Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá meiri hl. félmn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Grétar Guðmundsson, aðstoðarmann félmrh., Einar Jónsson, Braga Kristjánsson og Percy B. Stefánsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins og Pál Gunnlaugsson, formann Reykjavíkurdeildar Búseta, landssambands húsnæðissamvinnufélaga.
    Mælir meiri hl. nefndarinnar með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Var haft samráð við Húsnæðisstofnun ríkisins um þessar brtt. Þær eru svohljóðandi, hæstv. forseti:
 ,,1. Við 1. gr., j-lið (133. gr.). Greinin orðist svo:
    Stjórn húsnæðissamvinnufélags getur, án samþykkis búsetufélags, veðsett íbúðir fyrir lánum úr Byggingarsjóði verkamanna sem tekin eru til byggingar á þeim.
    Óheimilt er að veðsetja íbúðirnar fyrr en áhvílandi lán úr Byggingarsjóði verkamanna eru orðin lægri en 75% af uppfærðu verði þeirra, sbr. 87. gr.
    Stjórn búsetufélags þarf að samþykkja veðsetningar vegna lána, sem tekin kunna að verða síðar, til endurbóta og viðhalds á fasteignum. Með reglugerð má takmarka þær veðsetningarheimildir.
    2. Við 1. gr., o-lið (138. gr.). Við síðari málslið bætist: samkvæmt reglum um tryggingar sem húsnæðismálastjórn setur, sbr. 2. mgr. 74. gr.
    3. Við 1. gr., p-lið (139. gr.). Í stað orðanna ,,með hliðsjón af 74. gr. þessara laga`` í 2. mgr. komi: sbr. 74. gr.
    4. Við 1. gr., q-lið (140. gr.). 2. mgr. orðist svo:
    Lánshlutfall má nema allt að 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði, þó aldrei hærra en 90% af þeim kostnaðargrundvelli fyrir lánveitingu sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, sbr. 68. gr.
    5. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, með síðari breytingum.``
    Þessar tillögur eru um að ákvæðin verði skýrari varðandi veðsetningu og tryggingar.