Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við 1. tölul. þessarar fsp. vil ég taka fram eftirfarandi. Samkvæmt upplýsingum lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar, sem hefur umsjón með uppboðsmálum stofnunarinnar, er reynt að selja íbúðir sem stofnunin eignast á nauðungaruppboðum eins fljótt og kostur er. Eignirnar eru seldar í því ástandi sem þær eru keyptar. Ekki er lagt í kostnað við endurbætur nema bráða nauðsyn beri til, en lágmarksviðhaldi er jafnan sinnt. Eignir sem Byggingarsjóður ríkisins hefur keypt á uppboðum eru margar í mjög lélegu ástandi og oft á stöðum þar sem erfitt er með sölu íbúða. Ljóst er að í verstu tilfellunum hefur eignum hrakað við að standa auðar í langan tíma þegar sölutilraunir hafa ekki tekist.
    Þegar hagsmunagæsla fyrir byggingarsjóðina vegna nauðungaruppboða var færð frá veðdeild Landsbankans til lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar 1. júlí 1990 var vinnureglum breytt varðandi kaup á uppboðum. Þannig voru settar reglur um strangara mat á því hvort borgi sig fyrir byggingarsjóðina að kaupa eignir á uppboði. Eftir að meðferð uppboðsmála var færð til Húsnæðisstofnunar er afgreiðsla þessara mála hraðari en áður.
    Varðandi 2. tölul. fsp. vil ég taka fram eftirfarandi. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins fylgjast starfsmenn lögfræðideildar með íbúðum í eigu stofnunarinnar eins og kostur er. Fjölgun uppboðsmála hefur leitt til þess að nú er unnið að því að breyta fyrirkomulagi þessa þáttar. Markmiðið með breyttu fyrirkomulagi er m.a. að gera eftirlit virkara og betra en nú er. Umsjón og eftirliti stofnunarinnar verður þannig háttað að landinu verður skipt niður í fimm umsjónarsvæði. Síðan verður skilgreint og ákveðið hvaða starfsmaður stofnunarinnar fer með ábyrgð á kaupum, eftirliti og sölu uppboðsíbúðanna á hverju svæði fyrir sig. Reiknað er með að nýtt fyrirkomulag komist í gagnið 1. júlí nk.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi með þessu svarað fsp.