Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það var svo um talað í sambandi við þá umræðu sem hér fer fram og á eftir að standa lengi enn að reiknað væri með því að ráðherrar úr ríkisstjórninni væru viðstaddir hana aðrir en hæstv. iðnrh. Ég sé ekki aðra ráðherra hér viðstadda en ég átti von á því að staðið yrði við það að ráðherrar úr ríkisstjórninni sæju sóma sinn í að vera við umræðu um þetta mikilvæga mál sem snertir þeirra ráðuneyti öll í rauninni. Einn er sá ráðherra sem voru uppi ákveðnir svardagar um að yrði hér viðræðuna alla og hefur verið beint til fjölda spurninga og sést hér ekki, það er hæstv. umhvrh. Ég hef nefnt það við virðulegan forseta hvað valdi því að hæstv. ráðherra er ekki hér í þinghúsinu, er ekki viðstaddur. Ég vil inna virðulegan forseta eftir því hvort ekki er hægt að fá hæstv. umhvrh. hingað til fundar hið fyrsta, því að ég held að það mundi greiða fyrir gangi mála ef hann væri hér til að veita svör við þeim fjölmörgu spurningum sem upp hafa verið bornar m.a. af minni hálfu við hann, ef virðulegur forseti gæti brugðist við því eða hefði fréttir að segja af hæstv. ráðherra. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að reyna að ná tali af hæstv. umhvrh. en þannig háttar til á hans heimili að það er símsvari sem svarar þegar hringt er. En ef hv. þm. gerir kröfu um að hæstv. umhvrh. sé hér er hægt að gera ráðstafanir til að sækja hann á bíl.) Virðulegur forseti, það er út af fyrir sig ekki mitt að ákvarða um það hverjum hentar að vera við þessa umræðu sem slíkir en hitt er jafnljóst að það er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram ef þeir ráðherrar sem hafa fallist á að vera viðstaddir þessa umræðu alla eru fjarri. Ég sé ekki hæstv. forsrh. hér heldur. Ég er út af fyrir sig ekki með kröfu um það nú að hann verði kallaður til en það kann að verða síðar á fundinum, en það er a.m.k. lágmark að sá ráðherra sem hefur verið þátttakandi í þessu og er beinn aðili að því máli sem hér er rætt sé viðstaddur allan fundinn og skorist ekki undan því ef svo er að hann ekki kemur hingað fljótlega til þings er auðvitað útilokað að halda þessari umræðu hér áfram. Gjörsamlega útilokað. Ég vil endurtaka það, virðulegur forseti, af því að aðalforseti er kominn hér, að ég var að bera fram ósk um það að hæstv. umhvrh. væri hér viðstaddur þingfundinn eins og rætt hafði verið og raunar að fleiri ráðherrar yrðu hér viðstaddir en ég sakna sérstaklega hæstv. umhvrh. vegna þess að ég hafði beint til hans fjölmörgum spurningum í mínu máli sem ég skildi svo að ráðherrann væri fús til að svara. Ég ítreka þá ósk mína að hæstv. ráðherra verði kvaddur til þingfundar hið fyrsta ellegar verði þessum fundi frestað.