Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég er eiginlega furðu lostin yfir því að vera að ræða þessi mál á kvöldfundi þriðja kvöldið í röð þar sem mér hafði skilist að ekki yrði fundur í kvöld. Þetta mun væntanlega tákna að við verðum með fimm kvöldfundi í röð. Jafnvel þótt ég hafi heyrt miklar hreysti- og þreksögur um nætur- og kvöldvökur þingmanna þegar líða fer að þinglokum, þá hafði ég sannast sagna treyst því að hafa tíma til að undirbúa mig m.a. á þessu kvöldi undir þá ágætu umræðu sem hér mun fara fram í þingsölum annað kvöld. Þess meira undrandi varð ég að heyra að samráð hafi verið haft við stjórnarandstöðuna um þessa tilhögun mála. Mér er það öldungis óskiljanlegt hvernig það samráð fór fram. Þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir, og hafi allan tímann gert, að það er í meirihlutavaldi að geta tekið slíkar ákvarðanir, þá hefði ég talið að hér yrði einhvers konar samkomulag eða alla vega tilraunir til að ná samkomulagi. Þegar ég hringdi hingað niður á þing kl. 9 í kvöld til þess að athuga hvort þingflokksformannafundi væri lokið fékk ég þær furðulegu fregnir að hér væri hafinn fundur. ( Forseti: Forseti hlýtur að minna hv. þm. á að hér lá fyrir dagskrá, prentuð dagskrá, í allan dag um að hér yrði fundur, ekki einn fundur í Sþ. heldur tveir. Það gat því ekki vafist fyrir hv. þm. að hér yrði fundur um þetta ákveðna mál.) Vegna þessara orða vil ég sérstaklega minna á það að ég hélt að sá fundur sem haldinn var kl. hálfníu í kvöld með þingflokksformönnum væri haldinn til að ná einhvers konar samkomulagi. Fyrir lá að við vorum ekki fúsar til þessa fundar núna. Ég er hins vegar alls ekki að ásaka hæstv. forseta fyrir hennar hlut í þessu máli, það er fjarri mér, en mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram í upphafi máls míns. Mun ég ekki hafa fleiri orð um það en þetta er óhjákvæmilegt að komi fram.
    Virðulegi forseti. Ég hef þá mál mitt og þá ræðu sem beðið hefur þess alllengi að komast að og þau viðhorf sem ég tel nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu nú.
    Nú loksins liggur fyrir þinginu einhvers konar plagg um áframhald álmálsins. Samkomulag sem út af fyrir sig segir ekki neitt að mínu mati en vekur engu að síður ýmsar spurningar. Það eru greinilega skiptar skoðanir um hvað þetta plagg segir þótt ekki sé það langt. Málið í þessum búningi sýnist mér fyrst og fremst vera plagg sem er byggt á því undarlega mati að ekki sjáist í gegnum það klúður sem álmálið hefur verið frá upphafi. Ekki vegna þess að nú séu erlendir aðilar skyndilega lítt fúsir til þess að semja við okkur vegna Persaflóastríðsins eða annarra ástæðna, heldur vegna þess að álver er ekki og hefur aldrei verið fýsilegur kostur í atvinnumálum hér á landi. Um það höfum við átt ýmsar viðræður, ég og fleiri hv. þm. og ráðherrar. Það er í fyrsta lagi, eins og skýrt og greinilega hefur komið fram í máli annarra hv. þm. í þessari umræðu og öðrum, vegna þess að kostnaður og áhætta við hvert starf er það hár að ekki er hægt að tala um að hér sé hyggilega að farið. Í öðru

lagi vegna þess að arðsemi fyrirtækja sem eru með þessum hætti, stór og með miklu fjármagni, verður sífellt ótryggari. Í þriðja lagi vegna þess að þegar byggt er á einum stórum atvinnuvegi í stað þess að vinna upp margþætt og háþróað atvinnulíf mögnum við áhættuna í atvinnumálum þjóðarinnar, sem er þó ærin fyrir. Þensla er eitt helsta vandamál íslensks efnahagslífs. Ætli nokkrum blandist hugur um það. Ýmislegt er þó ótalið sem ég ætla ekki að fjölyrða um hér, alla vega ekki að þessu sinni. En í fjórða lagi verð ég að sjálfsögðu að hnykkja á því að umhverfi og náttúra Íslands eru viðkvæm fyrir öllu hnjaski. Við getum ekki, eigum ekki og megum ekki taka áhættu í þeim efnum. Við eigum á hættu að spilla umhverfinu, ímynd okkar, öðrum atvinnugreinum, mikilvægum atvinnugreinum, svo sem matvælaiðnaði og ferðaþjónustu, ef blettur fellur á umhverfi okkar og það orðspor að hér á landi sé allt hreint og ómengað. Því miður vantar þessi atriði öll í þau hagvaxtardæmi sem fyrir liggja og einnig það hvernig dæmið mundi líta út með öðrum atvinnutækifærum og annarri uppbyggingu en álveri. Ef brot af því fé sem hefur farið í álið fengist í slíkt held ég að við horfðum á allt annars konar samfélag en við gerum nú og allt annað hagvaxtardæmi. Auðvitað velta ýmsir þessu fyrir sér. Hins vegar hefur fólk verið sett í þá stöðu að það kann að vera erfitt að neita álveri ef ekkert annað virðist vera í boði. Það er einmitt mergurinn málsins, að upp á fátt annað hefur verið boðið í atvinnumálum þessarar þjóðar. Það hefur verið blínt allt of mikið á stórar lausnir og allt of illa hlúð að öðrum atriðum sem þó hafa þegar sýnt sig að lofa góðu.
    Ég vil minna á þær umræður sem urðu á fimmtudagsmorguninn var vegna fyrirspurnar minnar um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum í kjölfar brottfarar hersins. Ekki var hughreystandi að hlusta á þann söng sem þar kvað við. Það var eins og menn sæju engin úrræði önnur en ál eða stál, þ.e. her gráan fyrir járnum. Hvílíkt hugmyndaleysi. Ég vil minna á það sem ég sagði um álver í upphafi þessa þings, að það er það lamandi afl sem ekki má koma fyrir íslenska þjóð. Væntingar í sambandi við álver eru líka lamandi afl. Það hefur einmitt sýnt sig á íslensku atvinnulífi, við þurfum ekki annað en að líta á þær byggðir sem ekki fengu álver og þær umræður sem hafa fylgt í kjölfarið. Ég ætla ekki að fara að rekja þær hér í smáatriðum, en ég hygg að flestum sé kunnugt um hvað ég á við. Ef ekki er ég fús til að rekja það nánar. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að tefja þessa umræðu á því.
    Það er sannarlega ekki að ástæðulausu að hæstv. fjmrh. vill borga einhvers konar skaðabætur, eða hvað á að kalla það, fyrir hugsanlegan álversmissi með 2 milljarða kr. framlagi, sem ég ætla ekki að vera svo ósvífin að kalla innstæðulausan kosningavíxil, þó ég hafi heyrt það nefnt svo.
    Ég ítreka orð mín um það á hvern hátt ég vildi frekar sjá atvinnumálum borgið á Suðurnesjum en með því að reisa álver. Kannski upp á hvað sem það kostar vegna þess að nú sé málið komið of langt til

þess að hægt sé að snúa til baka, jafnvel þótt dæmið verði neikvætt frá upphafi framkvæmda. Þótt milljónatugum hafi verið sóað í undirbúning nú þegar gæti orðið dýrara að halda áfram en að hætta við. Því er tími til kominn að skoða raunhæfar leiðir til þess að bæta þann skaða sem atvinnulíf hefur orðið fyrir, ekki bara á Austurlandi og Norðurlandi, þar sem álversdraumur er úti að sinni alla vega þótt maður hafi heyrt hugmyndir um þriðja álverið, heldur einnig á Suðurnesjum.
    Ég þarf varla að vekja athygli á því enn einu sinni að atvinnuleysi er alvarlegt vandamál víða á Suðurnesjum og ætla ég að hlífa mönnum sem á mál mitt hlýða við því að fara að kyngreina það, enda kallar það á ýmsar umræður.
    Suðurnesjamenn kvarta oft undan því að þeir verði út undan í atvinnumálum vegna þess að þeim sé einatt vísað upp á völl ef syrtir í álinn. Nú er það varla hægt, þótt einhvern skugga beri á álið, eða er það kannski draumur einhverra? Það var helst að heyra sl. fimmtudagsmorgun, en því verður auðvitað hver að svara fyrir sig. Þetta er klén atvinnustefna. Hún ber ekki vott um stórhug, hún ber ekki vott um hugkvæmni.
    Eins og ég gat um á fimmtudaginn bendir sem betur fer ýmislegt til þess, þrátt fyrir skoðanir þeirra sem þá tóku til máls, að hernaðarumsvif á Reykjanesi minnki og atvinna Íslendinga hjá hernum í kjölfarið. Þar er um 1000 -- 2000 störf að ræða hið minnsta. Út af fyrir sig held ég að flestir fagni þessari þróun. En upp á hvað er Suðurnesjamönnum boðið? Er þeim boðið upp á endurreisn á hinni hefðbundnu atvinnugrein, fiskvinnslunni, frumvinnslu og fullvinnslu sjávarafurða, atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi ef vel er á málum haldið? Matvælaframleiðslu sem byggist á ómenguðu umhverfi og vandaðri vöru. Við höfum rætt það áður undir öðrum málaflokkum hversu æskilegt væri að hlúa að þessu þrátt fyrir vandkvæði í sambandi við samninga við önnur lönd. Ég vil einnig spyrja: Er Suðurnesjamönnum boðið upp á nýsköpun svo sem ferðaþjónustu, hefðbundna og óhefðbundna, t.d. uppbyggingu öflugrar heilsuþjónustu við Bláa lónið? Sumir fylgismanna núv. hæstv. stjórnar hafa sem betur fer haft framsýni til þess að horfa á þennan mikla og góða kost. Er Suðurnesjamönnum boðið upp á nýsköpun eins og upplýsingavinnslu, sem að margra mati er atvinnugrein framtíðarinnar? Atvinnugrein sem byggir á menntun og hugviti sem Íslendingar ættu að eiga nóg af, ef þeir halda vel á spöðunum a.m.k., og skapar vel launuð störf í góðu umhverfi. Er verið að búa í haginn fyrir vetnisframleiðslu framtíðarinnar? Það er lífvænleg atvinnugrein. Önnur nýting orku landsins er til heldur en að nota raforkuna til þess að reisa álver. En það er blínt á álver, stóriðju sem sífellt fleiri hafna, ótrygga nýtingu orkunnar okkar og dýr atvinnutækifæri. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að það eru margir á Suðurnesjum sem búa yfir góðum hugmyndum og eiga óskir um fjölbreytta atvinnu. En er það það sem er hlúð að? Er hlustað á frumkvæði fólks og ferskar hugmyndir? Ég hef heyrt

þær raddir að lítið sé um slíkt, ég vona að þær séu ekki réttar.
    Þó ég geri Suðurnesjamenn hér að umtalsefni, vegna þess að þar blasir nákvæmlega sú staða við sem ég get hér um, má auðvitað heimfæra það sem ég segi upp á hvaða svæði landsins sem er. En það er eitthvað annað en að menn taki tillit til slíkra hugmynda sem ég hef hér nefnt. Álver er það eina sem mönnum hugkvæmist að ota að íbúum Reykjaness og þar með er greinilega verið að festa svæðið í sessi sem iðnaðarsvæði með mengun og einhæfri atvinnu. Ekki samrýmist það vel uppbyggingu í ferðaþjónustu.
    Eftir undarlegt karp sem varð um staðarval þorðu fáir annað en að láta eins og þeir hefðu himin höndum tekið. Sagan um nýju fötin keisarans er greinilega í fullu gildi. Er nema von að Suðurnesjabúar óttist að hér eftir verði jafnvel enn erfiðara en fyrr að fá fyrirgreiðslu til raunverulegrar nýsköpunar í atvinnulífinu, að ég tali nú ekki um ef að á að reyna að endurheimta eitthvað af þeim mikla kvóta sem hefur farið frá þessu svæði sem er ákjósanlegt fyrir fiskveiðar og fiskvinnslu? Nú, þegar draumar um stóriðju eru óljósari en fyrr, er rokið upp til handa og fóta með hugmyndir sem fyrir örfáum vikum voru hvergi á blaði. --- Nú sakna ég raunar hæstv. fjmrh. í umræðunni en ég mun ekki gera kröfu að svo stöddu um að hann sé hér að hlýða á mál mitt þar sem ég geri mér grein fyrir að ég tala á frekar óvenjulegum tíma, en það gæti komið til þess síðar í þessari umræðu að æskilegt væri að fá að heyra hans viðhorf til þessa máls.
    Þær hugmyndir sem hæstv. fjmrh. hefur haft hér tel ég ekki vera trúverðugar, því miður ekki. Það er ekki hægt að plástra eitthvað með skyndiplástrum sem er ekki einu sinni búið að hanna, hvað þá að framleiða. Því hvað eru skyndireddingar í atvinnumálum annað, jafnvel þótt þær séu settar fram af góðum huga, ekki efa ég það.
    Ég mun nú aðeins stikla á stóru þótt ég vildi ýmislegt sagt hafa. Hér er um stórt mál að ræða, hvort sem vægi þess, í þeim búningi sem hér er, er slíkt sem þeir segja sem telja þetta vera málleysu, eða hvort það er eins og hinir telja sem trúa á það. Alla vega held ég að engum blandist hugur um það að stóriðja og framtíð hennar á Íslandi, sem vonandi verður sem minnst, er stórmál. Það er stefnumarkandi fyrir alla okkar framtíð.
    Ég held að vandræðagangurinn í þessu máli hafi hafist um leið og menn töpuðu raunsærri sýn í atvinnumálum og hættu að sjá annað en stóriðju. Ég hef sennilega verið á unglingsárum þegar ég heyrði fyrst þessa draugs getið. Ég hef alltaf tengt álver við ofuráherslu þá sem lögð hefur verið á uppbyggingu þungaiðnaðar á svæðum sem nú þykja fjárhagslega og efnahagslega mjög vanþróuð. Ég ætla ekki að tiltaka það neitt nánar hér þótt full ástæða væri til að ræða efnahagsþróun í Austur-Evrópu, Sovétríkjunum, bæði Evrópu- og Asíuhluta, og Kína, en ég held að þessi hugrenningatengsl mín séu nokkuð sem fleiri en ég reka augun í.
    Enn eru menn við sama heygarðshornið hér. Munurinn er sá að nú virðast menn jafnvel vera fúsir til að teygja sig enn lengra en áður til þess að hreppa það sem alltaf hefur verið umdeilanlegur happadráttur og spila jafnvel upp á öruggt núll ef ekki býðst annað.
    Þó mér hafi ekki þótt umræðan sl. fimmtudag um atvinnumál á Suðurnesjum neitt sérlega gefandi þá langar mig til að rifja upp eilítið sem ég veitti sérstaklega athygli að nefnt var þar. Ég held nefnilega að undir niðri skynji menn það býsna vel hve varhugaverð og einsýn sú atvinnustefna er sem ekki sér nema eitt í einu, hvort sem það er her gærdagsins, ál morgundagsins eða eitthvað annað.
    Eins og ég gat um áðan benti Níels Árni Lund réttilega á margvíslega möguleika Bláa lónsins og þá þróun sem þegar er orðin á Suðurnesjum í uppbyggingu ferðaþjónustu. Ég vil einnig minna á hugmyndir Útflutningsráðs um að tengja betur en nú er gert ferðaþjónustu og uppbyggingu heilsuræktar. Það er í takt við þá ímynd sem við höfum verið að reyna að skapa okkur. Ég held að hver sá sem hefur komið nálægt fjölmiðlun og auglýsingum viti hversu dýrmæt ímynd er og hversu vandmeðfarin hún er.
    Einnig vil ég minnast á að tímabundin þensla vegna uppbyggingar álvers gæti, ef illa færi, orðið slæmt högg á þann vaxandi atvinnuveg sem ferðaþjónusta er því þensla og sveiflukennd atvinna og samkeppni um vinnuafl er alls ekki það veganesti sem best er fyrir vaxandi atvinnugrein og viðkvæma eins og ferðaþjónustan er enn, síst um háannatíma bæði í framkvæmdum verktaka og í ferðaþjónustu, þ.e. um sumartímann. Við þekkjum því miður dæmi um lamandi áhrif í kjölfar ofþenslu sem fylgir stórframkvæmdum t.d. á Suðurlandi þar sem gleggst eru merkin. Þar eru heilu byggðirnar nú fyrst að ná sér eftir lægðina sem fylgdi á eftir stórvirkjunum þar. Ég er raunar fyrrverandi félagi í verkalýðsfélaginu Rangæingi og mér er þetta mál nokkuð hugstætt af þeim ástæðum og fleirum raunar. Ég hef fylgst óþægilega vel með þróun mála á Suðurlandi eftir virkjanaþensluna. Ég hef séð ungt fólk með miklar vonir á Suðurlandi vera reiðubúið í stundarbjartsýni til að festa mikið fé í fasteignum þar og ég hef jafnframt séð þá erfiðleika sem hafa fylgt. Slíkt vildi ég ekki óska að dyndi yfir nokkurt atvinnusvæði, hvorki á Fljótsdal né á Suðurnesjum. Ég ætla ekki að gera Blöndusvæðið sérstaklega að umtalsefni en ég held að flestum sé kunnugt um að þar hafa þegar orðið vandamál, jafnvel áður en til framkvæmda kom, þar sem menn voru búnir að kaupa sér kannski vörubíl á annað hvert hús vegna þess að þeir bjuggust við þenslu. Allt eru þetta nú þegar þekktar stærðir. Hvers vegna eru menn nú að kalla á að atvinnumissir verði bættur með einhvers konar atvinnuhugmyndum út af brostnum vonum? Hvernig getur þá ástandið orðið í kjölfar raunverulegrar þenslu eins og mér sýnist að verið sé að boða með einum eða öðrum hætti?
    Ég verð að viðurkenna að ég fann ekki lausnina á því máli þó ég vildi gæta allrar sanngirni þegar ég leitaði í skýrslu hæstv. iðnrh. um álver á Keilisnesi á

þskj. 842. Mig langar þó til að spyrja nokkurra spurninga vegna þess kafla sem er merktur 12 og er á bls. 24, Hagstjórn á framkvæmdatíma, en þar er einmitt fjallað um þessi mál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sérfræðinganefnd iðnrn. um þjóðhagsleg áhrif stóriðju hefur kannað hvernig almennri hagstjórn verður best beitt til að koma í veg fyrir að jafnvægi í efnahagsmálum hér á landi raskist á meðan framkvæmdir við Atlantsálverið og nauðsynlegar virkjanir standa yfir. Nefndin hefur sent frá sér greinargerð um álver og hagstjórn, dags. 9. nóv. 1990.``
    Hér er þegar tekið undir að um verulega röskun verði að ræða og vitum við það raunar öll. En ég held áfram tilvitnun minni:
    ,,Í greinargerðinni er bent á að í hagkerfinu er umtalsverð vannýtt framleiðslugeta vegna lítils hagvaxtar á undanförnum árum og óhagkvæmni í hefðbundnum atvinnugreinum og að öðru óbreyttu séu dræmar horfur á hagvexti næstu árin. Framkvæmdir við nýtt álver og orkuöflun vegna þess séu hins vegar svo umfangsmiklar að hætta sé á að þensla skapist. Greinargerðin fjallar um hugsanlegar ráðstafanir sem stjórnvöld geta gripið til í því skyni að stemma stigu við þessari hættu.
    Nefndin leggur áherslu á almennar aðgerðir til að hindra þenslu en bendir jafnframt á sértækar aðgerðir. Eftirtaldar aðgerðir telur nefndin að komi helst til greina,`` og vek ég athygli á að hér er aðeins komið með hugmyndir. Þá er fyrst að taka til almennra aðgerða:
    ,,Afgangur verði í rekstri ríkissjóðs og ákvörðun verði tekin um að fresta einhverjum opinberum framkvæmdum. Frestun þarf ekki nauðsynlega að þýða að verklokum slíkra framkvæmda verði seinkað, því hraða má framkvæmdum að fresti loknum. Sem kunnugt er hafa slíkar framkvæmdir oft tekið lengri tíma en nauðsyn krefur.``
    Ég vek athygli á að um þetta atriði fjallaði hv. 6. þm. Norðurl. e. nokkuð í ræðu sinni og m.a. um það að á ákveðnum landsvæðum gæti orðið samdráttur þar sem á öðrum landsvæðum yrði þensla. Þá yrði ekki bara um einfalt vandamál að ræða heldur tvöfalt. Og ég hlýt að spyrja: Hvað þýðir þetta í raun? Á að geyma atvinnulíf í salti á meðan framkvæmdir eru á einum stað? Ég veit að það er ekki nokkur maður sem trúir því að slíkt sé hægt. Ég tek þá næsta punkt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Orkuframkvæmdir verði að hluta fjármagnaðar innan lands með sölu Landsvirkjunar á skuldabréfum eða hlutabréfum.``
    Ég held að flestir sem hafa fylgst með innlendri fjármögnun og því framboði sem þar er viti að hér er verið að róa á býsna þéttsetin mið. Og ég man raunar ekki betur en að við hæstv. iðnrh. hefðum rætt þetta mál á Akureyri, á meðan Akureyri var enn inni í umræðunni fyrir hart nær tveimur árum. Vonast ég til að hann muni eftir fyrirspurn minni á þeim fundi sem þar var þegar ég krafði hann svara um að hve miklu leyti væri raunhæft að gera ráð fyrir innlendri

fjármögnun. Ég man ekki betur en að í svari hans hafi komið fram að hér væri um sáralitla upphæð að ræða, sáralága prósentu. En ég býst við því ef hér er eitthvað í þessum punkti sem mér er dulið að ég muni þá fá svör við þessu máli. Kem ég þá að þriðja punkti almennra aðgerða:
    ,,Framfylgt verði markvissri stjórn peningamála og ríkisfjármála til að tryggja stöðugt gengi krónunnar.``
    Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við þessum punkti. Við höfum heyrt þessi fyrirheit og þessa stefnumörkun í margs konar búningi af margs konar tilefni og ég er ekki viss um að þenslutímabil sé einmitt rétti tíminn til að setja fram slíkar vonir og drauma. En hér vænti ég að sjálfsögðu svara eins og við öðrum þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram með beinum eða óbeinum hætti.
    ,,Aukin verði fjárfesting Íslendinga erlendis og hraðað greiðslum af erlendum lánum.``
    Ég held að það geti verið vegna þess að nú er orðið áliðið að þetta vefst fyrir mér sem lausn í nákvæmlega þessu máli. En það getur líka verið að þetta vefjist fyrir fleirum, jafnvel á öðum tímum dagsins. Ég tek þá til við fimmta punkt í almennum aðgerðum:
    ,,Miðlun upplýsinga til atvinnurekenda, launþega og stjórnmálamanna um breytingar í efnahagslífinu verði markviss.``
    Þakka skyldi. Ég held að þetta sé nokkuð sem þyrfti alltaf að vera til staðar og ekki bundið við álversframkvæmdir. Ég held að þessi punktur eigi einfaldlega ekki heima á þessum stað. Þetta eru að vísu almennar aðgerðir sem bent er á að gerðar verði en þessar almennu aðgerðir mega hreint ekki vera bundnar við slíkt þenslutímabil sem þarna er verið að ræða um og kemur fram fyrr í kaflanum svo sem ég gat um áðan.
    ,,Tímabundinn innflutningur verði á vinnuafli á vissum sviðum.``
    Hér langar mig til að fá frekari upplýsingar. Hvað er verið að tala um langan tíma? Hvaðan á að sækja þetta vinnuafl? Hvað á þetta vinnuafl að fást við? Hver eru þessi vissu svið? Á að skáka fólki til og frá? Ég veit að þetta er vandamál sem margir hafa miklar áhyggjur af í sambandi við evrópska efnahagssvæðið, ég tala nú ekki um innri markaðinn sem mun án efa lúta öllum lögmálum Evrópubandalagsins og einkum þeim sem áður hafa verið kunn og ég veit um kvíða mjög margra einmitt vegna þessa frjálsa flæðis vinnuafls. En ég held að hér sé óhjákvæmilegt að fá frekari skýringar á því hversu tímabundinn þessi innflutningur verði, hvaðan eigi að sækja vinnuaflið, í hve stórum stíl og á hvaða sviðum. Eru þessar aðgerðir yfir höfuð í okkar valdi og eru þær æskilegar? Er það svona sem við viljum vinna að málum? Ég kem að lokapunktinum í almennum aðgerðum:
    ,,Hagræðing verði í hefðbundnum atvinnugreinum.``
    Ég segi um þetta eins og um miðlun upplýsinga í punktinum á undan: Er þetta ekki æskilegt markmið? Þarf álver til þess að menn finni þessi einföldu sannindi? Á að hætta hagræðingu þegar þenslutímabili er

lokið? Það mætti lesa það, miðað við þær forsendur sem gefnar eru. En ég hlýt að benda á það að ef hagræðing þýðir samdrátt og niðurskurð þá verður að hugsa um framhaldið. Ég er ekki að hártoga hér heldur benda á að hér er eitthvert misræmi sem þarf að fá skýringu á.
    Það er ekki lengi gert að líta á hinar sértæku leiðir sem lagðar eru til hér. ,,Samningar verði gerðir við Bandaríkjastjórn um frestun framkvæmda vegna varnarliðsins á árunum 1992 og 1993.`` Nú veit ég ekki hvenær þessi hugmynd hefur komið upp en er virkilega verið að gera ráð fyrir því að skrúfað verði frá hernum aftur eða þeim framkvæmdum sem eru á vegum hans? Ég verð að segja að í ljósi þeirra umræðna sem ég hef vitnað til sl. fimmtudag, þá finnst mér skjóta hér ansi skökku við.
    Virðulegi forseti, ég kunni ekki við að hrópa á eftir hæstv. iðnrh. en ég á erindi við hann í þessu máli mínu. Það er aðeins einn punktur eftir sem heyrir undir sértækar leiðir. Ég veit ekki hvort ég á þá að snúa mér að öðrum köflum ræðu minnar á meðan hann er fjarri. ( HG: En umhvrh., hvar er hann?) Ég hef ekki gert kröfu um að hafa hann hér þar sem ég geri ráð fyrir möguleika á að eiga orðastað við fleiri hæstv. ráðherra síðar. En mér þykir ansi snautlegt ef sá eini ráðherra sem ég hef séð hér á svæðinu treystir sér ekki til að hlusta á eins og einn punkt í viðbót auk annars sem ég á eftir að fara út í. Ég mun að sjálfsögðu líta á hvort það eru einhverjir þættir ræðu minnar hér sem ekki krefjast nærveru hæstv. ráðherra. Ég hafði sannast sagna ekki átt von á því að tala hér undir þessum kringumstæðum sem hér eru og ég vonast til að geta þá bætt mér þennan skaða að einhverju leyti. ( Forseti: Ef hv. þm. gæti hagað ræðu sinni þannig að nú um sinn yrði flutt mál sem ekki tengist hæstv. iðnrh. held ég að það hentaði ágætlega en mun hann koma mjög fljótlega aftur. Eða vill hv. þm. að ég geri ráðstafanir til að hæstv. iðnrh. komi nú þegar?) Mig langar til að fá að vita með tímasetningu. Ég er hér með kafla sem krefst kannski ekki sérstaklega nærveru hæstv. ráðherra, en hann er ekki langur, þannig að ég geri þá ráð fyrir að fá að taka þennan eina punkt sem eftir er og þær spurningar sem honum tengjast eftir að hæstv. ráðherra er kominn aftur.
    Ég held þá máli mínu áfram um sinn. Hér á landi er nú staddur, eða var alla vega í gær þegar ég hugðist flytja ræðu mína, maður sem er þekktur sem einn af frumkvöðlum hreyfingar sem kennir sig við hugmyndina ,,Smátt er fagurt`` og ég sá raunar í fjölmiðlum að hann er talinn upphafsmaður þeirrar hugmyndar. En þar sem ég sé að hæstv. iðnrh. er nú kominn inn ætla ég að geyma mér örlítið að fjalla um það mál en víkja að hinum seinasta punkti sértækra leiða sem þarna krefjast svara. Þar stendur: ,,Tímabundinn skattur verði lagður á aðrar fjárfestingar til að takmarka þær.``
    Mér finnst full ástæða til þess að fá að vita hvaða aðrar fjárfestingar hér er verið að ræða um, hvort markmiðið er einungis að takmarka fjárfestingar svo álver muni geta risið eða hvort hér er um einhverja

heildstæða efnahagsstefnu að ræða af einhverju tagi og þá hver hún er. Þessi punktur er ekki með miklum skýringum. En svo ég gæti alls réttlætis vil ég gjarnan ljúka því litla sem í viðbót stendur í þessum kafla svo það komi einnig fram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í bréfi nefndarinnar segir meðal annars:
    ,,Nefndin telur brýnt að afgangur verði í rekstri ríkissjóðs jafnframt sem miðlun upplýsinga um skammæjar breytingar í efnahagslífinu verði markviss. Að öðru leyti tekur nefndin hvorki afstöðu til þess til hverra af þessum aðgerðum heppilegast sé að grípa, né í hvaða mæli.`` --- Hér er allt opið.
    ,,Að lokum vill nefndin undirstrika að greinargerðin fjallar eingöngu um það hvernig unnt sé að bregðast við ákveðinni þensluhættu sem óhjákvæmilega fylgir stórframkvæmdum sem þessum. Að mati nefndarinnar er hagurinn af framkvæmdunum þeirrar áhættu virði. Stjórnvöld geta með styrkri hagstjórn haldið þenslu innan þeirra marka sem þau kjósa.````
    Mér finnst vanta rökstuðning fyrir því mati nefndarinnar að hagur af framkvæmdum sé þeirrar áhættu virði sem getur skapast af þenslu.
Og hvað varðar styrka hagstjórn stjórnvalda og það, sem fyrr kemur hér fram, um að afgangur eigi að vera í rekstri ríkissjóðs þá hlýt ég í ljósi sögunnar og í ljósi nútíðarinnar að setja mjög mörg spurningarmerki við hversu raunsætt mat sé hér um að ræða. En svo ég halli nú ekki á nokkurn og leyfi öllum sjónarmiðum að koma fram þá mun ég taka síðustu málsgrein þessa kafla með, 12. kafla í skýrslu hæstv. iðnrh.:
    ,,Ástæða er til að benda á að aðstæður nú eru óvenju hagstæðar til framkvæmda af þessu tagi. Samdráttur er í hefðbundnum atvinnugreinum og mikil lægð hjá verktökum bæði hér á landi og erlendis. Hætta á þenslu er því minni við núverandi aðstæður jafnframt því sem gera má ráð fyrir hagstæðum tilboðum í allar framkvæmdir.``
    Þótt þessi greinargerð sé ekki mjög gömul, eða a.m.k. ekki mjög langt síðan hún var send frá nefndinni sem hana samdi, þ.e. 9. nóv. 1990, held ég að flestir geri sér ljóst að mikil umskipti og mikil uppstokkun af mjög margslungnu tagi hefur orðið síðan þetta var. Hafi verið erfitt, sem ég tel að hafi verið, að spá nokkru í nóvember á síðasta ári eða fyrr, þá held ég að það sé enn óljósara nú hvað fram undan er og hvað hefur raskast í alþjóðlegum stjórnmálum, í alþjóðlegri hagstjórn, og þá er ég ekki bara að tala um bein og óbein áhrif Persaflóastríðsins heldur sitthvað fleira.
    Ég vil taka það skýrt fram að það er af góðum hug einum að ég tek atvinnumál fyrir með þessum hætti. ,,Eigi veldur sá er varir``, er sagt og það eru alltaf til önnur og betri úrræði því það er ábyrgðarleysi að gagnrýna öðruvísi en að benda á aðrar leiðir. Ég þykist hafa gert það í allítarlegu máli hér, ekki bara í nótt heldur æði oft áður. Mér þykir raunar hreint undarlegt að þurfa svo að hlusta á þann söng að við kvennalistakonur bendum ekki á úrræði.
    En mig langar til þess, e.t.v. vegna þess að það

virðist vera auðveldara að fá menn til að hlusta ef einhverjir útlendingar hafa sagt það sama og maður gerir sjálfur, að halda áfram þar sem frá var horfið í sambandi við þann mann sem var staddur hér á landi og var raunar í gærkvöldi með býsna fróðlegan fund, mann sem heitir John Pathworth. Hann er titlaður enskur stjórnmálahugsuður, umhverfismálafrömuður, heimspekingur og prestur í biskupakirkjunni og hann er jafnframt einn af frumkvöðlum hreyfingarinnar sem kennir sig við hugmyndina ,,smátt er fagurt``.
    Allt bendir til þess að hugmyndir í þeim anda sem sú hreyfing boðar eigi framtíðina fyrir sér miklu frekar heldur en gömul stóriðju- og þungaiðnaðarhugmynd því þetta tel ég vera af sama meiði. Því held ég að hagvöxtur framtíðarinnar muni taka mið af allt öðrum leiðum í efnahagsmálum, í atvinnumálum þar sem meira tillit er tekið til náttúrunnar, umhverfis og þess hve hagvöxtur, sá sem nú er talinn hagvöxtur, hagvöxtur sóunarinnar kostar. Ég er sannfærð um að hagvaxtarútreikningar framtíðarinnar muni ekki verða eins ágengir við náttúruauðlindirnar og atvinnuna, því atvinna er jú samspil ýmissa þátta, og núverandi hagvaxtartrú.
    Ég veit að atvinnustefna sem byggir á fjölbreytni og sveigjanleika er sú atvinnustefna sem við eigum að stefna að. Ég verð að viðurkenna það að ég hefði gjarnan viljað eyða gærkvöldinu í að hlusta á líflegar umræður um þessi mál frekar en að þurfa að standa í þeirri umræðu sem hér var, en ég tel nauðsynlegt að hlusta á og fylgjast með öllu því sem sagt er um atvinnumál eftir því sem ég hef nokkur tök á. Það vill svo til að það er ekki verið að ræða þessar frjóu og fersku hugmyndir hér á Alþingi heldur hvort það eigi að halda áfram að reyna að fá álver til Íslands, enn eitt álverið og kannski fleiri því ég veit að ýmsir eiga sér drauma um slíkt. Því miður voru það aðrir en við sem hér sátum í gær sem nutu þess að fara út í þessar frjóu og fersku umræður sem ég vona að hafi orðið. Sem betur fer trúi ég að meðal þeirra hafi verið einhver flokkssystkin hæstv. iðnrh. úr Birtingu og ég vona að áhrif þeirra muni vera einhver á hann.
    Ég mun að þessu sinni ekki hafa hér lengra mál en ég geri ráð fyrir því að þau svör sem ég kallaði eftir muni koma. Það má vera að ég hafi, vegna þess að ég reyndi að stytta mál mitt, ekki spurt eins ítarlega og nákvæmlega og ég hefði kosið að gera. Ég mun að sjálfsögðu bæta úr því síðar í þessari umræðu sé það ljóður á mínu ráði.