Listamannalaun
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Þetta frv. er eins og kunnugt er unnið af nefnd sem í sátu hv. þm. Ragnar Arnalds og Eiður Guðnason, Gerður Steinþórsdóttir og Brynja Benediktsdóttir, forseti Bandalags ísl. listamanna. Ég hygg að menn þurfi í þessu sambandi fyrst og fremst að átta sig á því að hér er annars vegar um að ræða breytingu á starfsemi sem þegar er til, þ.e. að því er varðar rithöfundana, og hins vegar er um að ræða starfsemi sem ekki hefur verið til áður og þar er um að ræða tónskáldin.
    Út af fyrir sig eru ábendingar hv. þm. um að það hefði mátt hugsa sér að þessum málum hefði verið ráðið þannig til lykta að um væri að ræða deildaskiptan heildarsjóð þar sem upphæðir væru ekki ákveðnar eins og hér er í raun og veru gert á hverja listgrein, en það er það sem hv. þm. var að tala hér um. Ég teldi út af fyrir sig að það gæti almennt séð vel komið til greina. En ég hygg að það sem valdi því að menn kusu að raða þessu niður á sjóði og listgreinar með þessum hætti sé ósköp einfaldlega það að listgreinarnar sem slíkar vilja hafa það eins skýrt og hægt er að hverju þær ganga. Rithöfundarnir hafa t.d. lagt á það mjög mikla áherslu að ekki verði um það að ræða að stofnaður verði einn heildarlistamannasjóður í landinu vegna þess að þar með gæti þeirra hluti skerst frá því sem verið hefur. Þess vegna hafa menn horfið að því ráði að flokka þetta niður á listgreinar.
    Spurningin er þá: Hvernig er mánaðafjöldinn valinn? Ég hygg að mánaðafjöldinn að því er varðar rithöfundana sé valinn með hliðsjón af því sem verið hefur. Ég hygg að að því er varðar tónskáldin sé m.a. tekið mið af drögum að frumvörpum sem hafa legið mjög lengi fyrir. Og ég hygg að það sama eigi við um myndlistarmennina. Því er við þetta að bæta að um þessi mál hefur verið fjallað mjög lengi. Það var starfandi nefnd á vegum hæstv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar um skeið undir forustu Halldórs Blöndals þar sem á þessum málum hafði verið tekið og í gögnum þeirrar nefndar kom það fram að menn höfðu fjallað um tiltekna skiptingu með hliðsjón af reynslu og almennri sanngirni án þess að á bak við niðurstöðurnar séu mjög nákvæm vísindi. Það er í raun og veru ekki hægt að halda því fram að svo sé. En í staðinn fyrir að hverfa þá að því ráði að hafa þetta einn pott var ákveðið að skipta þessu á listgreinar vegna þess að menn treystu sér ekki til að fallast á það sjónarmið í hópi rithöfunda af því að þar með gerðu þeir ráð fyrir því að þeirra hlutur yrði þá hugsanlega skertur vegna þeirra listgreina sem eru að eflast á þessari öld, þ.e. myndlistarinnar og tónlistarinnar.
    Fyrir þessu eru sem sagt almennar skýringar en ekki mjög nákvæm eða ítarleg vísindi. Þetta á sér stað og niðurstaðan kemur fram sem málamiðlun margra sjónarmiða á löngum tíma og það er mitt svar á þessu stigi málsins, virðulegi forseti.