Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur beint til mín fyrirspurn um undirbúning fyrir vestnorræna ráðstefnu um jafnréttismál árið 1992. Því er til að svara að félmrn. óskaði eftir umsögn Jafnréttisráðs um hvernig bæri að standa að vestnorrænni jafnréttisráðstefnu, sbr. þingsályktun Vestnorræna þingmannaráðsins. Í umsögn Jafnréttisráðs kom m.a. fram að erindið var rætt á fundi Jafnréttisráðs þann 19. júní sl. og var samþykkt að mæla með því að haldið verði vestnorrænt kvennaþing en ekki ráðstefna.
    Eins og kunnugt er kom fram mikill áhugi á norræna kvennaþinginu í Ósló árið 1988 á að halda sérstakt kvennaþing fyrir íslenskar, færeyskar og grænlenskar konur. Sótt var um styrk til Norrænu ráðherranefndarinnar og fékkst fjárhæð frá ,,Vestnorden fonden`` til að hefja undirbúning. Af Íslands hálfu tóku þátt í undirbúningnum Guðrún Árnadóttir frá BSRB og Lára Júlíusdóttir frá ASÍ ásamt Guðrúnu Ágústsdóttur, starfsmanni Norræna kvennaþingsins hér á landi, og Elsu Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs. Þessari vinnu var síðan hætt þegar fréttist af umræðum Vestnorræna þingmannaráðsins um kvennaráðstefnu. Jafnréttisráð telur því æskilegt að áfram verði haldið þar sem frá var horfið, haldið verði kvennaþing og að undirbúningur þess verði í höndum kvennahreyfinga og verkalýðsfélaga. Mikill áhugi er á slíku þingi í löndunum þremur. Jafnframt gæti vestnorrænt kvennaþing orðið undirbúningur landanna að nýju norrænu kvennaþingi sem til umræðu er að halda árið 1994 eða 1995.
    Jafnréttisráð er reiðubúið að koma inn í undirbúninginn á svipaðan hátt og við undirbúning norræna kvennaþingsins. Jafnréttisráð taldi að undirbúningur þyrfti að hefjast á miðju ári 1991. Á grundvelli þessara umsagna Jafnréttisráðs óskaði ég eftir tilnefningu frá ASÍ, BSRB, Jafnréttisráði, Kvenréttindafélagi Íslands og Kvenfélagasambandi Íslands í undirbúningsnefnd. Undirbúningsnefnd fyrir vestnorræna kvennaráðstefnu hefur verið skipuð og eiga sæti í henni Lára V. Júlíusdóttir, tilnefnd af ASÍ, Þórveig Þormóðsdóttir, tilnefnd af BSRB, Guðrún Árnadóttir, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands, Stefanía M. Pétursdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands og Ragnheiður Harðardóttir, tilnefnd af Jafnréttisráði sem hefur verið skipuð formaður. Nefndin mun síðar gera tillögur um hvernig staðið verður að þessu verkefni.