Aðflutningsgjöld af leigubifreiðum
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda að sú breyting sem gerð var, að mig minnir í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar, hefur haft það í för með sér að mjög hefur dregið úr möguleikum leigubílstjóra til þess að endurnýja atvinnutæki sín. Þessi mál hafa verið til ítarlegrar skoðunar í fjmrn. og ég hef átt viðræðufundi með forustumönnum samtaka leigubifreiðastjóra. Niðurstaðan af því er sú að ég hef ákveðið að beita mér fyrir því að aðflutningsgjöld af leigubifreiðum verði lækkuð til samræmis við aðflutningsgjöld af öðrum bifreiðum til mannflutninga eða sambærilegum atvinnutækjum.
    Það hefur verið smíðað í fjmrn. frv. sem er fullfrágengið og fjallar um sérstakt gjald af bifreiðum, víðtækur lagabálkur. Í því frv. er að finna ákvæði þar sem varanleg heimild til þess að lækka sérstaklega gjaldið af bifreiðum sem notaðar eru í atvinnuskyni, þar með talið leigubifreiðum, er sett inn í lögin. Ég taldi hins vegar ekki skynsamlegt að fara með þetta frv. hér inn í þingið núna á síðustu vikum þingsins. Sýnist mér að annir í þinginu og afgreiðsla annarra frumvarpa sem sum komu fram fyrir áramót hafi sýnt að það var skynsamleg ákvörðun. Hins vegar hef ég tilkynnt forustumönnum samtaka leigubifreiðastjóra formlega með bréfi frá fjmrh. að þetta frv. sé fullsmíðað í fjmrn. og ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um það að leggja það fyrir Alþingi á fyrsta þingi eftir kosningar, á haustþinginu. Ef hér verður sumarþing kemur vissulega til greina að leggja frv. fyrir þá ef það þing mun afgreiða ýmis mál.
    Svarið er þess vegna skýrt. Fjmrh. hefur tekið þá afstöðu að lækka aðflutningsgjöld af leigubifreiðum. Það er fullsmíðað frv. um það efni í fjmrn. og ráðuneytið hefur tilkynnt samtökum leigubifreiðastjóra að frv. verði lagt fram þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir kosningar.