Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Í umræðum eins og þeim sem fara fram hér í kvöld birtist þjóðinni afrakstur stjórnmálamannanna frá liðnum vetri og jafnvel liðnu kjörtímabili.
Menn fara yfir hlutina og satt best að segja eru málin oft þannig sett fram að það er býsna mikið í svörtu og hvítu. Það er of lítið þannig að menn viðurkenni að ekki hefur allt tekist sem skyldi þó margt hafi tekist vel, t.d. hjá núv. ríkisstjórn. Það er einnig einkenni á umræðum af þessu tagi að menn dvelja við vanda augnabliksins eins og eðlilegt er. Og við, sem höfum valist til stjórnmálastarfa, erum oft því marki brennd að við víkjum ekki að framtíðinni heldur tölum um vandamál dagsins í dag. Það er í raun og veru einn helsti veikleiki íslenskra stjórnmála að menn fást ekki til að gera grein fyrir því hvert þeir eru að fara. Hvers konar Ísland viljum við? Hvert stefnum við? Í þeim efnum eiga stjórnmálamennirnir ekki einasta að gera grein fyrir næstu verkefnum heldur einnig framtíðarverkefnunum, því Íslandi sem við viljum sjá.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum á kosningaráðstefnu okkar, sem haldin var um síðustu helgi, gert grein fyrir þessum atriðum lið fyrir lið í kosningastefnuskrá sem við gefum út og ber yfirskriftina Okkar Ísland. Það er rauð stefna á grænum grunni, eins og mjög margir ræðumenn hafa vikið að hér í kvöld og mér þykir vænt um og ég þakka fyrir. Þessi stefna byggist á þeirri framtíðarsýn sem okkar flokkur vill bregða upp fyrir Íslendingum. Lykilorðin þar eru þessi: Jöfnuður, þannig að á Íslandi verði meiri jöfnuður lífskjara en í nokkru öðru landi af því að Íslendingar þola ekki mismunun, af því að við erum fá, af því að við erum lýðræðislega sinnuð, af því að þjóðfélagið er gagnsætt. Af þeim ástæðum höfum við lagt áherslu á endurbætur í skólastarfi á þessu kjörtímabili því sennilega eru endurbætur í skólastarfi ein besta jöfnunaraðgerð sem hugsast getur í þágu barnanna á Íslandi og þar með framtíðarinnar. Í anda þeirrar stefnu segjum við nú: Við viljum taka upp húsnæðisbætur og húsaleigubætur og segjum: Það á að leggja skatta á hátekjur, skatta á fjármagnstekjur. Við undrumst það að Alþfl. skuli ekki hafa verið tilbúinn til þess að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Það er jöfnuður sem er númer eitt.
    Í annan stað er það íslensk menning sem er undirstaða sjálfstæðis þessa þjóðfélags. Það er sérkennilegt að menn skuli sjaldan eða aldrei fást til þess hér á Alþingi Íslendinga að tala um íslenska menningu, svo mikilvæg sem hún er fyrir sjálfsvitund þjóðarinnar og sjálfstæði og sjálfsforræði. Í anda þessarar stefnu höfum við afnumið virðisaukaskatt af menningarstarfsemi. Í anda þessarar stefnu höfum við tvöfaldað framlög til menningarmála á þessu kjörtímabili frá því sem áður var.
    Í þriðja lagi segjum við: Umhverfisvernd er meginverkefni íslenskra stjórnmála til framtíðar og til skemmri tíma. Þess vegna höfnum við eiturspúandi verksmiðjum erlendra stórfyrirtækja en segjum: Ísland

á bjarta framtíð fyrir sér sem orkuframleiðandi, sem matvælaframleiðandi og sem ferðamannaland.
    Og síðast en ekki síst segjum við: Á grundvelli þeirrar stefnu sem Alþb. hefur alltaf fylgt eigum við að stuðla að uppbyggingu alþjóðlegs friðarkerfis á rústum kalda stríðsins, kerfis sem kemur í veg fyrir blóðug átök á milli þjóða eins og við höfum séð birtast undanfarnar vikur. Þetta eru meginverkefnin. Jöfnuður, íslensk menning og efling hennar, umhverfisvernd, nýtt alþjóðlegt friðarkerfi.
    Næstu verkefni okkar í nýrri ríkisstjórn, ef mynduð yrði að kosningum loknum, ef það tekst, sem vonandi verður, að koma í veg fyrir að hin harða stefna Sjálfstfl. nái hér völdum, þá eru næstu verkefni að mínu mati þessi:
    1. Að útrýma með öllu fátækt á Íslandi og leggja á það áherslu að allir Íslendingar geti gengið reistir og stoltir frá verkum sínum. Til þess þurfa menn að þora að sækja fjármuni til fjármagnseigenda og stórtekjumanna í þessu landi.
    2. Okkur ber að leggja áherslu á sjálfsforræði og sjálfstæði þjóðarinnar. Okkur ber að hafna aðild Íslands að Evrópubandalaginu, eins og Friðrik Sophusson gerði reyndar grein fyrir hér áðan að væri stefna hinnar nýju forustu Sjálfstfl.
    3. Við eigum að leggja áherslu á raunsæja atvinnustefnu, sem er undirstaða undir góðum og batnandi lífskjörum í þessu auðuga landi sem við búum í. Við eigum að hafna álblekkingunum, hvaðan svo sem þær kunna að koma. Enda liggur þar fyrir, þrátt fyrir strit í mörg missiri og mánuði, að það er engin niðurstaða til í því máli enn þá, þó svo að menn séu að koma hér í gegnum Alþingi tillögum í þeim efnum eins og alþjóð veit.
    4. Það ber að halda áfram að efla og treysta undirstöður íslenskrar menningar, bæði almennt en líka með því að treysta hér vísinda- og rannsóknastarfsemi á grundvelli þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Þar er gert ráð fyrir því að framlög til vísinda og rannsókna verði aukin mjög verulega. Í stefnuskrá okkar segjum við alþýðubandalagsmenn: Það á að tvöfalda framlög til vísinda og rannsókna á fjórum árum. Ef menn halda að þetta sé eitthvert kosningagaspur þá vitna ég til þess að fyrir kosningarnar 1987 sögðum við: Tvöföldum framlag til menningarmála. Við það hefur verið staðið og það verður líka staðið við það að stórauka framlög til vísinda og rannsókna. Enda eru vísindi og rannsóknir og gott menntakerfi ein besta undirstaða góðra lífskjara sem hugsast getur.
    5. Við segjum: Við framkvæmum þá skóla- og uppeldismálastefnu sem við höfum verið að móta á undanförnum árum í góðri sátt við kennarasamtökin og aðra aðila skólastarfs í þessu landi. Í þeim efnum leggjum við áherslu á það höfuðatriði að börnin sem í skólana ganga eru framtíð þjóðarinnar. Það er ótrúlega lítið um það satt að segja að þessi virðulega stofnun fáist til að fjalla um hag barna og kjör og það er athyglisvert að velta því fyrir sér af hverju það er að ævinlega skuli frv. um efnahagsmálin og hinar

hörðu aðgerðir af ýmsu tagi renna hér í gegn á meðan mörg önnur mál sem snerta líf og kjör barna virðast eiga erfiðar uppdráttar.
    Hörð stefna. Hörð stefna varð niðurstaða landsfundar stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar um síðustu helgi. Hvað er hörð stefna? Hörð stefna þýðir ekki endurbætur í skólamálum og lengri skóladag. Hörð stefna þýðir ekki auknar framkvæmdir í samgöngumálum, það sýnir reynslan frá 1988. Hörð stefna þýðir ekki aukinn jöfnuð í lífskjörum. Það sýnir niðurstaðan frá 1988. Hörð stefna þýðir ekki minni verðbólgu. Það sýnir reynslan frá 1988. Hörð stefna þýðir ekki lægri vexti heldur hærri vexti. Það sýnir reynslan frá 1988. Hörð stefna þýðir ekki aukin útgjöld til menningarmála. Það segir reynslan okkur frá 1988. Hörð stefna þýðir ekki aukin framlög til lánamála námsmanna. Það sýnir reynslan frá 1988. Og þannig mætti, góðir tilheyrendur, reyndar lengi telja, lengi telja enn. Það mætti kannski bæta því við að það var ekki aðeins Sjálfstfl. sem stóð að því að framkvæma stefnuna 1988, þar var líka Framsfl., þar var líka Alþfl. að verki. Það sem breyttist var það að Alþb. kom til starfa og þá var hrint þeirri stefnu sem hafði skilið efnahagslíf landsins að hruni komið og í verra ásigkomulagi en nokkru sinni fyrr, svo notuð séu óbreytt orð eins þingmanns Sjálfstfl. í blaðagrein á dögunum. Það er athyglisvert að Kvennalistinn var í rauninni fyrsti flokkurinn til að bjóða hina hörðu stefnu Sjálfstfl. velkomna þegar nýkjörnum formanni Sjálfstfl. barst fyrsta bónorðsbréfið frá leiðtoga Kvennalistans í Reykjavík. Þetta bréf olli okkur vinum Kvennalistans verulegum vonbrigðum, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.
    Við Reykvíkingar þekkjum vel hina hörðu stefnu í verki. Það er stefna sem byggir glæsihýsi fyrir 4 milljarða kr. í staðinn fyrir t.d. að byggja tíu grunnskóla, þannig að allir skólar í Reykjavík séu einsetnir með góðum búnaði fyrir nemendur og kennara, stefna sem byggir glæsihýsi fyrir 4 milljarða í staðinn fyrir að byggja leikskólapláss fyrir 4000 börn, stefna sem byggir glæsihýsi fyrir 4 milljarða í staðinn fyrir að byggja 650 íbúðir fyrir aldraða og eyða þannig biðlistunum. Við Reykvíkingar þurfum ekki fremur vitnanna við og við skulum ekki gleyma því, góðir áhorfendur um allt land, að í Reykjavík búa þúsundir manna við erfið lífskjör af því að þjónusta við börn og aldraða er þessu ríkasta sveitarfélagi Íslands til skammar.
    Góðir tilheyrendur. Ég hef tekið eftir því í þinginu síðustu daga að þingmenn Sjálfstfl. verða æ sigurvissari og tala um að Sjálfstfl. fái hreinan meiri hluta í næstu kosningum. Einn þeirra missti það út úr sér um daginn að Sjálfstfl. verði jafnvel einráður eftir kosningar, Sjálfstfl. hinnar hörðu stefnu. Og það eru blikur á lofti, margir bera ugg í brjósti. En við þurfum ekkert að óttast ef við gerum okkur grein fyrir aðalatriðunum, framtíðarstefnunni, fyrstu skrefunum á grundvelli þess árangurs sem þegar hefur náðst. Og það væri ekki verra að tilheyrendur mínir og aðrir kjósendur glöggvuðu sig enn betur á hinni rauðu

stefnu á grænum grunni. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.