Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þegar ég var að ganga hingað niður í Alþingishús í kvöld mætti ég gömlum og mjög virtum kennimanni. Hann hafði þá horft á sjónvarpsfréttir nú í kvöld og séð forseta þingsins blasa þar við og Hjörleif Guttormsson hér í ræðustól og hann hafði orð á því að það hlyti að búa mikið inni fyrir hjá manni sem talaði svo lengi. Og auðvitað er það rétt athugað hjá hinum aldna kennimanni. Það býr mikið inni fyrir hjá manni með lífsreynslu og lífsskoðanir Hjörleifs Guttormssonar eins og þær hafa þróast frá því að hann ungur drengur gerðist leiðtogi sósíalista í Menntaskólanum á Akureyri, hvarf síðan austur fyrir járntjald og hefur síðan gengið í gegnum allar þær breytingar sem frjálsræði hefur knúið fram í veröldinni.
    Svavar Gestsson, sem var annar þeirra manna sem leituðu frelsisins fyrir austan tjárntjaldið, talaði um það að við sjálfstæðismenn værum járnharðir. Hann talaði um hina hörðu stefnu okkar sjálfstæðismanna sem er auðvitað fólgin í því að við getum ekki sýnt linkind sem er fram yfir þá hörku sem í veröldinni býr, en sú eina leið til þess að halda uppi þeirri mannúð sem Stefán Valgeirsson dreymir um er auðvitað að gefa hverjum og einum tækifæri til að njóta krafta sinna, til að brjótast fram í athafnalífinu og í lífskjörunum.
    Mér hér á hægri hönd situr forsrh. Hann boðaði til blaðamannafundar fyrir skömmu. Að sumu leyti hefur hann verið skoðanabróðir Hjörleifs Guttormssonar gegnum árin. Hann lýsti því yfir í blöðunum að nú hefði byggðastefnan brugðist þrátt fyrir að miklu fé hefði verið varið til þess að halda uppi sjávarplássunum hringinn í kringum landið. Þetta hefur á hinn bóginn farið fram hjá sjútvrh., ef það er að marka það sem hann sagði hér áðan, þegar hann var að lýsa hinu ágæta atvinnuástandi, m.a. á ýmsum stöðum í hans eigin kjördæmi. Við getum horft til Seyðisfjarðar. Mig minnir að forsrh. hafi skipað tveim ráðherrum, utanrrh. og sjútvrh., að reyna að hlutast til um það að eitthvað af fiskinum sem væri veiddur af togaranum frá Seyðisfirði yrði unnið þar á staðnum. Þannig er um fleiri staði.
    Og þegar talað er um trausta fjármálastjórn, sem Vestfirðingurinn hér mér á vinstri hönd talar mest um, sá ábyrgi fjármálamaður sem á þá miklu lífsreynslu að hafa verið í þessum flokkum báðum, Framsfl. og Alþb., og er þó bjartur yfirlitum, þegar við erum að tala um hinn góða viðskilnað hans, þá er það á sama tíma og við erum hér í þinginu að ræða um það við forsrh. hvernig hægt sé að búa þannig um Atvinnutryggingarsjóð, sem sjútvrh. var að hrósa, og Hlutafjársjóðinn, sem hann var líka að hrósa, að ríkissjóður tapaði sem minnstu af sínum ábyrgðum. Á þessari stundu er talið að tapið nemi um tveim milljörðum af níu. Sumir tala um að helmingi meira af þessu fé sé tapað og glatað. Sjútvrh. reynir að verja sig með því að erlendar skuldir hafi minnkað. Hann sagði það hér í sinni ræðu. Það varð til þess að ég fletti upp í Hagtölum mánaðarins síðan í febrúar. Þar stendur skýrum stöfum að erlend lán sem hlutfall af vergri landsframleiðslu séu nú 52,9%, voru 41,4% 1988, á tíma Þorsteins Pálssonar, og 40,3% 1987. Nú 52,9%. Þetta kallar sjútvrh. að erlendar skuldir séu að lækka.
    Þegar framsóknarmenn eru að hrósa byggðastefnu, þá ættu þeir e.t.v. að velta fyrir sér hvernig komið sé fyrir íslenskum landbúnaði, íslenskum bændum, sem umfram aðra hafa treyst framsóknarmönnum fyrir sinni afkomu. Þeir hafa ekki aðeins ábyrgst það fyrir bændur að koma vörum þeirra á markað þar sem hæst verð fæst fyrir þær, heldur hafa þeir með margvíslegum öðrum hætti reynt að setja skorður við því að bændur gætu búið þannig að atvinnurekstri sínum að þeir gætu sem best aðlagast markaðnum á hverjum tíma.
    Nú hefur búvörusamningur nýlega verið gerður. Og hvert er svo mat Páls Péturssonar? Hann sagði hér áðan að í fyrsta lagi hefði ekki verið hugsað fyrir skattahliðinni. Hann talaði um það í öðru lagi að aðlögunartími væri of stuttur og að byggðaþátturinn hefði verið skilinn eftir, hvorki meira né minna, byggðaþátturinn væri skilinn eftir. Þannig er nú þessi byggðastefna sem verið er að lýsa.
    Við tókum líka eftir því að Stefán Valgeirsson, sem er mjög kunnugur mönnum á landsbyggðinni um allt land, --- hefur verið mikill baráttumaður fyrir þetta fólk, þó að hann því miður hafi vitlaus sjónarmið. Það er önnur saga. En hann vill berjast fyrir þetta fólk. Honum varð það á að segja áðan: ,,Fólkið á landsbyggðinni og láglaunafólkið í Reykjavík.`` Af hverju? Vegna þess að meðaltekjur fólksins úti á landi eru of lágar miðað við það sem er í Reykjavík. Þetta sáum við m.a. nú í sjónvarpinu í kvöld þegar fiskvinnslukonan sagði: Skattarnir eru allt of háir fyrir þær lágu tekjur sem við höfum. Við ráðum ekki við þetta.
    Það er öldungis rétt, sem vinstri flokkar hafa verið að segja hér, að við sjálfstæðismenn viljum lækka skattana. Fyrst viljum við stöðva skattahækkunarskriðu fjmrh., eins og formaður okkar sagði. Síðan vindum við ofan af sköttunum.
    Það er líka öldungis rétt að raunvextir eru of háir hér á landi. Forsrh. kallar það hneyksli. Síðan leitar maður skýringa hjá Seðlabankanum hvernig á því standi og þá kemur í ljós að vextirnir eru svona háir, hærri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Viðskrh. segir að skýringin sé sú að hér sé ríkissjóðshalli, vextirnir séu svona svipaðir hér og í öðrum löndum þar sem er halli á ríkissjóði. Þetta verður til þess að fjmrh. kallar Seðlabankann kosningaskrifstofu Sjálfstfl. Þær eru víða þessar kosningaskrifstofur Sjálfstfl. í dag, fjmrh.
Þær eru hér í þinginu þegar við hlustum á málflutning ríkisstjórnarinnar og horfum á öngþveitið í stjórnarathöfnum. Kosningaskrifstofa Sjálfstfl. er í Ríkisendurskoðun þegar við veltum því fyrir okkur hvernig fjmrh. hefur farið með peningana sem honum hefur verið trúað fyrir. Og stærsta kosningaskrifstofa Sjálfstfl. er þjóðin sjálf sem mun tryggja okkur mikinn sigur í þeim kosningum sem fram undan eru. Því það var rétt, sem Jón Sigurðsson sagði hér áðan, nú kjósum við um framtíðina en ekki þá fortíð sem felst í því að þessi ríkisstjórn sé áfram við völd.
    Ég þakka fyrir og góðar stundir.