Dagskrárefni sjónvarps
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greið og greinileg svör sem skýra ýmislegt. Það er eiginlega alveg dæmalaust að lagður skuli hafa verið á Ríkisútvarpið en ekki Tryggingastofnun sá afsláttur sem örorku - og ellilífeyrisþegar fá af afnotagjöldum og hefði átt að vera búið að kippa því í lag fyrir löngu síðan.
    Sömuleiðis hef ég aldrei getað skilið nauðsyn þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég sé bara engin rök til að Sinfóníuhljómsveitin sé rekin með þeim hætti á kostnað Ríkisútvarpsins.
    Ég hef gögn í höndum sem segja það að hlutur innlends efnis hafi á sl. ári verið um 35% af heildarútsendingum svo að enn er nú nokkuð langt í land með það að 50% náist og það næst ekki, eins og hæstv. ráðherra skýrði fyrir okkur áðan, nema Ríkisútvarpinu sé gert fært að búa að eigin tekjustofnum. Ég sé engin rök fyrir því þó að mörgum finnist gjald til Ríkisútvarps og sjónvarps hátt. Mér finnst það ekki hátt. Ég væri fús til þess að borga meira og ég hygg að þeir séu margir sem eru sama sinnis.
    Hæstv. ráðherra minntist á ný útvarpslög og ég verð nú að segja að mér finnst það dálítið einkennileg vinnubrögð að það hafa tvisvar sinnum verið skipaðar nefndir á launum til að vinna ný útvarpslög sem koma síðan fram svo seint að það er borin von að þau fáist samþykkt á því þingi. Og þó að hæstv. menntmrh. hugsi sér að bjóða sig fram til þess starfa áfram, þá er nú engan veginn sýnt að það áform nái fram að ganga og þá má vera að það frv. lendi í tröllahöndum svo að það hefði verið betra fyrir hann og aðra að það hefði komið fram fyrr og náð fram að ganga á þessu þingi.