Dagskrárefni sjónvarps
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hversu mikill hluti dagskrárefnis sjónvarps er innlendur?`` Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar á því að ég er hér aðeins með Ríkisútvarpið, ég er ekki hér með aðrar stöðvar.
    Svar við fyrstu spurninginni er þetta: Hlutur innlends efnis í dagskrá Sjónvarpsins var 35% af heildarútsendingartíma þess árið 1989. Endanlegar tölur fyrir árið 1990 liggja ekki fyrir, en það er búist við að þar sé um að ræða svipað hlutfall eða kannski eilítið hærra. Á árinu 1989 var sent út í 156.227 mínútur og innlent efni var þar af 54.000 mínútur. Innlenda efnið hafði aukist frá árinu 1984 til ársins 1989 um 109,5% þannig að það er greinilega um það að ræða að innlent dagskrárefni hefur á árunum 1984 og síðan aukist mjög verulega.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvernig er áformað að ná því marki að innlent efni sjónvarpsins verði helmingur af því efni sem þar er flutt?``
    Svar Ríkisútvarpsins er það að vísa til þess að Ríkisútvarpið greiði fjármuni til Menningarsjóðs útvarpsstöðva og greiði afnotagjöld vegna bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins. Í því síðarnefnda tilviki er um að ræða 120 millj. kr. og með þessu svari sínu er Ríkisútvarpið auðvitað að gefa það í skyn að það þurfi viðbótarfjármagn til þess að auka innlent dagskrárefni.
    Mitt svar við þessari spurningu, hv. þm., er hins vegar það að það sé ekki nóg að segja: Það þarf að koma til aukið fé. Ég tel að það eigi líka að breyta forgangsröð innan Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið er stofnun sem veltir 2000 millj. kr. á ári og það er eðlilegt að gera kröfu til þess á þeim tímum sem við lifum á, sem eru eins konar stríðstímar fyrir íslenska menningu, að Ríkisútvarpið breyti sinni forgangsröð og taki meira fé til innlendrar dagskrárgerðar en gert hefur verið. Þessi sjónarmið mín hef ég kynnt Ríkisútvarpinu jafnframt því sem ég hef verið að láta vinna að því að undanförnu að afnotagjöld vegna bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins verði flutt yfir á Tryggingastofnun ríkisins og um Menningarsjóðinn ætla ég að segja nokkur orð síðar.
    Í þriðja lagi var spurt: ,,Hvað hafa fréttaútsendingar frá Sky kostað hingað til?``
    Samkvæmt upplýsingum sem mér hafa borist frá Ríkisútvarpinu --- fyrst er rétt að taka það fram að þessar sendingar eru hættar fyrir löngu, þær hættu 3. mars --- en fyrstu vikurnar var kostnaðurinn 350 þús. kr. á viku. Síðan minnkaði þessi kostnaður. Aukakostnaður vegna útsendinga á efni frá Sky mun vera 1,5 millj. kr. Afnotagjald til Sky var 10 þús. kr. á sólarhring og fast gjald fyrir móttökudisk Pósts og síma var 6000 kr. á sólarhring eða samtals 21 þús. kr. á sólarhring.
    Þá var spurt: ,,Af hvaða þáttum rekstrarkostnaðar var þetta fé tekið?`` Svarið er það að kostnaður vegna Sky - útsendinganna bókfærist að mestu á varasjóð skrifstofu framkvæmdastjóra Sjónvarpsins sem ætluð

er til að mæta óvæntum útgjöldum af þessu tagi.
    Vandinn er sá hvað þetta er ódýrt. Það er kannski alvarlegasta umhugsunarefnið. Ef Sky væri látið ganga hér allan sólarhringinn allt árið, þá mundi kostnaðurinn við það ekki verða nema 15 -- 18 millj. kr., allt árið. Til samanburðar er heildarkostnaður íslenska Sjónvarpsins fyrir aðeins brot úr hverjum sólarhring 1 milljarður. Menn sjá í hvaða vanda þjóð eins og okkar er, þar sem annars vegar er um það að ræða að stórar gervihnattastöðvar geta sent hingað út efni allan sólarhringinn allt árið fyrir bara 18 millj. kr. meðan það kostar okkur 1 milljarð eða meira að reka sjónvarpsstöð eins og okkar stöð. Og ég spyr: Hvar er okkar samkeppnisaðstaða?
    Að því er kannski að einhverju leyti vikið í næstu spurningu hv. þm. en þar segir: ,,Hversu mikið greiddi Ríkisútvarpið í Menningarsjóð útvarpsstöðva á sl. ári?``
    Svarið er: 51,2 millj. kr.
    Síðan er spurt: ,,Hversu mikið fékk Ríkisútvarpið greitt úr sama sjóði á sl. ári?``
    Svarið er: Ríkisútvarpið fékk úthlutað 23 millj. kr. úr Menningarsjóði útvarpsstöðva árið 1990.
    Í drögum að frv. til nýrra útvarpslaga, sem ég lagði fyrir stjórnarflokkana fyrir þremur vikum, gerðum við ráð fyrir því að áfram yrði starfræktur Menningarsjóður útvarpsstöðva. Menn hins vegar gerðu þar tillögu um að rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands flyttist af Menningarsjóði útvarpsstöðva og yfir á ríkissjóð þannig að í raun og veru er það ekki þannig að um sé að ræða lengur eitthvað sem við köllum lögbundið framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur er það þannig að Sinfóníuhljómsveitin á að fá 25% rekstrarkostnaðar frá Menningarsjóði útvarpsstöðva í samræmi við fjárveitingu til hljómsveitarinnar á fjárlögum hverju sinni, þannig að lagaskyldan er fallin af Ríkisútvarpinu út af fyrir sig, en hún er á Menningarsjóði útvarpsstöðva.
    Eins og ég hef hér gert grein fyrir, virðulegi forseti, er hér um að ræða annars vegar að sjálfsögðu menningarmál og hins vegar fjárhagsmál. Það fjárhagsmál snýr bara að ríkissjóði. Það að flytja afnotagjöld aldraðra og öryrkja yfir á Tryggingastofnun ríkisins er spurningin um það að hækka framlög ríkisins til Tryggingastofnunar ríkisins. Og það að flytja Sinfóníuna yfir á ríkissjóð er spurningin um það að auka útgjöld ríkissjóðs um sennilega 30 -- 40 millj. kr. á ári.
    Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að á þessum málum báðum verði tekið, svo og því að þannig verði að málum staðið að Ríkisútvarpið fái í framtíðinni aðflutningsgjöldin til þess að standa undir meiri háttar fjárfestingarkostnaði.
    Það hefur verið rætt um það núna að undanförnu að gera þurfi ráðstafanir til þess að endurbyggja langlínumastrið fyrir Ríkisútvarpið. Við nánari athugun hefur komið í ljós að ýmsir halda því fram að það vandamál sé hægt að leysa með einhverjum öðrum hætti. Af þeim ástæðum hefur verið settur niður starfshópur með fulltrúum Pósts og síma, fulltrúum sjómannasamtakanna, fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúum Ríkisútvarpsins og fleiri aðilum til þess að athuga hvaða kostur er vænlegastur og ódýrastur, en á þeim málum verður tekið nú á næstunni.
    En ég hygg, virðulegi forseti, að þessar tölur sýni að einhverju leyti þann vanda sem við eigum í í hinni alþjóðlegu samkeppni við efni utan úr geimnum sem við erum lítt eða illa varin fyrir eins og er. Það er ekki hægt að loka Íslandi fyrir þessum áhrifum. Hins vegar er hægt að mínu mati, virðulegi forseti, að efla og treysta þannig almennt séð íslenska menningarstarfsemi að hún verði fær til þess, eða færari, að standa af sér þessa bylji sem dynja á henni utan úr geimnum.