Dagskrárefni sjónvarps
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það hefur löngum verið árviss umræða hér í þingsölum að fjármál Ríkisútvarpsins væru rædd og raunar af ýmsum orsökum, oftast vegna skerðingarákvæða á fé sem er ætlað til framkvæmda. En nú hafa afnotagjöld lækkað að raungildi um 3 -- 4% en kröfur til útvarps og sjónvarps fara vaxandi og til dagskrárefnis þeirra tveggja stofnana, enda eru þetta öflugustu útbreiðslutæki sem við ráðum yfir og mikilvægt að það sem þar er flutt sé að öllu vandað og einkum að lögð sé áhersla á hvaðeina sem tengist íslenskri menningu og útbreiðslu hennar og íslensku þjóðlífi fyrr og nú, án þess að ég sé að amast við erlendu efni. En lægri má nú krafan ekki vera en að það sé helmingur þess sem flutt er í sjónvarpi. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. á þskj. 736:
    ,,Hversu mikill hluti dagskrárefnis sjónvarps er innlendur?
    Hvernig er áformað að ná því marki að innlent efni sjónvarpsins verði helmingur af því efni sem þar er flutt?``
    Það er nú kannski að verða úrelt spurning, sú þriðja, þó að ég vilji gjarnan fá það fram samt: ,,Hvað hafa fréttaútsendingar frá Sky kostað hingað til?`` Og kostnaðurinn óskast sundurliðaður.
    ,,Af hvaða þáttum rekstrarkostnaðar var þetta fé tekið?``
    Menningarsjóð útvarpsstöðva hefur oft borið á góma vegna þess að menn sjá ekki lengur rök fyrir því að Ríkisútvarpið greiði þangað jafnvel hærri upphæðir heldur en það fær þaðan aftur eins og mér skilst að hafi gerst. Ég bið forláts ef þetta er ekki rétt staðhæfing hjá mér. En því spyr ég líka:
    ,,Hversu mikið greiddi Ríkisútvarpið í Menningarsjóð útvarpsstöðva á sl. ári?
    Hversu mikið fékk Ríkisútvarpið greitt úr sama sjóði á sl. ári?
    Hversu há fjárhæð er lögbundið framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands á sl. ári?``