ósk minni varðandi þetta mál.