Barnalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vildi bæta örfáum orðum við það sem ég fyrr sagði af þessu tilefni, en í þessu væntanlega frv. er einnig tekið á öðrum þáttum og vil ég sérstaklega minnast á umgengnisréttinn. Ýmsar breytingar felast í drögum frv. um umgengnisrétt. Meginbreytingin er sú að lagt er til að frumúrlausn um ágreining foreldra út af umgengnisrétti sé, eftir 1. júlí 1992 þegar aðskilnaðarlögin taka gildi, hjá sýslumönnum. Aðilar geta skotið úrlausn sýslumanns til dómsmrn. og leysir ráðuneytið þá úr máli til fullnaðar.
    En meginkjarni þessa máls alls er þó sá sem ég vil að lokum taka fram að í tillögum sifjalaganefndar er það grundvallarsjónarmið áréttað að við allar úrlausnir stjórnvalda og dómstóla skuli það sem barni er fyrir bestu fyrst og fremst haft í huga. Við samningu textans hefur nefndin haft það að leiðarljósi að orðalag taki mið af því að vernda og virða rétt barns.