Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þegar líður að lokum kjörtímabils þarf hver og einn þjóðfélagsþegn að spyrja sjálfan sig hvort við höfum verið á réttri leið og hvert beri að stefna. Að mati Framsfl. skiptir meginmáli að byggja upp öflugt atvinnulíf um land allt sem geti verið styrk undirstaða velferðar, framfara og byggðar í landinu. Án öflugs atvinnulífs greiðum við ekki góð laun, veitum ekki góða samfélagsþjónustu og án öflugs atvinnulífs treystum við ekki byggðina í landinu.

    Í því uppgjöri sem mun fara fram í næsta mánuði verður tekist á um mörg mál sem skipta sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Jafnvægi í efnahagsmálum, skynsamleg sjávarútvegsstefna, samskipti Íslands við Evrópubandalagið og ríkisfjármál verða meginmál komandi kosninga. Við framsóknarmenn viljum halda áfram á braut þeirrar jafnvægisstefnu sem mótuð hefur verið í efnahagsmálum. Verðbólgan er lægri en nokkru sinni fyrr, atvinnulífið er að styrkjast, skuldir þjóðarinnar að lækka og betra jafnvægi er milli útflutnings og innflutnings en oftast áður. Fullyrða má að starfsemi Atvinnutryggingar - og Hlutafjársjóðs hafi tekist að forða stöðvun margra atvinnufyrirtækja sem í flestum tilfellum eru burðarásar atvinnulífsins í viðkomandi byggðarlagi. Þrátt fyrir ótvíræðan árangur hafa því miður þingmenn Sjálfstfl. hvað eftir annað lýst yfir andstöðu sinni við þær skuldbreytingar - og hagræðingaraðgerðir sem þessir sjóðir hafa gert mögulega. Vinnandi fólk, ekki síst í sjávarplássum, tekur eftir slíkum kveðjum.
    Þjóðarsáttin er umgjörðin sem við viljum verja af öllu afli. Stjórnarandstaðan með Sjálfstfl. í broddi fylkingar var ekki tilbúin til þess og afstaða flokksins við afgreiðslu bráðabirgðalaganna um jafnræði á vinnumarkaði mótaðist fremur af skammtímasjónarmiðum en umhyggju fyrir þjóðarheill.
    Fiskveiðistefnan er eitt viðkvæmasta og mikilvægasta mál samfélagsins. Eigendur skipa hafa fengið réttinn til að nýta auðlindina til hagsbóta fyrir sig og þjóðina í heild. Þeir eiga ekki þennan rétt heldur er þeim trúað fyrir honum af samfélaginu sem treystir því að í höndum þeirra verði framfarirnar í greininni mestar þjóðinni til heilla. Þessum nýtingarrétti fylgir tvímælalaust mikil ábyrgð og því er eðlilegt að almenningur geri kröfu til þeirra sem með hann fara. Í dag veit hver og einn hvað hann má veiða og getur því gert traustari áætlun um skipulag veiða og vinnslu. Mikill árangur hefur þegar náðst á þessu sviði. Fjárfesting í fiskiskipum hefur stöðvast og flotinn fer minnkandi. Viðleitni til að fá hærra verð fyrir aflann hefur vaxið og útgerðarkostnaður hefur lækkað. Betra verð fæst nú fyrir fiskinn innan lands og útflutningur á óunnum þorski hefur dregist saman um helming fyrstu tvo mánuði þessa árs. Útflutningsverðmæti sjávarafurða er meira en nokkru sinni fyrr og miklar framfarir eru í gæðamálum. Starfsskilyrði sjávarútvegsins hafa sjaldan eða aldrei verið eins stöðug og vel skilgreind vegna festu í almennum efnahagsmálum og nýrra ótímabundinna laga um stjórn fiskveiða. Bætt starfsskilyrði í sjávarútvegi hafa ekki aðeins treyst atvinnu heldur hefur rekstrarafkoma fyrirtækjanna einnig stórbatnað á sl. tveimur árum. Þannig batnaði meðalafkoma fyrirtækja í veiðum og vinnslu um 10% milli áranna 1988 og 1990 eða úr 4% tapi í 6% hagnað. Ekkert er mikilvægara til að efla byggðina um allt land.
    Fiskveiðistefnan hefur í raun lagt grunn að nýrri hugsun í sjávarútvegi. Þar ríkir nú bjartsýni og eftirvænting eftir að takast á við ný verkefni. Betri nýting aflans, veiðar á vannýttum tegundum, sókn á nýja markaði og betri og markvissari stjórn fyrirtækjanna eru ávöxtur hinna nýju laga um stjórn fiskveiða. Ekki verður þó hjá því komist þegar skipta þarf réttindum milli margra aðila í landinu að einhverjir árekstrar verði. Alltaf munu koma fram ýmsir ágallar sem þarf að lagfæra. Ég fullyrði að engin önnur stefna er í augsýn sem getur notið meirihlutafylgis í landinu. Þeir sem eru andvígir núverandi stefnu vilja ýmist frjálsar veiðar úr heildarmagni fiskvinnslu eða byggðakvóta og síðast en ekki síst sölu veiðileyfa. Staðreyndin er sú að fiskveiðistefnan hefur verið mótuð í meira samráði við þjóðina en nokkurt annað mál. Hún er málamiðlun milli ólíkra hagsmuna sem verður að varðveita.
    Sjálfstfl. hefur gefið það í skyn með Morgunblaðið í broddi fylkingar að móta verði einhverja nýja stefnu. Á landsfundi flokksins kom það eitt fram að flokkurinn mundi krefjast þess að fá sjútvrn. í sinn hlut fengi hann til þess fylgi í komandi kosningum. Það er afar merkilegt að flokkurinn skuli gefa út í ályktunum sínum slíkt stefnumál um þetta eina ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Heldur Sjálfstfl. að íslenskir kjósendur láti sér það nægja að fá engin svör um það hvað hann vill gera í þessum mikilvæga málaflokki eða er svarsins e.t.v. að leita í endalausum ritstjórnar - og leiðaraskrifum Morgunblaðsins þar sem finna má stöðug niðurrifsskrif um stefnuna í íslenskum sjávarútvegi? Það eina sem hægt er að lesa út úr þeim skrifum er að fiskveiðiréttindin eigi að selja á uppboði, líklega ásamt Rás 2 og einhverju fleira. Íslenskt þjóðfélag með dreifða byggð og margslungna hagsmuni verður ekki rekið á uppboðsmarkaði íhaldsins.
    Samningaviðræður EFTA og Evrópubandalagsins hafa tekið lengri tíma en vonir stóðu til í upphafi. Það ætti ekki að koma á óvart því að hér er bæði um flókna og mikilvæga samninga að ræða. Á því leikur enginn vafi að samningsstaða Íslands er mun sterkari í samfélagi EFTA - ríkjanna en í formlegum tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins reynist okkur enn á ný erfið og það er grundvallaratriði að sérstaða Íslands sé viðurkennd. Forustumenn flestra Evrópubandalagsríkjanna hafa sýnt málstað Íslendinga skilning og ég trúi því að sá skilningur muni skila sér í lokahrinu þessara samninga.
    Framsfl. er andvígur aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Ástæðurnar eru margar en mikilvægasta orsökin er að sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins viðurkennir ekki forræði þjóða yfir auðlindum sjávar heldur eingöngu forræði yfir auðlindum landsins. Þessi einföldu sannindi eru nægileg ástæða þess að aðild á ekki að vera til umræðu hjá þjóð sem byggir nær eingöngu á auðlindum hafsins.
    Sjálfstfl. undir forustu núverandi formanns sá þá framtíðarsýn í skýrslunni ,,Ísland árið 2000`` að íslenska lýðveldið yrði á þeim tímamótum aðili að Evrópubandalaginu. Enda þótt flokkurinn virðist nú vera farinn að draga í land hefur þetta ótvírætt sýnt að honum er ekki treystandi til forustu í þessu mikilvæga hagsmunamáli. Fullveldið, sjálfstæðið og landhelgin vannst með svita og tárum. Framsfl. mun standa vörð um þessa sigra og hugsjónir undir kjörorðinu ,,Öflug þjóð í eigin landi``. Framsóknarmenn skera sig úr í íslenskum stjórnmálum varðandi einhug flokksmanna í varðstöðunni um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.
    Framsfl. telur að skattheimta í landinu megi ekki aukast og það beri að efla samfélagsþjónustu með bættri nýtingu fjármuna og aðhaldi í ríkisrekstri. Framsfl. hefur ekki trú á því að það sé raunhæft að lofa kjósendum verulegum skattalækkunum, en mun beita sér fyrir margvíslegum umbótum á því sviði.
    Íslenskt heilbrigðiskerfi er á margan hátt til fyrirmyndar í samanburði við önnur lönd. Þar verður að vera aðhald án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Í þessum anda hefur núv. heilbrrh. unnið. Það er ótrúlegt hvernig íhaldið í Reykjavík hefur með skipulögðum hætti ráðist ódrengilega á heilbrrh. vegna aðhaldsstefnu hans í lyfjamálum og útgjöldum spítalanna. Þetta sama fólk býður sig nú fram til forustu í landsmálum og lofar öllu í senn, hækkun útgjalda og lækkun skatta. Framsfl. er staðráðinn í því að viðhalda því velferðarkerfi og samfélagsþjónustu sem hefur verið byggð upp í landinu á undanförnum áratugum.
    Góðir Íslendingar. Ég hef gert að umræðuefni mikilvæg þjóðfélagsmál. Saga landsins, menning og kristilegt siðgæði gera okkur ekki síður að öflugri þjóð í eigin landi. Barátta fyrir sjálfstæði og forræði auðlindanna hefur eflt sjálfstæðisvitund og kennt okkur aðgát í úrlausn vandasamra mála. Við erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir og verðum því jafnframt að gæta sjálfstæðis landsins með öflugum tengslum við vinaþjóðir í Evrópu, Ameríku og Asíu. Við þurfum líka að bæta innviði samfélagsins, ekki síst með því að efla íslensku þjóðkirkjuna sem er mikilvægasta sameiningartákn okkar inn á við. Við höfum með mikilli vinnu og þrautseigju orðið öflug þjóð í eigin landi. Við skulum halda því áfram og varða þá braut undir forustu Framsfl. Þá forustu er hann tilbúinn til að veita ef hann fær glæsilega niðurstöðu í kosningunum í vor og ekki síst traust ykkar kjósenda.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.