Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Nú líður senn að lokum þessa kjörtímabils og er því ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Hverju höfum við áorkað og hvað hefur mistekist? Við fimm þingmenn Borgfl. höfum öll reynt að starfa af festu, einurð og samviskusemi og barist heiðarlegri baráttu fyrir stefnumálum okkar þessi fjögur ár. Við komum inn á þing með nýjar og ferskar hugmyndir og höfum svo sannarlega sett svip okkar á þingstörfin.
    Húsbréfafrv. sem þingmenn Borgfl. lögðu fram fyrsta þingveturinn varð kveikjan að núverandi húsbréfakerfi sem þrátt fyrir mikla ágalla er þó skref fram á við. Tillögur okkar um húsaleigubætur og launabætur hafa einnig haft mikil áhrif.
    Fyrst vorum við í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og gengum þá í gegnum mikla eldskírn þegar við börðumst gegn matarskattinum sem sú ríkisstjórn kom á. Við endum hins vegar kjörtímabilið sem flokkur í ríkisstjórn sem skilar af sér betra búi en dæmi eru um í íslenskri stjórnmálasögu.
    Fyrri hluta árs 1989 áttum við í erfiðum og flóknum samningaviðræðum við samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn um myndun nýrrar ríkisstjórnar með traustum þingmeirihluta sem einungis Borgfl. gat lagt til. Við lögðum sem fyrr áherslu á lækkun matvælaverðs og bætta afkomu heimilanna svo og traustara atvinnulíf. Tókst loksins að ná samkomulagi um stjórnaraðild haustið 1989. Þessi atburðarás fór mjög fyrir brjóstið á Sjálfstfl. sem þykir að við höfum haldið honum allt of lengi frá stjórnartaumunum. Töluðu þeir mikið um hrossakaup og stólakaup okkar borgaraflokksráðherranna. Einhver mestu hrossakaup, ef menn vilja endilega nota það hugtak, áttu sér stað þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð sumarið 1987. Þau hrossakaup skiluðu hins vegar þjóðinni litlum árangri þar sem 14 mánuðum síðar var allt í kalda koli, atvinnulíf landsmanna í rúst og matvælaverðið að sliga heimilin. Stjórnarþátttaka Borgfl. hefur hins vegar skilað þjóðinni miklum árangri. Að kröfu Borgfl. var skattlagning innlendra matvæla lækkuð. Mjólk, kjöt og fiskur lækkaði í verði 1. jan. 1990 og hefur verð þessara algengustu matvæla nánast staðið í stað síðan. Matarreikningur fjölskyldnanna í landinu varð 2,2 milljörðum kr. lægri á árinu 1990 en annars ef ekki hefði komið til þessarar skattalækkunar. Það þarf þó að halda áfram á þessari braut að loknum kosningum og afnema með öllu skattlagningu á innlendum matvælum.
    Virðulegi forseti. Verðbólga er nú aðeins 5,3% miðað við heilt ár. Það er búið að skapa þann efnahagslega grundvöll sem þarf til að byggja á til framtíðar svo varanlega verði hægt að bæta afkomu fólksins og atvinnulífs í landinu. Þjóðarsáttin, sem aðilar vinnumarkaðarins og bændur gerðu í nánu samstarfi við ríkisstjórnina, hefur gert þetta kleift. Ég hef oft sagt þetta áður og segi það enn, því það vill gleymast, að hefðum við þingmenn Borgfl. ekki sýnt það þrek og staðfestu að standast linnulausar árásir fjölmiðlabatterís Sjálfstfl. og lyppast niður í stað þess að þora að axla þá ábyrgð sem því fylgir að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi við erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu væri engin þjóðarsátt, enginn stöðugleiki, engin lækkun á matvælaverði, enginn grundvöllur fyrir framfarasókn til að bæta lífskjör almennings í landinu sem verður þó að vera forgangsmál næstu ríkisstjórnar því kaupmáttur, einkum lægstu launa, er allt of lágur.
    Virðulegur forseti. Nú líður senn að kosningum. Við þurfum þá að taka afstöðu til margra mikilvægra mála sem snerta þjóðarheill og varða afkomu okkar Íslendinga, horft til lengri framtíðar. Samningar um Evrópskt efnahagssvæði hafa gengið hálf brösuglega. Svo virðist sem hin harðneskjulega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins ætli að gera okkur ókleift að ná þessum samningum. En ekki kemur til greina að gefa eftir og hleypa fiskiskipum EB inn á fiskveiðimið okkar. Ekki er þó ástæða til að leggja árar í bát, við verðum að reyna til þrautar að ná þessum samningum sem eru okkur mikið hagsmunamál enda nauðsynlegt fyrir okkur að aðlaga fjármagnskerfi og þjónustu að frjálsum markaði Evrópulandanna. Við þurfum hins vegar ekki að velta þeirri hugmynd fyrir okkur að ganga í EB. Ég hef enga trú á því að Evrópubandalagið muni lifa af þær breytingar sem eru að verða í Evrópu heldur muni þróunin verða sú að smám saman muni öll Evrópa verða innan sameiginlegs efnahagssvæðis þar sem gilda sömu lög og reglur og viðskiptahættir án sameiginlegrar yfirstjórnar. Miðstýring allrar Evrópu frá Brussel er einfaldlega dæmi sem ekki gengur upp.
    Í atvinnumálum þurfum við að taka okkur á og opna fyrir nýjar leiðir og hugmyndir í samstarfi við aðrar þjóðir. Við getum nýtt okkur betur markaði í Austurlöndum fjær og í Vesturheimi. Margar þjóðir vilja nýta reynslu okkar í sjávarútvegi og hafa t.d. Alaskabúar nýlega gert samning við íslenskt famleiðslufyrirtæki um að kaupa tækniþekkingu og reynslu okkar í fiskvinnslu. Og íslensk fyrirtæki hafa náð góðum árangri í að markaðssetja tölvuvogir og annan fiskvinnslubúnað erlendis. Við þurfum að nýta betur þá tækniþekkingu sem við búum yfir og einkum er brýnt að stjórnmálaöflin í landinu taki meira tillit til faglegrar og vísindalegrar þekkingar og reynslu. Við þurfum að laða til okkar lítil erlend framleiðslufyrirtæki sem vilja nýta sér hina miklu kosti sem Ísland býður upp á. Við erum vel menntuð og dugmikil þjóð í stóru og gjöfulu landi í þjóðbraut milli Ameríku og Evrópu. Við bjóðum upp á fullkomið mennta- og heilsugæslukerfi og fagra náttúru, hreint og ómengað land. Við þurfum svo sannarlega ekki að óttast framtíðina.
    Umhverfismál eru meðal mikilvægustu málaflokka í stjórnmálaumræðu nútímans. Það hefur komið í hlut Borgfl. að byggja upp hið nýja umhvrn., en stofnun þess verður áreiðanlega talin með merkustu ákvörðunum Alþingis á þessu kjörtímabili. Umhverfisspjöll eru mikið áhyggjuefni almennings um heim allan. Til skamms tíma var hljótt um umræðu um þau mál á Íslandi. En hún er nú komin í fullan gang. Í umhvrn. er

verið að vinna að stefnumótun í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Bætt sorphirða og aukin endurvinnsla eru meðal þeirra. Þá hefur verið undirbúin almenn löggjöf um umhverfisvernd og skipulag hennar. Fyrstu skref til verndunar hálendis Íslands hafa verið stigin og frv. til laga um verndun villtra landspendýra auk almennra dýraverndunarlaga hefur nýlega komið fram. Tillaga um að ljúka gerð grunnkorta og gróðurkorta fyrir allt landið var nýlega samþykkt á Alþingi, en Íslendingar eru meðal síðustu þjóða í Evrópu að koma kortamálum sínum í lag.
Þá hefur ráðuneytið haft afskipti af gróðurvernd og m.a. beitt sér fyrir friðun tiltekinna svæða fyrir beit. Verið er að fara yfir ýmis mengunarmál, svo sem losun kolsýru og brennisteinstvíildis út í andrúmsloftið og er unnið að framkvæmdaáætlun til að draga úr slíkri mengun, m.a. með því að innleiða mengunarvarnabúnað á allar bifreiðar. Starfsmenn ráðuneytisins búa yfir bæði faglegri og vísindalegri þekkingu og hefur það komið sér vel í sambandi við hin flóknu verkefni sem þar er verið að vinna að.
    Við göngum ótrauð til kosninganna í vor. Við höfum sterka málefnalega stöðu og getum borið höfuðið hátt. Við erum reynslunni ríkari og fús að takast á við verkefni framtíðarinnar. Það er þörf fyrir frjálslynda stjórnmálahreyfingu sem er ómenguð af hagsmunapoti og þeirri stöðnun sem einkennir gömlu flokkana. Við aðhyllumst stefnu umburðarlyndis, mannúðar og mildi og viljum byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín án lamandi ríkisafskipta og óháður hagsmunagæslukerfi gömlu flokkanna. Við viljum draga úr miðstýringunni og færa meiri völd til landshlutastjórna. Við viljum hugsa um þá sem minna mega sín, enda erum við aðeins sem ein lítil fjölskylda í samfélagi þjóðanna.
    Virðulegi forseti. Við bjóðum öllu frjálslyndu og framfarasinnuðu fólki að ganga til liðs við okkur til átaka fyrir land og þjóð. Góðar stundir.