Dreifð og sveigjanleg kennaramenntun
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Fsp. er borin fram vegna áhuga á málinu, bæði hjá mér og eins fjölmörgum skólamönnum sem ég hef samband við í mínu starfi. Þar er litið á þetta mál sem eitt allra mikilvægasta mál í sambandi við menntun kennara.
    Það kom fram í svari ráðherrans að framhald málsins væri undir því komið hvernig vinna þróaðist við námsskrárgerð og ég þakka það sem kom fram í svörum hans að ráðuneytið hefur reynt að ýta á eftir þessu máli eftir föngum. Ég vona að það takist að tryggja fjármuni til þessa verks og mun ekki standa á mínum stuðningi í því og ég vona að það verði hægt að vinna að því á komandi hausti. Hæstv. menntmrh. var nú nýverið að bjóða sig fram í þetta starf áfram og ég hef ekkert á móti því að vinna að því með honum.
    Ég vil að lokum aðeins undirstrika mikilvægi þessa máls og láta það koma fram hér að áhugi kennara og skólayfirvalda úti í dreifbýlinu fyrir þessu máli er mjög mikill og þetta er eitt allra mikilvægasta mál í því efni að fá í framtíðinni réttindakennara til starfa við skóla um hinar dreifðu byggðir landsins.