Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Góðir hlustendur. Um síðustu helgi fylgdist þjóðin með landsfundi Sjálfstfl. Landsfundurinn er langfjölmennasti stefnumótunarfundur sem stjórnmálaflokkur hefur haldið hér á landi. Helsta málgagn ríkisstjórnarinnar gekk meira að segja svo langt að kalla fundinn þjóðfund, svo mikið þótti blaðinu til hans koma.
    Og vissulega er það rétt að á þessum fjölmenna fundi mátti finna það mikla afl sem býr í Sjálfstfl. þegar fulltrúar dreifbýlis og þéttbýlis og allra atvinnugreina til lands og sjávar taka höndum saman undir merkjum sjálfstæðisstefnunnar. Á landsfundinum sýndi Sjálfstfl. hvernig hann velur menn og mótar stefnu á lýðræðislegan hátt.
    Slíkt er ekki alltaf auðvelt, en þegar niðurstaðan liggur fyrir standa menn saman um hana. Það er einmitt þessi samstaða, þessi mikli einhugur, sem gerir Sjálfstfl. sterkan og sigurstranglegan í komandi kosningum.
    Í stjórnmálaályktun landsfundarins er lögð sérstök áhersla á að fjármál ríkisins verði tekin nýjum tökum. Horfið verði frá skattahækkunarstefnu núverandi ríkisstjórnar og þenslan stöðvuð. Í framhaldi af því verði skattar lækkaðir. Leitað verði leiða til einkavæðingar í ríkisrekstri, m.a. með útboðum og sölu ríkisfyrirtækja. Sjálfstfl. leggur enn sem fyrr áherslu á að öflugt atvinnulíf er grundvöllur þeirrar verðmætasköpunar sem öll önnur þjóðfélagsstarfsemi hvílir á. Þess vegna þurfa atvinnufyrirtækin að geta af eigin rammleik byggt sig upp og staðist erlenda samkeppni. Sjálfstfl. hefur haft forustu um það að frumkvæði og framtak einstaklinga njóti sín í atvinnulífinu, m.a. með lagabreytingum sem ýtt hafa undir þátttöku almennings í atvinnustarfseminni, og hvatt fólk til að fjárfesta í hlutabréfum. Sjálfstfl. telur að byggðaþróun þurfi að vera sem jöfnust og vill efla vaxtarsvæði á landsbyggðinni. Með vaxtarsvæðum er átt við þéttbýlissvæði og sveitir sem tengjast með daglegum öruggum samgöngum og mynda samfellt atvinnu- og þjónustusvæði. Til þess að svo geti orðið þarf að efla sveitarfélögin og gera þau fjárhagslega sjálfstæðari en nú er.
    Að undanförnu hafa Íslendingar tekið þátt í viðræðum við Evrópubandalagið með öðrum EFTA - þjóðum um svokallað evrópskt efnahagssvæði. Enn er ekki ljóst, hvenær samningaviðræðum lýkur, en Evrópubandalagsþjóðirnar sætta sig illa við þá fyrirvara sem EFTA gerir í viðræðunum. Vegna vaxandi stuðnings við EB - aðild í EFTA - ríkjunum getur farið svo að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði ekki annað en aðlögunarsamningur EFTA - ríkjanna að Evrópubandalaginu. Ríkisstjórnin virðist enga ákveðna stefnu hafa í þessum málum. Jón Baldvin segist taka þátt í viðræðunum á vegum ríkisstjórnarinnar en Steingrímur og Ólafur Ragnar keppast við að gera lítið úr umboði utanrrh.
    Sjálfstæðismenn telja að Íslendingar eigi samleið með öðrum EFTA - ríkjum um þátttöku í evrópsku

efnahagssvæði að því tilskildu að samningar takist um hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir. Ef viðhlítandi samningar um Evrópska efnahagssvæðið takast ekki leggja sjálfstæðismenn áherslu á að Íslendingar leitist við að ná fram þessum markmiðum eftir öðrum leiðum. Íslendingar eiga ekki fremur en aðrar Evrópuþjóðir að útiloka fyrir fram að til aðildar geti komið að Evrópubandalaginu. Viðfangsefnið er að tryggja þjóðinni menningarlega og efnahagslega farsæld í framtíðinni og sjá til þess að sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar skuli ávallt vera tryggður ásamt fullri stjórn á auðlindum landsins.
    Sjálfstfl. hefur sífellt verið að styrkja stöðu sína á undanförnum árum. Sú málefnalega samstaða sem varð á landsfundi flokksins hefur enn eflt flokkinn. Styrkurinn felst í málstaðnum, í þeirri frjálsræðisstefnu sem samtíminn hefur fallist á að skili bestum árangri. Sjálfstfl. getur því stoltur litið til sögu sinnar og stefnu en þarf ekki að skipta litum eins og einn stjórnarflokkanna, sá sem oftast hefur breitt yfir nafn og númer, þegar hann um daginn bætti grænu ofan í rautt til að fela fortíð sína.
    Sú ríkisstjórn sem nú er að ljúka göngu sinni hefur í starfi sínu undanfarin ár notið þess að aðilar vinnumarkaðarins náðu samkomulagi um hógværa kjarasamninga, sem slógu á verðbólguna, svonefnda þjóðarsátt. Síðan hefur verð sjávarafurða hækkað verulega og viðskiptakjör batnað.
    Hvernig hefur ríkisstjórnin notfært sér það einstaka tækifæri sem gefist hefur til að ná tökum á viðfangsefnum sínum? Hefur hagvöxtur aukist?
    Nei. Hagvöxtur hefur verið mun minni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ef fram heldur sem horfir verður Ísland eitt fátækasta land Evrópu um næstu aldamót.
    Hafa skattar lækkað í takt við rýrnun kaupmáttar?
    Nei. Skattarnir hafa hækkað um 16 milljarða á árunum 1988 -- 1991, eða um 240.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
    Hefur ríkissjóður verið rekinn hallalaus á sama tíma og almenningi er sagt að draga úr útgjöldum heimilanna?
    Nei. Samanlagður halli þrátt fyrir skattahækkanir eru 30 milljarðar á árunum 1988 -- 1991. Þessi upphæð er jafnvirði 6000 íbúða ef hver kostar 5 millj. kr. Þessum vanda er ýtt á framtíðina. Það bitnar á næstu ríkisstjórn að bæta fyrir eyðslu Ólafs Ragnars.
    Þannig hefur alvarlegasta atlagan að þjóðarsáttinni verið gerð af ríkisstjórninni sjálfri og stofnar í hættu þeim markmiðum sem aðilar vinnumarkaðarins settu sér á sínum tíma. Þegar afrek ríkisstjórnarinnar eru tíunduð kemur m.a. í ljós að atvinnuleysi hefur þrefaldast frá 1988, gjaldþrot hafa aldrei verið fleiri, ríkissjóður er notaður til greiðasemi fyrir vini ráðherrans og húsnæðiskerfið er í rúst. Ríkisstjórnin ber einnig ábyrgð á því að vextir skuli ekki lækka, eins og hún lofaði, enda tekur ríkið að láni tvær krónur af hverjum þremur sem til falla með nýjum sparnaði á þessu ári til þess að standa straum af hallarekstri ríkisins. Þetta eru afrek stjórnar sem kallar sig félagshyggjustjórn.
    Það sem er þó alvarlegast í fari ríkisstjórnarinnar er hvernig einstakir ráðherrar víkja sér undan ábyrgð og reyna að koma sök á aðra --- einkum þær stofnanir, sem Alþingi hefur sett á laggirnar til að gefa ráð og veita aðhald. Tökum dæmi.
    Ríkisstjórnin bað Seðlabankann um álit á vöxtum á lánsfjármarkaðinum. Bankinn leyfði sér að benda á þá augljósu staðreynd að lánsfjárþörf ríkisins sé meginástæðan fyrir háum vöxtum. Forsrh. kallaði svarið hneyksli af því að honum líkaði það ekki og fjmrh. sneri út úr eins og honum einum er lagið.
    Hér er annað dæmi. Ríkisendurskoðun hafði annað álit á sölu Þormóðs ramma hf. á Siglufirði en fjmrh. Ólafur Ragnar bannfærði Ríkisendurskoðun strax að sjálfsögðu. Páll Pétursson var einn þeirra sem báðu Ríkisendurskoðun um skýrsluna. Fjmrh. upplýsti þjóðina af því tilefni að framsóknarmenn hefðu blekkt sig til að gefa eftir skattskuldir vegna málgagns Framsfl. Til að verja misgjörðir sínar ræðst ráðherrann fyrst á Ríkisendurskoðun. Þegar það dugar ekki til er gefið í skyn að verði samstarfsmennirnir í ríkisstjórninni ekki þægir skuli hann upplýsa um gamlan greiða sem varla þoli dagsins ljós.
    En það er ekki nóg að fjmrh. umgangist stofnanir ríkisins með þessum sérkennilega hætti --- heldur reynir hann með talnakúnstum og tilfæringum að gefa í skyn að staða ríkissjóðs sé betri en hún raunverulega er. Sem dæmi um slíkt færði ráðherrann í janúar sl. 1200 milljónir króna á Byggingarsjóð ríkisins af viðskiptareikningi ríkisins þótt útgjöldin hefðu í raun átt sér stað árinu áður, á árinu 1990. Þannig sýndi ríkissjóður betri stöðu um áramót, eða 300 milljóna króna inneign hjá Seðlabankanum. Í dag fékk ég þær upplýsingar að yfirdráttur ríkissjóðs hjá Seðlabankanum hafi verið hvorki meira né minna en 8,8 milljarðar í byrjun þessarar viku. Sú tala gefur vísbendingar um að hallinn á ríkissjóði í ár verði enn meiri en nú blasir við og fjmrh. vill vera láta.
    Eftir rúman mánuð fara fram alþingiskosningar. Í þeim kosningum kýs þjóðin sér nýja forustumenn. Að þessu sinni eru kostirnir óvenjulega skýrir. Valið stendur um áframhaldandi vinstri stjórn eða ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. Valið stendur um áframhaldandi opinber afskipti og kreppustefnu vinstri stjórnar gagnvart atvinnulífinu, þar sem geðþóttaákvarðanir ráða hverjir lifa og hverjir deyja, eða frjálsræðisstefnu, þar sem fyrirtæki og einstaklingar keppa á frjálsum markaði og bera ábyrgð á rekstrinum. Valið stendur um það hvort við látum vinstri stjórn hækka skattana enn meir á næsta kjörtímabili og ráðskast með fjármuni okkar eða hvort við viljum sjálf ákveða til hvers við notum eigið aflafé.
    Valið stendur um það hvort við viljum áfram glundroðastjórn margra flokka, þar sem hrossakaup eru alls ráðandi, eða hvort við viljum tveggja flokka stjórn undir forustu Sjálfstfl., stjórn sem tryggir stöðugleika.
    Góðir áheyrendur. Þessar umræður fara fram í kvöld vegna þess að stjórnin ætlar að rjúfa þing á morgun. Nú er reyndar ljóst að af því verður varla

vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Á kvöld - og næturfundum undanfarið hafa stjórnarsinnar hnakkrifist innbyrðis. Hér í sölum Alþingis hefur farið fram sýnikennsla í sundurlyndi, þar sem þingmenn stjórnarflokkanna reyna að drepa mál sinnar eigin ríkisstjórnar með öllum tiltækum ráðum. Ég spyr ykkur, áheyrendur góðir: Viljið þið slíka stjórnarhætti á næsta kjörtímabili eða viljið þið sterka og samhenta ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl.?
    Við sjálfstæðismenn treystum þjóðinni til að svara þeirri spurningu í komandi kosningum.