Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 15. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Frsm. meiri hl. fjh. - og viðskn., hv. 5. þm. Reykv., mismælti sig áreiðanlega ekki þegar hann sagði hér í sinni ræðu að lögin um Hlutafjársjóð og Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina hefðu verið sett til þess að endurreisa atvinnulífið. Ég held að hv. þm. standi í þessari meiningu að það hafi í fyrsta lagi verið þörf á að endurreisa það og í öðru lagi að þessir sjóðir hafi bjargað einhverju. En auðvitað var það mikið slys að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð. Í rauninni ætti það ekki að vera ég sem svara fyrir þetta, heldur hæstv. sjútvrh. sem gengur hér um sali því að það fór óskaplega lítið fyrir honum á árunum 1987 -- 1988 og ef sjávarútvegurinn hefur verið þá í kalda koli, þá hefur það a.m.k. farið fram hjá sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni á þeim tíma sem Þorsteinn Pálsson var forsrh. því að ekki varð þess vart að hann hefði í eitt einasta skipti reynt að hressa eitthvað upp á sakirnar og sjálfur hefur núv. forsrh. kveðið svo sterkt að orði að hann sagði að hann hefði verið í fílabeinsturni og ekki áttað sig á ástandinu, sem bendir þá til þess að sjútvrh. hafi heldur ekki rætt þessi atvinnumál innan Framsfl., a.m.k. ekki við formann Framsfl. Þannig að öll er nú þessi sagnfræði hálfundarleg og hálfskrýtin, en hitt er áreiðanlega rétt að sá hringlandaháttur sem var í Framsfl. og Alþfl. á árunum 1987 -- 1988 hefur dregið langan slóða á eftir sér. Stjórnarslitin verða klassískt dæmi um siðferðisbrot í íslenskri pólitík, pólitíska spillingu, og sú ríkisstjórn sem við tók, það má auðvitað vel segja að það hafi verið A - ríkisstjórn eins og nú vill Alþfl. halda áfram að hafa Ísland í A - flokki --- ég veit ekki hvort maður á að segja að það sé ríkisstjórn sem verður afturreka með álverksmiðjur víða um land, ég veit ekki hvort maður á að segja að það sé ríkisstjórn atvinnuleysis, ég veit ekki hvort við eigum að segja að það sé ríkisstjórn axarskafta. Þá um leið gefur það einkunn þeim A - flokki sem Alþfl. berst nú mest fyrir.
    En ástæðan fyrir því að ég stend upp er vitaskuld sú að ríkisstjórnin vaknar nú upp við þann vonda draum að um 2 milljarðar kr. eru þegar tapaðir af því fé sem lagt hefur verið í Hlutafjársjóð og Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Og fleira fé tapast, kannski 2 milljarðar í viðbót, kannski 3 af þeim 9 milljörðum eða 10 sem í þessum sjóðum eru. Og þá er spurningin hvernig eigi að halda á fjármálum Atvinnutryggingarsjóðs sem við erum hér að tala um.
    Eins og frv. liggur fyrir er gert ráð fyrir því að Ríkisábyrgðasjóður verði að samþykkja það ef lánum úr Atvinnutryggingarsjóði eða skilmálum lána er breytt til þess með þeim hætti, með mjög stífum hætti, að koma í veg fyrir frekari bein töp þessa eina sjóðs sem efni standa til og er þá samkvæmt frv. auðvitað ekki hugsað um aðra hagsmuni þeirra sjóða sem á eftir koma eða hagsmuni í byggðarlögum, forsögu máls o.s.frv. Á þetta vildum við sjálfstæðismenn að sjálfsögðu ekki fallast.
    Við höfum nú fallist á að greiða fyrir þessu með

þeim hætti að stjórn Byggðastofnunar sé heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda eignir sínar, þar með talið að skuldbreyta, breyta skilmálum lána atvinnutryggingardeildar, breyta þeim í víkjandi lán eða fella þau niður, enda liggi fyrir samþykki forsrh. og fjmrh. Og ég tek það svo að það sé stjórn Byggðastofnunar sem hefur yfirumsjón með deildinni. Nú hef ég ekki lögin við hendina. Ég sé að það er enn einu sinni búið að breyta orðalagi. Ég hafði ekki tekið eftir því í nefndinni, en það er alltaf verið að breyta orðalagi á þessu öllu saman. Það stendur ekki steinn yfir steini og maður veit aldrei hvernig þingskjölin líta út frá einum degi til annars. Hér stendur Prentað upp. Ég verð nú þegar ég hef lokið máli mínu að biðja um svigrúm til þess að skoða lögin. Hér stendur í textanum eins og hann er í frv.: ,,Stjórn Byggðastofnunar er þó óheimilt . . . `` en hér stendur: ,,Deildinni er heimilt að grípa til . . . `` Mér er ekki alveg ljóst af hverju deildin kemur í staðinn fyrir stjórn Byggðastofnunar og ég beini þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar hver sé hugsunin á bak við það. Er það með vilja gert? ( SkA: Þú skalt lesa fyrstu línuna í brtt.: ,,Stofna skal . . . ``) Já, atvinnutryggingardeild við Byggðastofnun. En af hverju er tekið út þarna ,,Stjórn Byggðastofnunar``? Á það ekki að standa? Þarf ekki að prenta þetta skjal upp á nýjan leik? ( Gripið fram í: Varst það ekki þú sem lagðir til að . . . ?) Nei, ég lagði það ekki til, nei. Ég hef ekki gert neina athugasemd . . . (Gripið fram í.) Nei, þú ert að tala um Hlutafjársjóðinn. (Gripið fram í.) Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þetta. Ég skil ekki alveg hugmyndina en vil nú fá að athuga þetta orðalag nánar, af hverju stendur ,,Deildinni er heimilt að grípa til`` viðeigandi ráðstafana, en ekki ,,Stjórn Byggðastofnunar``. Stjórn Byggðastofnunar er kórrétt orðalag. Það sé alveg afdráttarlaust að stjórn Byggðastofnunar, sem ber pólitíska ábyrgð á innheimtu og öðru í sambandi við Atvinnutryggingarsjóðinn, eigi að fjalla um þau atriði sem þarna koma til.
    Í öðru lagi vil ég að það komi fram að þegar við föllumst nú á það sjálfstæðismenn að samþykki forsrh. og fjmrh. þurfi að koma til höfum við í huga að ráðherrar þessir líti á málið öðruvísi en ætla má að Ríkisábyrgðasjóður líti á málið. Við erum með öðrum orðum að undirstrika að við teljum að það verði að fara með lán í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina út frá svipuðum sjónarmiðum eins og gert er um lán í Byggðastofnun, en við séum ekki að ætlast til þess að þetta sé stíft, að á málum deildarinnar verði haldið eins og gert er í Ríkisábyrgðasjóði. Það er hins vegar umhugsunarefni, vegna þess að stjórnarsinnar eru svo hrifnir af þessum sjóði, hvað hann hefur gert mikið gagn, þá er það umhugsunarefni af hverju stjórnarsinnar eru svo hræddir um að peningarnir tapist. Af hverju er t.d. hv. þm. Hellissands svona óskaplega hræddur um að peningarnir tapist sem eru í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina? Með hvaða vitneskju situr hann uppi sem hann lætur ekki í ljós hér í ræðustólnum? Af hverju er hann að hrósa þessum aðgerðum ef hann heldur að þetta fé sé

meira og minna tapað? Og hið sama má raunar segja um fjmrh. og um forsrh. og um alla stjórnarsinnana hér. Af hverju þarf að hnýta þetta svona fast ef fyrirtækin sem Atvinnutryggingarsjóðurinn lánaði til væru vel sett?
    Ég get tekið sem dæmi fyrirtæki eins og Álafoss. Nú hafa báðir þessir sjóðir komið að því fyrirtæki sem er auðvitað hálfopinbert fyrirtæki sem samkvæmt skilgreiningu er eitthvert versta fyrirbæri sem til er í hvaða landi sem er. Því fyrirtæki hefur verið deilt á tvo landsfjórðunga, Akureyri og hér uppi í Mosfellssveit. Nú er búið að selja hverja einustu byggingu sem tilheyrði þeirri gömlu Gefjun og þeirri gömlu Heklu. Ekkert af því er lengur í eigu fyrirtækisins og höfuðstöðvarnar fluttar suður til Reykjavíkur. Þá auðvitað sér maður fram á það að það fólk sem hefur atvinnu í slíku fyrirtæki norðan fjalla getur ekki verið öruggt um sjálft sig og þess vegna skiptir það miklu máli fyrir þá sem eru fulltrúar þessa fólks að þeir geti komið þeim skilaboðum skýrt til ráðherra sem taka við ábyrgðinni, að þeir ætlast til þess að forsaga þess máls sé höfð í huga þegar ríkisfyrirtækið Álafoss og verksmiðjur Sambandsins voru sameinaðar.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en óska eftir því að fá aðeins að athuga betur þetta orðalag og bíð eftir því að formaður nefndarinnar --- ég veit nú ekki hvort hann er lengur í deildinni --- gefi skýringar á því hvers vegna hann breytti þessu orðalagi.