Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan. Auðvitað væri eðlilegra að endurskoða kosningalög þegar eftir kosningar og breyta og lagfæra það sem þurfa þykir í tíma á fyrsta þingi eftir kosningar. Auðvitað er ég sammála hæstv. ráðherra um það. En nú hefur þetta dregist eins og ýmislegt fleira og það er margt í þessu sem þarf að lagfæra og leiðrétta og þá þykir auðvitað henta að afgreiða kosningalögin á síðasta degi fyrir kosningarnar.
    Ég er á hinn bóginn sammála því sem fram kemur að stytta framboðsfrestinn til þess að gera lýðræðið virkara, tel að það sé í samræmi við þann vilja þingsins að heimila áfram þingrof. Ef við á annað borð göngum út frá þingrofsréttinum þá tel ég heppilegt að hægt sé að ákveða kosningar með mjög skömmum fyrirvara.