Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hverju hefur það breytt fyrir kjör fólks að Alþfl. settist í ríkisstjórn eftir átta ár í stjórnarandstöðu? Verðbólgan hefur ekki verið lægri í áratugi. Það getur ráðið úrslitum um lífskjör heimila sem eru skuldum vafin. Ef við værum t.d. með verðbólgu ársins 1983 væri fjármagnskostnaður af 1 millj. kr. bankaláni til 12 mánaða hátt í 250 þús. kr. Samsvarandi upphæð miðað við núverandi verðbólgustig er um 70 þús. kr. Þessar kjarabætur geta því numið fernum mánaðarlaunum láglaunafólks. Ef við værum með verðbólgu ársins 1987 væri fjármagnskostnaður af 1 millj. kr. láni hátt í 150 þús. kr. á móti um 70 þús. kr. í ár miðað við núverandi verðbólgustig. Þetta eru raunverulegar kjarabætur sem skila sér til fólksins. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
    Og nú sérð þú líka höfuðstóllinn af verðtryggða láninu þínu ganga niður en fara ekki hraðvaxandi upp eins og á árum áður þegar íhaldið, Framsókn og Alþb. fóru með stjórnina. Það skiptir því máli hverjir stjórna. Hvernig haldið er á húsnæðismálunum ræður úrslitum og vegur þungt í kjörum þínum og fjölskyldu þinnar. Þess vegna hefur Alþfl. lagt svo mikla áherslu á að ná fram breytingum í húsnæðismálum. Og ekki bara þess vegna heldur er þetta líka veigamesti þátturinn í að skapa fjölskyldunni öryggi og hlúa að börnum í þessu þjóðfélagi. Þær eru margar fjölskyldurnar í þessu landi sem þekkja hvernig vinnuþrældómur og andvökunætur vegna skuldabasls bitnar á fjölskyldulífinu. Hversu oft endar slíkt ekki með upplausn heimila? Allt of oft hafa fjölskyldur í landinu enga útgönguleið. Afrakstur af margra ára vinnustriti enginn. Fólk stendur oft fátækara en áður og gjaldþrot og uppboð íbúða hafa orðið örlög margra. Afbrot, ofbeldi og vímuefnaneysla eru líka æði oft fylgifiskar mikilla fjárhagserfiðleika heimilanna. Afleiðingarnar af rangri húsnæðisstefnu allt til þessa blasa því víða við í þjóðfélaginu. Þessu varð að breyta til að tryggja betur velferð fólks og öryggi fjölskyldulífs. Lykilatriðið er að hafa val í húsnæðismálum eftir efnum og aðstæðum hvers og eins og að greiðslubyrðin sé viðráðanleg. Því höfum við náð fram. Þess vegna eru betri tímar fram undan.
    Félagslegar íbúðir og leiguíbúðir eru allt of fáar hér á landi. Veruleg breyting hefur þó orðið þar á. Í rúmlega 60 ára sögu félagslegra íbúða hafa 2500 af 7500 félagslegum íbúðum á landinu frá upphafi, eða ein af hverjum þremur, verið byggðar á þessu kjörtímabili. Það skiptir því máli hverjir stjórna. Félagslegar íbúðir eru leið fólksins til þess að eignast íbúð, leið til þess að viðhalda séreignarstefnu fyrir alla, leið fyrir aldraða inn í þjónustuíbúðir sem nú er verið að gera átak í. Þessa stefnu kallar íhaldið þó leiguliðastefnu. Þeir um það. En hvar er þeirra réttlæti gagnvart því fólki sem sér á eftir fjórum af hverjum sex krónum sem það vinnur sér inn beint í vasa leigusalanna? Er það stefna mannúðar í anda yfirskriftar landsfundar Sjálfstfl.? Ég vona að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir geymi og lesi vel kvölds og morgna ræður mínar frá 1987 og 1988 sem hún vitnaði til áðan því ástandið hefur nefnilega breyst eftir að Sjálfstfl. hvarf úr ríkisstjórn eins og ég hef hér rakið.
    En hverjar eru staðreyndir málsins? Lánakerfinu var lokað í mars 1987. Það er talað um að ég hafi eyðilagt 1986 - kerfið. Það er söngurinn. En staðreyndir málsins eru þær að lánakerfinu var lokað í mars 1987, fimm mánuðum eftir að það var opnað. Þá var í marga mánuði hætt að afgreiða lánsloforð því öllu fjármagni var þegar ráðstafað og búið að afgreiða lánsloforð langt fram í tímann. Gamla lánakerfið hrundi því þegar í tíð Framsfl. og Sjálfstfl. Seðlabanki, Ríkisendurskoðun og sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar hafa svo endanlega kveðið upp dauðadóminn: Lánakerfið frá 1986 gengur ekki upp. Því ber að loka.
    Húsbréfakerfinu er líka kennt um gjaldþrot gamla kerfisins. Þvílíkt rugl. Ef ekkert húsbréfakerfi væri til, engu hefði verið breytt í gamla lánakerfinu, væri biðtíminn eftir lánum núna samt orðinn fimm ár. Á að bjóða ungu fólki upp á það? Fimm ára biðtíma til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég hafna því. Svo einfalt er málið.
    Er greiðslubyrðin í húsbréfakerfinu þyngri en í lánakerfinu frá 1986, eins og sumir halda fram? Svarið er nei. Þetta skýrist af því að í húsbréfakerfinu er miklu minni þörf fyrir dýr skammtímalán sem sligað hafa heimilin. Algengt er að greiðslubyrðin af meðalíbúð í húsbréfakerfinu sé um 10 þús. kr. lægri á mánuði þegar íbúðakaup er skoðuð í heild fyrir fyrstu - íbúðar - kaupendur. Eru afföllin meiri í húsbréfakerfinu en lánakerfinu frá 1986, eins og sumir halda fram? Svarið er nei. Íbúðarkaupendur bera engin afföll nema þau komi fram í hærra íbúðaverði. Það hefur ekki gerst. Þvert á móti hefur íbúðaverð lækkað. Þegar lánakerfinu frá 1986 var komið á rauk hins vegar fasteignaverð upp á einu ári um allt að 10%. Afföllin í því kerfi í formi hækkaðs íbúðaverðs urðu því á einu bretti 500 -- 600 þús. kr. á meðaleign. Það svarar til tíu mánaðarlauna verkafólks.
    Menn skyldu líka muna að biðtími kostar peninga. Hverjir skyldu vextirnir, lántökukostnaðurinn og stundum lögfræðikostnaður hafa verið hjá fjölskyldunni sem aftur og aftur þurfti að framlengja skammtímalánin í bönkunum meðan beðið var eftir láninu árum saman í 1986 - kerfinu? Hvað skyldi húsbréfakerfið, sem sumir vilja feigt, bjarga mörgum fjölskyldum þessa dagana frá því að íbúðir þeirra lendi á uppboði? Þær fjölskyldur skipta hundruðum. Algeng greiðslubyrði hjá því fólki sem er í miklum erfiðleikum er um 100 þús. kr. á mánuði en lækkar niður í 30 þús. kr. fái það fyrirgreiðslu í sínum greiðsluerfiðleikum gegnum húsbréfakerfið. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
    Góðir Íslendingar. Verkefnið fram undan er að jafna eigna - og tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Bilið milli ríkra og fátækra er breitt í þjóðfélaginu. Það skiptir því máli að draga úr húsnæðiskostnaði láglaunafólks eins og við höfum gert. Andstæðurnar, hin hyldjúpa gjá milli ríkra og fátækra, birtast í löngum

lista í tímariti yfir mánaðarlaun hinna ríku í þjóðfélaginu sem raka til sín gróða á kostnað launafólks. Þar voru algeng mánaðarlaun 500 þús. kr. til 1 millj. kr. á mánuði eða um tvenn árslaun verkafólks. Andstæðurnar í þjóðfélaginu birtast í lífeyrisgreiðslum aldraðra þar sem sumir fá 5 -- 10 þús. kr. úr sínum lífeyrissjóði en aðrir 100 -- 200 þús. kr. á mánuði. Það er forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar að breyta því misrétti sem ríkir í lífeyrismálum þjóðarinnar.
    Andstæðurnar í þjóðfélaginu birtast líka í aðstöðumun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar í atvinnumálum, í kjörum og skorti á þjónustu sem leita þarf eftir til höfuðborgarsvæðisins. Það er og verður að vera forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar að jafna þetta misvægi þannig að hér búi ein þjóð í einu landi. Við höfum þar náð árangri en við verðum að gera betur. Því miður ætlar að daga hér uppi á þingi frv. sem ég flutti um að færa þjónustuna í húsnæðismálum til fólksins úti á landsbyggðinni. Aðstöðumunur milli dreifbýlis og höfuðborgarsvæðis verður líka leiðréttur í reglugerð sem ég er að gefa út sem tryggir jafnræði lána gegnum húsbréfakerfið á landinu öllu. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
    Verið er að leysa húsnæðisvanda fatlaðra gegnum félagslega íbúðakerfið sem um leið leysir vanda fatlaðra sem beðið hafa lengi eftir að komast á sambýli. Sambýlum verður líka komið á fót fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga í tengslum við átak í málefnum geðsjúkra á þessu ári. Raunaukning á fjármagni til málefna fatlaðra hefur orðið 40% á þessu kjörtímabili. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
    Við höfum á þessu kjörtímabili sett meira fjármagn en nokkru sinni til þess að bæta kjör láglaunafólks gegnum skattakerfið, m.a. með barnabótum og vaxtabótum. En við verðum að gera enn betur á næsta kjörtímabili. Þá verða að nást fram húsaleigubætur fyrir láglaunafólk og hækkun skattleysismarka.
    Góðir Íslendingar. Breið fylking jafnaðarmanna verður að vera niðurstaða kosninganna. Æ fleiri í þessu þjóðfélagi fylkjast nú undir merki jafnaðarmanna og félagshyggju. Nýjasta merki þess sást að loknum landsfundi sjálfstæðismanna þegar félagshyggjuöflin í Stúdentaráði Háskóla Íslands náðu yfirhöndinni.
    Góðir Íslendingar. Við erum ein þjóð í einu landi. Vinnum að því saman sem jafnaðarmenn.