Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að kjörtímabilið er senn á enda runnið og kosningar á næsta leiti. Á þessum tímamótum er rétt að rifja upp atburði liðinna fjögurra ára, hver staðan er nú um stundir og hverju búast má við á komandi árum. Á þessu kjörtímabili hafa verið myndaðar þrjár ríkisstjórnir. Sú fyrsta, undir forustu Þorsteins Pálssonar, fyrrv. formanns Sjálfstfl., verður lengi í minnum höfð fyrir þá sök að hafa sett á hinn illræmda matarskatt og með fastgengisstefnunni komið atvinnulífinu í rjúkandi rúst á skömmum tíma. Þá tókst þeirri ríkisstjórn, þrátt fyrir skamman tíma á valdastóli, að hækka skatta um helming, úr 42 milljörðum árið 1987 í 62 milljarða árið 1988. Þau eftirmæli sem sú ríkisstjórn á eftir að fá eru án efa að hún hafi verið mesta slys í sögu íslenskra stjórnmála á síðustu tímum.
    Ríkisstjórn undir forustu Steingríms Hermannssonar tók þá við. Með stórfelldum millifærsluaðgerðum kom hún atvinnulífinu til að hökta af stað á nýjan leik.
    Haustið 1989 var þriðja ríkisstjórnin mynduð með þátttöku Borgfl. Við myndun þeirrar ríkisstjórnar var lagður grunnurinn að þeirri þjóðarsátt sem tókst milli aðila á vinnumarkaði í upphafi sl. árs og leitt hefur af sér jafnvægi í efnahagsmálum við lágt verðbólgustig. Gjörbreyting hefur því orðið til batnaðar í efnahagsmálum og ríkir nú meiri friður og sátt en oftast áður. Hins vegar má ekki gleyma því að fólk hefur fært fórnir og að liðinni þjóðarsátt er eðlilegt að launafólk geri kröfur um aukinn kaupmátt og betri lífskjör. Ég hefði kosið að sá tími sem þjóðarsáttin hefur verið við lýði hefði verið betur nýttur til að auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu til að mæta þessum sjálfsögðu kröfum launafólks í landinu. Því miður hefur allt kapp verið lagt á byggingu álvers og hugmyndum um nýjar framleiðslugreinar í iðnaði og aðra atvinnuuppbyggingu ýtt út af borðinu.
    Margt hefur þrátt fyrir allt áunnist á þessu kjörtímabili og mörg þörf lagasetningin náð fram að ganga. Vil ég þar helst nefna stofnun sérstaks umhvrn. sem ég tel að marki tímamót í umræðu um umhverfismál hér á landi. Hins vegar eru málin mörg sem því miður þurfa að bíða. Ég hefði viljað að frv. til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands, þar sem ráðuneytum er fækkað og skipulagi komið á innan ráðuneyta, yrði að lögum. Þá hefði ég kosið með hagsmuni almennings í huga og með tilliti til réttaröryggis að lögfest hefðu verið frv. til stjórnsýslulaga og um upplýsingaskyldu stjórnvalda. En því miður eru allar horfur á að þau nái ekki fram að ganga hér á Alþingi.
    Þá verða það mikil vonbrigði ef frv. dómsmrh. um samfélagsþjónustu og opinbera réttaraðstoð fyrir almenning hljóta ekki afgreiðslu nú á síðustu dögum þingsins. Verði sú raunin er ábyrgð þeirra þingmanna mikil sem standa fyrir því að hefta framgang þessara réttlætismála. Því skora ég á þingheim að sjá til þess

að þessi þjóðþrifamál verði samþykkt við þinglok.
    Góðir landsmenn. Byggðamálin eru stór og mikilsverður málaflokkur sem því miður hefur ekki verið tekið á sem skyldi. Þrátt fyrir verulegan fjáraustur í hin ýmsu verkefni vítt og breitt um landið er ekkert lát á flótta fólks frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins. Sú byggðastefna sem rekin hefur verið hefur gjörsamlega brugðist og ljóst er að taka þarf hana til gagngerðrar endurskoðunar, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem kemur til með að verða í landbúnaði á næstu árum og minnkandi fiskafla.
    Ég hef lagt það til að sett verði á stofn sérstakt ráðuneyti, er fari með byggða- og samgöngumál, svo hægt verði að taka á þessum málum með skipulögðum og samræmdum hætti. Að mínu viti gengur það ekki að mörg ráðuneyti og margir ólíkir aðilar séu að fjalla um þessi mál án samráðs á mörgum stöðum í stjórnkerfinu. Niðurstaða þeirra verka eru endalausar skýrslur en engar aðgerðir.
    Að síðustu, virðulegur forseti. Kosningar eru á næsta leiti. Í þeim verður án efa mikið deilt og gylliboð flokkanna streyma inn um bréfalúgurnar í litprýddum bæklingum. Ég bið ykkur, landsmenn góðir, að taka ekki mark á slíku, heldur meta flokkana af verkum sínum, engu öðru.
    Hvað hefur Sjálfstfl. gert á þessu kjörtímabili og hvað hefur Borgfl. gert? Sjálfstfl. átti sín tækifæri en glutraði þeim niður og þurfti að yfirgefa stjórnarheimilið með skömm eins og hundur með skottið á milli lappanna. Borgfl. hins vegar tók á sínum tíma mjög ábyrga afstöðu, gekk til ríkisstjórnarsamstarfs með reisn og hefur komið því til leiðar að stöðugleiki ríkir í íslensku efnahagslífi og fært þjóðinni sátt á vinnumarkaði og bjarta framtíðarvon.