Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég hafði hugsað mér að nota tíma minn hér fyrst og fremst til að ræða þá björtu framtíð sem ég sé að búa má þessari þjóð, þá björtu framtíð sem byggir á þeim stöðugleika sem tekist hefur að skapa á undanförnum árum. Framtíð hagvaxtar og betra mannlífs.
    Ég kemst þó ekki hjá því að svara nokkru af því sem komið hefur fram hjá hv. sjálfstæðismönnum sem hér hafa talað.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson minntist á Evrópubandalagið. Í hvert sinn sem hann talar um Evrópubandalagið leynir sér ekki tilhlökkunin í orðum hans þegar hann segir: Við sjálfstæðismenn útilokum ekki fulla aðild. Að vísu hefur hv. þm. þann varnagla að við Íslendingar eigum að hafa í eigin hendi auðlindir okkar, og undir það vil ég að sjálfsögðu taka, en eins og hv. þm. veit alveg eins vel og ég er það grundvallaratriði í stjórnarskrá Evrópubandalagsins að fiskveiðilögsagan fyrir utan 12 sjómílur er sameign Evrópubandalagsins. Og það er grundvallaratriði í stjórnarskrá Evrópubandalagsins að þessi sameign er undir sameiginlegri stjórn í Brussel. Það veldur mér einnig miklum vonbrigðum að hv. þm. minnist ekki á þá staðreynd, það grundvallaratriði, að þegnar Evrópubandalagsins skuli vera jafnir m.a. í því tilliti að hver og einn geti keypt land hvar sem hann óskar. Með öðrum orðum gæti svo farið með fullri aðild að þegnar Evrópubandalagsins, erlendir aðilar með mikinn auð í hendi, gætu keypt hér upp dali og fjöll. E.t.v. er það einhver sú mesta hætta sem við blasir ef við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu. Staðreyndin er sú að þessi litla þjóð, aðeins 250 þús. manns, hefur ekkert bolmagn til þess að gerast að fullu aðili að Evrópubandalaginu.
    Það veldur mér miklum vonbrigðum að Alþfl. er farinn að dekra við þetta hið sama, fulla aðild að Evrópubandalaginu.
    Hv. þm. minntist á vextina og hann sagði réttilega að ég hefði gagnrýnt Seðlabankann fyrir vaxtaákvarðanir. Hv. þm. gat þess ekki að samkvæmt íslenskum lögum eru vaxtaákvarðanir í höndum bankaráðanna og samkvæmt íslenskum lögum er Seðlabankanum ætlað að fylgjast með því að vaxtaákvarðanir séu eðlilegar. Þegar þær eru ekki eðlilegar þá leyfi ég mér að gagnrýna bæði bankaráðin og Seðlabanka Íslands. Nú eru nafnvextir þannig að þeir eru að raungildi u.þ.b. 10% en af verðtryggðum lánum eru þeir um 8%, þ.e. óverðtryggð lán bera langtum hærri vexti en verðtryggð lán. Þetta leyfi ég mér að gagnrýna og ég vil vona að hv. þm., sem situr í bankaráði Landsbankans, skoði þessa hluti vel og beiti áhrifum sínum til þess að lækka vextina. Staðreyndin er vitanlega sú að árangur hefur náðst í lækkun raunvaxta. Raunvextir hafa lækkað frá 9,5% sem þeir voru 1988 í 8% nú, um það munar mikið. Langsamlega mikilvægast er þó að tekist hefur að draga úr verðbólgunni þannig að verðbólguþáttur vaxta er minni. Þetta finnur hver einasti maður sem greiðir af láninu sínu. Hann sér nú í

fyrsta sinn að höfuðstóllinn minnkar þegar hann greiðir af lánum. Svo var ekki áður.
    Hv. þm. Halldór Blöndal minntist á það að erlend lán eru há. Ég er honum sammála, þau eru of há. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar það mikla átak var gert þegar ný ríkisstjórn tók við 1988 til að forða gjaldþroti útflutningsatvinnuveganna um land allt eftir óraunhæft gengi þá varð ekki hjá því komist að taka erlend lán til að endurfjármagna útflutningsatvinnuvegi landsins. Erlendar skuldir hlutu þá að vaxa. Ef hv. þm. Halldór Blöndal lítur hins vegar á Hagvísi, síðasta eintak hans, þá mun hann sjá að Þjóðhagsstofnun getur þess þar sérstaklega að erlend lán fari nú lækkandi og spáir því að erlendar skuldir muni fara lækkandi á árinu 1991.
    Ég ætla ekki að svara fúkyrðum hv. sjálfstæðismanna í garð ríkisstjórnar minnar eða í minn garð persónulega. Ég mun halda því eins lengi og ég tek þátt í stjórnmálum að bera virðingu fyrir mínum stjórnmálaandstæðingum og ég ætla að leyfa mér að trúa því í öll skipti að þeir vilji vel þótt þeim mistakist æði oft.
    Ég sagði áðan að ég hefði helst kosið að ræða um þá björtu framtíð sem þetta land á. Sú ríkisstjórn sem tók við 1988 tók við afar erfiðu búi. Því verður ekki neitað, vitnin eru allt of mörg til að þessu megi neita. Ríkisstjórninni tókst með fjölþættum aðgerðum að ná verðbólgunni niður í 5,3% samkvæmt síðustu upplýsingum frá Hagstofu Íslands, reiknað á tólf mánaða grundvelli. Lægri hefur hún ekki verið um áratugi. Ég get nefnt fjölmörg önnur dæmi um þennan bata, eins og t.d. langtum betri afkomu atvinnuveganna, m.a. sjávarútvegsins, ferðaiðnaðarins, hótelrekstursins, iðnaðarins í landinu almennt. Einn af forustumönnum iðnaðarins sagði við mig: Þú mátt hafa það eftir mér að afkoma iðnaðarins hefur ekki verið betri í 20 ár.
    Það veitti ekki af, því flestar voru þessar atvinnugreinar í miklum erfiðleikum eftir verðbólgueld undanfarinna ára. Staða bankanna er t.d. miklu betri en hún hefur verið. Það er miklu meiri jöfnuður á milli innlána og útlána. Það er loksins núna síðustu tvö ár sem verið hefur afgangur á vöruskiptum þessarar þjóðar. Það er rétt, hv. þm., þú ert að hugsa um viðskiptajöfnuðinn, það var halli þar af því að vextirnir eru miklir, en á vöruskiptum er verulegur afgangur og m.a., mér þykir vænt um að þú viðurkennir það nú, spáir Þjóðhagsstofnun að hann muni fara vaxandi á árinu 1991.
    Það er á þessum grundvelli sem unnt er að byggja bjarta framtíð. Við framsóknarmenn leggjum á það höfuðáherslu að þennan stöðugleika verður að varðveita, ég vil segja, hvað sem það kostar. Við munum ekki byggja þetta land sem sjálfstæð þjóð, jafnvel utan Evrópubandalagsins, ef okkur tekst ekki að koma í veg fyrir nýja verðbólguöldu. En ef við gerum það þá eru engin takmörk fyrir því sem þessi þjóð getur gert. Það eru engin takmörk fyrir þeim góðu lífskjörum sem þessi þjóð getur tryggt sér. Það eru engin takmörk fyrir því góða mannlífi sem hér má skapa. Hvar t.d. í Vestur-Evrópu getið þið, góðir hlustendur, tekið vatn úr krananum og drukkið það og notið þess? Hvar getið þið gengið út og andað að ykkur hreinu lofti og notið þess? Hvar getið þið skroppið nokkrar mínútur og verið komin út í kyrrðina, fagurt umhverfi, og notið þess?
    Það er a.m.k. þannig með mig að þegar ég dvel tvo eða þrjá daga í stórborgum Evrópu þá er ég kominn með sárindi í hálsinn og hlakka til að komast heim.
    Það var af þessum ástæðum sem ég skipaði nefnd snemma í stjórnartíð minni og bað hana að skoða hvernig við gætum byggt á þessari góðu ímynd Íslands, styrkt hana og eflt og notað hana til framdráttar hér á öllum sviðum. Því miður hef ég ekki tíma til þess að rekja niðurstöður þessarar nefndar, en ég mæli eindregið með því að sem flestir kynni sér þær.
    Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hér séu möguleikarnir nánast ótakmarkaðir ef við byggjum á gæðum, hreinleika og hollustu. Erlendir sérfræðingar, sem voru fengnir til ráðuneytis, undirstrikuðu þetta í hverju orði. Þetta þýðir ekki að við getum ekki notað orkuna okkar til einstaka stóriðju. En þetta þýðir að við hljótum að gera hinar ströngustu kröfur til iðnfyrirtækja um hreinleika, um mengunarvarnir.
    Þessu kjörtímabili lýkur fljótlega og það er um margt mjög athyglisvert. Á þessu kjörtímabili hefur tekist að afsanna þá kenningu Sjálfstfl. að flokkarnir í miðjunni og til vinstri geti ekki unnið saman, enda er sundrungarkenningin horfin. Hún hefur verið afsönnuð. Vitanlega hafa þessir flokkar um margt ólíkar skoðanir. En þeir hafa einsett sér að leysa slíkan ágreining. Ég get fullvissað ykkur um það að í mörgum tilfellum hefur niðurstaðan orðið betri en hugmyndir einstakra flokka. Staðreyndin er sú að betur sjá augu en auga. Á þessu tímabili hefur einnig tekist að skapa gott samstarf við verkalýðshreyfingu, launþega, bændur og atvinnurekendur. Draumur sem margir áttu og hafa átt um áratugi og það er sannfæring mín að landinu verður aldrei stjórnað vel án slíks samstarfs. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þessum aðilum fyrir það góða samstarf sem við höfum átt. Við framsóknarmenn erum reiðubúnir til að halda áfram slíku samstarfi.