Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þau viðbrögð sem komu frá hæstv. utanrrh. vegna umræðu sem fór hér fram í gær. Þá lýsti ég viðhorfum til þessa frv. sem er annað mál á dagskrá, þetta er fylgifrv. sem hér er rætt, og gerði athugasemdir við túlkun hæstv. forsrh. á stöðu málsins gagnvart væntanlegum EES - samningum. Ég tel að þær upplýsingar sem hæstv. utanrrh. hefur gefið hér staðfesti þann skilning sem ég hef fengið af skoðun þessara mála og eftir að hafa fylgst með þessum málum um tveggja ára skeið, bæði í utanrmn. og í Evrópustefnunefnd, þ.e. þar sem þessa almennu löggjöf og hugsanlegan EES - samning greinir á, þá eru það EES - reglurnar, lagagrunnur Evrópubandalagsins, sem munu gilda. Um þetta ættu ekki að vera nein tvímæli. Þetta ætti að vera hverjum manni ljóst sem eitthvað hefur kynnt sér þessi mál. Þess vegna er það afar óheppilegt að ekki sé meira sagt að mismunandi túlkanir séu uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um slíkt grundvallaratriði og menn séu að flagga því að þessi löggjöf hér veiti einhverja hlífð gagnvart þeim samningum sem ríkisstjórnin er að vinna að með öðrum EFTA - ríkjum við Evrópubandalagið.
    Þetta er bara blekkingarleikur, stungið hér inn í umræður til þess að --- ég veit ekki hvers vegna. Til þess kannski að skapa Framsfl. einhverja aðra stöðu í þessu máli en fyrir liggur. Er þó ríkisstjórnin undir forsæti Framsfl. og þeir samningar sem hér fara fram eru undir forustu ríkisstjórnar sem Framsfl. leiðir. Það er satt að segja merkilegt ef verið er að gefa þessum afar þýðingarmikla en flókna alþjóðasamningi, sem ríkisstjórnin stendur fyrir, annað inntak og gefa því þeim frumvörpum sem hér eru rædd varðandi fjárfestingu erlendra aðila í atvinnulífi allt aðrar túlkanir en í raun gilda og þær leikreglur sem munu ríkja gagnvart þessu almenna frv. og þeim almennu reglum sem hér er verið að setja annars vegar og hins vegar þeim Evrópubandalagsrétti sem hugmyndin er að lögleiða hér, innri markað Evrópubandalagsins með hinum 1400 samþykktum og þar sem ríkisstjórnin hefur fallið frá undanþágubeiðnunum að mestu leyti og er nú að reyna að verjast með því að byggja einhver ákvæði inn í tiltekna innlenda löggjöf sem ég efast mjög um að standist snúning réttartúlkunum Evrópubandalagsins og þess dómstóls sem verið er að vinna að að koma á fót vegna EES - svæðis og muni þannig falla. En það er ekki málið hér. Málið er það bara að það sé alveg ljós staða þessa frv. og fylgifrv. annars vegar gagnvart því verki, sem að er unnið á vegum íslenskra stjórnvalda, að semja um aðild Íslands að innri markaði Evrópubandalagsins í samfloti við önnur EFTA - ríki og myndun þessa svonefna Evrópska efnahagssvæðis.
    Ég vildi svo, virðulegur forseti, taka undir þau orð sem hafa komið fram hér frá talsmönnum stjórnarandstöðu, þeim ábendingum frá
hv. 1. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. varðandi þetta frv. og þau frv. sem hér eru rædd varðandi rétt útlendinga í atvinnulífi á Íslandi til fjárfestinga að því

er snertir ferðaþjónustu. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á. Við höfum afgreitt hér alveg nýlega úr þingdeildinni frv. til laga um ferðaþjónustu sem liggur fyrir í Ed. þingsins þar sem eru ákvæði varðandi réttarstöðu og heimildir til útlendinga til fjárfestinga mun þrengri heldur en fyrir liggja í þessu frv. Það var ríkisstjórninni auðvitað ljóst þegar þetta mál fór hér inn í þingið. Ég tel að þar geti tvennt verið til lausnar. Nú vitum við ekkert hvað verður um þau frv. sem hér eru rædd. Væntanlega verður frv. til laga um ferðaþjónustu samþykkt sem lög frá þinginu. Það er mál sem hefur fengið hér mjög ítarlega meðferð. Verði þetta frv. að lögum, þá geta menn auðvitað tekið málið upp til samræmingar á næsta þingi og leyst málið með þeim hætti.
    Ég vil hins vegar láta það koma fram hér að viðhorf þeirra aðila í ferðaþjónustu sem rætt var við við undirbúning laga um íslenska ferðaþjónustu voru þau að ganga mun skemmra en fyrir liggur í frv. um ferðaþjónustu varðandi heimildir til útlendinga til reksturs ferðaskrifstofa hér og til þess að koma inn í veitinga - og gistihúsarekstur í landinu. Það voru kröfur um að hafa þetta þrengra í þessum sérlögum um íslenska ferðaþjónustu en er í frv. sem liggur nú fyrir Ed. Það er viðhorf atvinnurekenda í þessari grein að það þurfi að hafa meiri hlífð gagnvart útlöndum en er í frv., að ekki sé talað um þá nánast algeru opnun sem er verið að leggja til samkvæmt þessu frv. Á þetta þurfa menn að líta eftir eðli máls og taka að sjálfsögðu afstöðu til þess. Niðurstaða þeirrar nefndar sem undirbjó frv. til laga um ferðaþjónustu var að taka ekki mið af þessum tillögum. Um það varð sammæli í nefndinni en auðvitað leysir það ekki vandamál. Ef löggjöfinni er breytt almennt og gengið lengra, þá verður auðvitað að tryggja í framhaldinu samræmingu á þessum ákvæðum.