Lánasjóður íslenskra námsmanna
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu jól var fé til Lánasjóðs ísl. námsmanna skert um 200 millj. frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir og fram hafði verið lagt í fjárlagafrv. Þetta var gert samkvæmt tillögu hæstv. ríkisstjórnar sem sendi þá tillögu til meiri hl. fjvn. og sú varð niðurstaðan við afgreiðslu fjárlaga hér á Alþingi.
    Í umræðum um þetta mál kom það fram hjá hv. 5. þm. Vestf., formanni fjvn., að jafnframt væri það ákveðið að þessi skerðing leiddi ekki til þess að henni yrði mætt með lántöku eða á annan hátt til þess að bæta sjóðnum þetta upp. Þá voru gefnar alveg skýrar yfirlýsingar um að þannig yrði ekki að verki staðið.
    Nú er mér ekki grunlaust um að sjóðinn vanti meira en þessar 200 millj. sem þarna voru skornar niður ef ætti að halda áfram sömu starfsemi og verið hefur og ætti að halda lánahlutfalli í svipuðu horfi. Ég hef því talið ástæðu til að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig á þessu máli verði tekið. Miðað við þær yfirlýsingar sem ég hef vitnað til og afgreiðslu í fjárlögum þá hlýtur annað tveggja að gerast, að námslán verði skert, beinlínis lækkuð til námsmanna, ellegar verksviði sjóðsins verði breytt á þann hátt að lánasviðið verði ekki jafnvítt og áður hefur verið. Því hef ég leyft mér að flytja fyrirspurn, sem hér liggur fyrir til umræðu á þskj. 606, til menntmrh. svohljóðandi:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin mæta 200 millj. kr. niðurskurði á fé Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ákveðinn var við afgreiðslu fjárlaga:
    a) með beinni skerðingu námslána,
    b) með breytingum á verksviði sjóðsins?``