Lánasjóður íslenskra námsmanna
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin að svo miklu leyti sem um svör var að ræða. Hins vegar lauk hann ræðu sinni með sérkennilegum hætti. Þegar ég er að spyrja hæstv. ráðherra hvernig eigi að mæta því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður þessi framlög, þá er hann að gefa undir fótinn með að það sé bara Sjálfstfl. sem vilji halda svona á málum. Eftir að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarmeirihluti hér á Alþingi hefur ákveðið að skerða þessi framlög, þá er það auðvitað ekki Sjálfstfl. sem þar er að verki. Það er hæstv. menntmrh. sjálfur og hæstv. ríkisstjórn.
    Að öðru leyti kom það fram í máli hæstv. ráðherra að hann taldi nú ekki þörf á auknu fé. Hann taldi hins vegar að það kynni að fara svo að það yrði þörf á auknu fé með haustinu, á næsta námsári. Það kemur fram að hæstv. ráðherra hyggst halda þannig á þessu máli ef eitthvað er að marka hans orð að það sé haldið óbreyttu lánahlutfalli og óbreyttu verksviði sjóðsins nú meðan þessi hæstv. ríkisstjórn situr en láta skerðinguna á því fé, sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið, koma til framkvæmda þegar þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá. Þetta er nú stórmennskan sem hæstv. menntmrh. sýnir í þessu máli. Taka ákvörðun um niðurskurð á fé til íslenskra námsmanna og halda síðan óbreyttu lánahlutfalli, halda óbreyttu verksviði sjóðsins en láta það síðan koma í hlut annarra að taka á sig skerðinguna þegar þessi hæstv. menntmrh. er farinn frá og veg allrar veraldar út úr Stjórnarráðinu. Þetta er nú stórmennskan. Og ætla svo að reyna að kenna Sjálfstfl. um það að Sjálfstfl. standi fyrir þessari meðferð á íslenskum námsmönnum.