Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 957 um frv. til laga um breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 frá 6. okt. 1987, með síðari breytingum. Nál. þetta er frá allshn.
    Áður en ég fer aðeins yfir frv. ætla ég að lesa hér þetta stutta nál., en þar segir svo:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru í meðferð neðri deildar.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn.
    Hér er verið að breyta töluvert þeim kosningalögum sem í gildi eru. Það sem er einkum breytt og það sem kannski varðar mestu er það í fyrsta lagi að nú er verið að stytta framboðsfrest úr mánuði í hálfan mánuð en einnig varðandi utankjörstaðaatkvæðagreiðslur að þær skuli vera einn mánuður í staðinn fyrir tvo eins og verið hefur. Þá er einnig veigamikil breyting er felst í því að það þurfi aukinn meðmælendafjölda með hverjum lista. Síðan eru ýmsar tæknilegar og efnisbreytingar. Þetta eru svona helstu breytingar sem fram koma í þessu frv. og kannski þau atriði sem mest hefur verið rætt um og spurt hvort ástæða væri til að breyta.
    Það komu upp í nefndinni hugmyndir um að hafa samræmi á milli þess tíma sem utankjörstaðaatkvæðagreiðsla getur hafist og framboðsfrests og jafnvel hugsað um að hafa þrjár vikur til kjördags hvoru tveggja, en það var fallið frá þeim hugmyndum. Einnig kom mjög til umræðu hvort ekki ætti að fækka meðmælendum en menn litu þannig á að mjög áríðandi væri að þetta mál færi í gegnum þingið nú og því ekki tekin áhætta á að þetta mál færi aftur til neðri deildar. Einnig má minna á það að þetta frv. hefur verið töluvert mikið til umfjöllunar og það er samið af svokallaðri stjórnskipunarnefnd sem hafði mikið og gott samráð við þingflokka á Alþingi og er frv. afrakstur þeirrar vinnu.
    En ég, fyrir hönd nefndarinnar, mæli með samþykkt frv. óbreytts. Neðri deild hefur fjallað um frv. og gerði veigalitlar breytingar á sínum tíma.